Tilkynningar frá Sögufélagi

Skrifstofa Sögufélags lokar 1. júlí vegna sumarleyfa en opnar aftur eftir verslunarmannahelgi þriðjudaginn 3. ágúst.
 

Vandamál við dreifingu á vorhefti Sögu

Vorhefti Sögu fór í dreifingu í fyrstu viku júní fyrir Sögukvöldið sem haldið var þann 10. júní. Samið hafði verið við nýja dreifingaraðila um heimakstur á höfuðborgarsvæðinu og því miður fylgdu því miklir byrjunarerfiðleikar. Fyrir vikið seinkaði dreifingu en vonandi eru félagar komnir með hnausþykkt heftið í hendur núna. Innheimtukröfur hafa verið stofnaðar í banka en þeir sem óska eftir að fá sendan reikning fyrir heftinu geta haft samband við Sögufélag í póstfangið sogufelag@sogufelag.is.

Við biðjumst innilegrar afsökunar á þessum töfum á dreifingu.

Nýr þáttur af Blöndu

Blanda #12

Út er kominn nýr þáttur af Blöndu, hlaðvarpi Sögufélags. Þar ræðir Markús Þórhallsson við Kristínu Svövu Tómasdóttur, annan ritstjóra Sögu, um vorhefti Sögu 2021 og verkefnin framundan hjá Kristínu Svövu.

Þátturinn er aðgengilegur á flestum hlaðvarpsveitum og á vefsíðu Sögufélags:
https://sogufelag.is/blanda_hladvarp/saga-vorhefti-2021/

Baldur Þór Finnsson skrifar undir útgáfusamning við Sögufélag

Baldur Þór Finnsson skrifaði nýverið undir útgáfusamning við Sögufélag. Bókin verður gefin út á hálfrar aldar afmæli Ásatrúarfélagsins vorið 2022 í ritröðinni Smárit Sögufélags og byggir á BA-ritgerð hans í sagnfræði, Frá Guði til goða. Viðbrögð íslensks samfélags og stjórnvalda við stofnun Ásatrúarfélagsins 1972-1973.

Í bókinni er fjallað um viðbrögð stjórnvalda og almennings við stofnun Ásatrúarfélagsins á sumardaginn fyrsta árið 1972. Félagið, sem byggir á endurvakningu á norrænni goðfræði, vakti strax athygli og kallaði fram viðbrögð, enda ógnaði það einsleitum trúarmálum hér á landi. Margir hræddust heiðið trúfélag, blót og helgisiði félagsmanna og jafnvel dýrafórnir eða barnaútburð. Ásatrúarfélagið var síðan viðurkennt af stjórnvöldum árið 1973, ári eftir stofnun þess, og varð fyrsta félagið sem byggir á Ásatrú sem fékk formlega viðurkenningu sem trúfélag.

Sögukvöld 10. júní

Saga er komin út og því ber að fagna!
Þetta fyrsta hefti ársins er óvenju þykkt og í því eru fjórar ritrýndar greinar. Tveir af höfundum þeirra koma á Sögukvöld, fimmtudaginn 10. júní, kynna sínar greinar og spjalla við viðstadda:
Þorsteinn Vilhjálmsson ræðir um tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu á millistríðsárunum.
Sveinn Máni Jóhannesson ræðir grein sína sem er af hugmyndasögulegum toga og fjallar um repúblikanisma og áhrif hans á hugmyndaheim sjálfstæðisbaráttunnar og kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar.
Vegna þess að ekki var hægt að halda Sögukvöld þegar annað hefti ársins 2020 kom út, ætlar Hafdís Erla Hafsteinsdóttir einnig að kynna sína ritrýndu grein úr því hefti.
Hafdís Erla ræðir landnám kynjasögunnar á Íslandi á þessari öld, breytt viðfangsefni, sjónarhorn og breytta stöðu kvenna innan sagnfræðinnar.
Saga verður til sölu, auk annarra bóka Sögufélags. Allir velkomnir í Gunnarshús, Dyngjuvegi 8, kl. 20.
Léttar veitingar í hléi.

Fyrsta hefti Sögu 2021 er komið út

Fyrsta hefti Sögu árið 2021 er komið út og dreifing hafin!

 

Heftið er óvenju þykkt og í því eru fjórar ritrýndar greinar. Grein Barts Holterman byggir á ítarlegri einsögulegri rannsókn á vitnisburði sem kom fram fyrir dómi í Hamborg árið 1602 og varpar athyglisverðu ljósi á alþjóðlega viðskiptahætti á Íslandi við upphaf dönsku einokunarverslunarinnar. Grein Sveins Mána Jóhannessonar er af hugmyndasögulegum toga en þar fjallar hann um repúblikanisma og kannar áhrif hans á hugmyndaheim sjálfstæðisbaráttunnar og kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar. Í þriðju grein heftisins skrifar Þorsteinn Vilhjálmsson um tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu á millistríðsárunum. Loks fjallar Helga Jóna Eiríksdóttur um skjalasöfn sýslumanna, þá rannsóknarmöguleika sem þau bjóða upp á og þá skjalfræðilegu greiningu sem liggur slíkri notkun til grundvallar.

 

Í heftinu eru 14 ritdómar og ein ritfregn en einnig skrifar Ólína Þorvarðardóttir svar við ritdómi Viðars Hreinssonar um bók hennar, Lífgrös og leyndir dómar.


Á forsíðu að þessu sinni eru gripir sem fornleifafræðingar grófu upp úr gömlum ruslahaug í Hljómskálagarðinum sumarið 2020. Fáir eru jafn meðvitaðir um merkingu og mikilvægi sorps og einmitt fornleifafræðingar og um það skrifar Ágústa Edwald Maxwell forsíðumyndargrein.


Sigurður Gylfi Magnússon hefur umsjón með álitamálunum og skrifar ásamt þremur nemendum sínum, Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur, Jakobi Snævar Ólafssyni og Svavari Benediktssyni, álitamálapistla um margskonar blekkingar í sögulegu og fræðilegu ljósi.

Í þættinum Saga og miðlun fjallar Björn Þór Vilhjálmsson um ritun, heimildir og heimildarvanda íslenskrar kvikmyndasögu sem hefur verið ofarlega á baugi undanfarið. Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar grein um verk og hugsjónir Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur kynja- og sagnfræðings sem lést síðastliðið sumar. Í viðhorfsgein veltir Helgi Þorláksson fyrir sér hvaða hugtak sé best að nota um stöðu Íslands gagnvart Danmörku fyrr á öldum. Loks skrifar Helga Hlín Bjarnadóttir um athyglisvert bréfasafn lausakonu í Reykjavík á nítjándu öld fyrir þáttinn Í skjalaskápnum. 

Einnig birtast andmæli við doktorsvörn Kristjönu Kristinsdóttur í sagnfræði við Háskóla Íslands sem fjallar um þróun konunglegrar stjórnsýslu og skjalasöfn lénsmanna á tímabilinu 1541 til 1683. Loks er í heftinu að finna ársskýrslu Sögufélagsins fyrir 2020-2021.  

Bókabazar Sögufélags / Aðalstræti 10

Bókabazar Sögufélags fer fram helgina 5.-6. júní í elsta húsi Reykjavíkur í Aðalstræti 10. Opið frá kl. 12 til 17 og allir velkomnir!

Þetta er tilvalið tækifæri til að finna gamlar gersemar í bland við nýjar bækur. Í boði verða allir titlar úr langri útgáfusögu Sögufélags sem enn finnast á lager félagsins. Margt sem ekki hefur ratað á aðra bókamarkaði lengi og það á verulega lækkuðu verði.

Mikið úrval af Sögu. Allir árgangar, allt aftur til fimmta áratugarins, sem enn eru til verða í boði á gjafaverði. Tilvalið að fylla upp í safnið eða sjá hvað sagnfræðingar voru að hugsa forðum, t.d. á manns eigin fæðingarári.   

Valdir titlar eru einnig fáanlegir á lækkuðu verði á heimasíðunni okkar: www.sogufelag.is