Sögukvöld 10. júní

Saga er komin út og því ber að fagna!
Þetta fyrsta hefti ársins er óvenju þykkt og í því eru fjórar ritrýndar greinar. Tveir af höfundum þeirra koma á Sögukvöld, fimmtudaginn 10. júní, kynna sínar greinar og spjalla við viðstadda:
Þorsteinn Vilhjálmsson ræðir um tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu á millistríðsárunum.
Sveinn Máni Jóhannesson ræðir grein sína sem er af hugmyndasögulegum toga og fjallar um repúblikanisma og áhrif hans á hugmyndaheim sjálfstæðisbaráttunnar og kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar.
Vegna þess að ekki var hægt að halda Sögukvöld þegar annað hefti ársins 2020 kom út, ætlar Hafdís Erla Hafsteinsdóttir einnig að kynna sína ritrýndu grein úr því hefti.
Hafdís Erla ræðir landnám kynjasögunnar á Íslandi á þessari öld, breytt viðfangsefni, sjónarhorn og breytta stöðu kvenna innan sagnfræðinnar.
Saga verður til sölu, auk annarra bóka Sögufélags. Allir velkomnir í Gunnarshús, Dyngjuvegi 8, kl. 20.
Léttar veitingar í hléi.