Blanda - hlaðvarp Sögufélags
Blanda – fróðleikur gamall og nýr er hlaðvarp Sögufélags. Ætlunin er að Sögufélag komi sögunni með öllum sínum spennandi viðburðum, óvæntu atburðarás og dularfullu fyrirbærum á framfæri við þig. Sögufélag gaf út tímaritið Blöndu – fróðleikur gamall og nýr sem kom út í heftum á árunum 1918 til 1953 og innihélt læsilegar sögulegar frásagnir við hæfi almennings. Það lýsir þeirri hugmyndafræði að ekki væri nægilegt að bera á borð heimildir sem einhverskonar hráefni heldur yrði að vinna úr því. Tímaritið naut mikilla vinsælda en þar birtust m.a. ritgerðir, stuttar sögur, kveðskapur og margskonar fróðleikur. Ætlunin er að hin nýja Blanda verði við hæfi jafnt lærðra sem leikra og viðhaldi þeirri ríflega aldar gömlu hefð Sögufélags að miðla sögunni til almennings. Umsjónarmenn hlaðvarpsins eru ýmsir velunnarar félagsins.