Um Sögufélag
- Heim
- Um Sögufélag
Stofnað árið 1902
Um Sögufélag
„Markmið félagsins er að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni, einkum um sögu Íslands. “
Sögufélag vill auka þekkingu, skilning og áhuga á sögu Íslands, og ná til almennings, fræðimanna, sagnfræðinema og annars áhugafólks um sögu. Sögufélag vill vera sýnilegt í samfélaginu, miðla efni og efla samtal um sögu og sagnfræði. Það gerir félagið með útgáfustarfsemi sinni, málþingum, höfundakvöldum og öðru þess háttar. Félagið hefur jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni.
SAGA
Tímarit Sögufélags
Sögufélag gefur út tímaritið Sögu og vönduð sagnfræðirit um sögu Íslands og annað sögulegt efni. Útgefin rit félagsins skulu vera fjölbreytt að efnisvali og gefin út á prenti eða með rafrænum hætti. Áherslur og forgangsröðun má sjá í útgáfustefnu Sögufélags.
Sögufélag miðlar upplýsingum um starfsemi sína með því að kynna viðfangsefni sín skipulega, vekja umræðu um útgáfur sínar og stuðla markvisst að samræðu í samfélaginu um söguleg efni. Í miðlunarstefnu eru leiðir að markinu skilgreindar frekar.
Til þess að ná markmiðum sínum hefur Sögufélag á frumkvæði að samstarfi við stofnanir, skóla, fræði- og menningarfélög.

Almennar upplýsingar um skrifstofu
Skrifstofa & stjórn
Sögufélag er til húsa í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8. Skrifstofa félagsins og verslun þess er opin mánudaga og þriðjudaga kl. 13-17. Utan þess tíma má hafa samband í netfangið sogufelag[hja]sogufelag.is eða í síma 781 6400. Fréttir og upplýsingar um viðburði félagsins má einnig finna á fréttasíðunni og á fésbókarsíðu Sögufélags.
Framkvæmdastjóri:
Brynhildur Ingvarsdóttir, sagnfræðingur – brynhildur[hjá]sogufelag.is, sími: 781-6400
Starfsmaður:
Jón Kristinn Einarsson, sagnfræðingur – sogufelag[hja]sogufelag.is
Stjórn Sögufélags frá apríl 2019 og áfram
Forseti
Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður: forseti[hjá]sogufelag.is
Ritari
Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar á Landsbókasafni Íslands: orn[hjá]landsbokasafn.is
Gjaldkeri
Helga Maureen Gylfadóttir, verkefnastjóri sýninga á Borgarsögusafni: helga.maureen.gylfadottir[hjá]reykjavik.is
Kynningarstjóri
Lóa S. Kristjánsdóttir, sögukennari við Menntaskólann við Sund: loakristjansdottir[hjá]gmail.com
Meðstjórnendur
Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands: hhugason[hjá]hi.is
Markús Þ. Þórhallsson, stundakennari við Háskóla Íslands: mth39[hjá]hi.is
Sumarliði R. Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands: sumarlidi[hjá]hi.is
Merki Sögufélags
Frá árinu 1982 hefur merki Sögufélags verið flattur þorskur á skildi. Merkið birtist fyrst á bókinni Bæirnir byggjast eftir Pál Líndal og hefur fylgt félaginu allar götur síðan. Árið 2018 hreinteiknaði Eva Hrönn Guðnadóttir merkið í vectorútgáfu og einlit án þess þó að breyta formi merkisins á nokkurn hátt.

Saga Sögufélags
Stofnun félagsins
Aðdragandinn að stofnun Sögufélags var sá að Jósafat Jónasson ættfræðingur (Steinn Dofri) kom að máli við dr. Jón Þorkelsson landsskjalavörð og Hannes Þorsteinsson, sem þá var ritstjóri Þjóðólfs, um að endurreisa tímaritið Huld, eða gefa út nýtt þjóðsagna- og þjóðfræðitímarit með svipuðu sniði. Það þótti ekki ákjósanlegt, en úr varð að reynt skyldi að stofna félag til þess að gefa út heimildarit að sögu Íslands. Þann 11. janúar 1902 gáfu þremenningarnir út áskorun sem var sýnd mönnum til undirtekta og áskrifta. Um miðjan febrúar 1902 höfðu sjötíu menn skrifað undir og hétu að gerast meðlimir félagsins yrði það stofnað. Fundur var haldinn á Hótel Íslandi 17. febrúar 1902 þar sem samþykkt var að stofna „félag til að gefa út heimildarrit að sögu Íslands, og í sambandi við þau ættfræði og mannfræði.“
Bóka- og heimildaútgáfa
Fyrstu áratugina fór mestur þungi í heimildaútgáfu félagsins. Fyrsta ritið sem kom út var Aldarfarsbók Páls lögmanns Vídalíns 1700-1709 árið 1904, fleiri rit fylgdu næstu árin og báru þar hæst Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal og Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar.
Á árunum 1912-1914 hófst umfangsmesta heimildaútgáfa sem Sögufélag hefur staðið fyrir þegar fyrsta bindi Alþingisbóka Íslands kom út. Þær komu út í sautján bindum, það síðasta árið 1990. Árið 1916 hófst útgáfa á Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenzkum málum og lauk henni árið 1990.
Útgáfa á þjóðsögum Jóns Árnasonar hófst árið 1925 og var lokið stuttu fyrir seinna stríð. Hún var mikil lyftistöng fyrir félagið. Þjóðsögurnar voru vinsælar en þar sem þær voru eingöngu seldar til félagsmanna var til mikils að vinna að gerast félagi og mátti merkja umtalsverða aukning á félögum eftir að útgáfa þjóðsaganna hófst.
Tímaritaútgáfa hefst
Forgöngumenn Sögufélags áttuðu sig fljótlega á því að heimildaútgáfa félagsins, þó þörf væri, náði misvel til almennra lesenda. Því var ákveðið að gefa út tímarit þar sem lesendur gætu nálgast læsileg frásagnarheimildir.
Blanda (1918-1953)
Blanda var fyrsta tímarit Sögufélags og kom út á árunaum 1918-1953. Ritið flutti lesendum ýmsan heimildafróðleik auk stakra greina og naut töluverðra vinsælda. Nafnið Blanda er þýðing á latneska lýsingarorðinu miscellenae sem oft er notað um bækur og handrit þar sem ægir saman efni úr ólíkum áttum. Flest efni Blöndu var skrifað af stjórnarmönnum Sögufélags. Árið 1945 var tekin ákvörðun um að hætta útgáfu Blöndu og kom síðasta heftið út 1953. Öll útgáfa Blöndu er aðgengileg á tímarit.is.
Saga (1950- )
Saga tók við af Blöndu og var markmiðið að gefa út tímarit með innihaldi sem lyti strangari kröfum um fræðileg vinnubrögð og væri meira í takt við viðtekna starfshætti í sagnfræði og skyldum greinum á þessum tíma. Fyrsta heftið kom út árið 1949 en fyrst um sinn kom hver árgangur út í nokkrum heftum; þannig kom fyrsti árgangur Sögu út í fjórum heftum á árunum 1949-1953, annar á árunum 1954-1958 og sá þriðji 1960-1963. Frá og með árinu 1968 kom nýr árgangur Sögu út á hverju ári og síðan 2002 hafa árlega komið út tvö tölublöð, eitt að vori og eitt að hausti. Saga er ritrýnt tímarit og ritstjórar Sögu eru sagnfræðingarnir Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson. Frá upphafi útgáfu hefur Saga verið kjölfesta í starfsemi Sögufélags og jafngildir áskrift að henni því að gerast meðlimur í Sögufélagi. Hægt er að lesa Sögu á tímarit.is
Ný Saga (1987-2001)
Árið 1987 hóf Sögufélag að gefa út nýtt tímarit samhliða Sögu, Nýja Sögu. Upphaf þeirrar útgáfu á rekja til tímaritsins Sagna, sem sagnfræðinemar hófu að gefa út árið 1980. Ný Saga var verk ungra sagnfræðinga sem margir höfðu tekið þátt í því að koma Sögnum á fót. Ný saga átti, líkt og Sagnir, að vera aðgengilegri en Saga; innihalda auðmeltanlegra efni með ríkulegum myndskreytingum. Einnig voru ýmsir nýir flokkar kynntir til leiks þar sem áhersla var lögð á skoðanaskipti og rökræður um söguleg efni. Útgáfu Nýrrar Sögu var hætt árið 2001 og í stað þess ákveðið að gefa Sögu út tvisvar á ári. Ný saga er aðgengileg á tímarit.is
Húsnæði
Fyrstu 73 árin hafði Sögufélag ekki fastan samastað. Það breyttist árið 1975 þegar félagið fékk inni í Fischersundi 13B og efldist starfsemi félagsins töluvert í kjölfarið, ekki síst vegna elju Ragnheiðar Þorláksdóttur, starfsmanns Sögufélags, sem varð í huga margra tákngervingur félagsins. Í kjallara hússins var Sögufélag með bóksölu sem Ragnheiður bar hitann og þungann af og fljótlega varð Sögufélag við Fischersund eins konar félagsmiðstöð félaga og annarra áhugamanna um sögu. Árið 2012 flutti Sögufélag úr Fischersundi og fluttist í húsnæði Hins íslenska bókmenntafélags í Skeifunni. Árið 2016 flutti félagið þaðan og fékk inni í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, hjá Rithöfundasambandi Íslands þar sem það hefur aðsetur í dag.

Stofnað árið 1902
Heiðursfélagar Sögufélags
Einar Arnórsson (1917)
Einar Arnórsson (1880‒1955) ráðherra og hæstaréttardómari, sat í stjórn Sögufélags í 45 ár, frá 1910 til 1955. Þar af var hann forseti á árunum 1935‒1955. Einar var sömuleiðis afkastamikill fræðimaður og skrifaði m.a. Réttarsögu Alþingis
Klemens Jónsson (1917)
Klemens Jónsson landritari (1862‒1930) sat í stjórn Sögufélags 1906-1930.
Hannes Þorsteinsson (1920)
Hannes Þorsteinsson (1860-1935), ritstjóri og þjóðskjalavörður, var einn stofnenda Sögufélags. Hann sat í stjórn þess frá stofnun 1902 og var forseti á árunum 1924‒1935.
Sighvatur Grímsson Borgfirðingur (1920)
Sighvatur Grímsson (1840-1930) var einhver stórvirkasti alþýðufræðimaður Íslandssögunnar. Hans er helst minnst fyrir Prestaæfir, sem telja alls 14.250 þéttskrifaðar blaðsíður og eru geymdar í Landsbókasafninu.
Einar Jónsson prófastur (1931)
Einar Jónsson (1953-1931) var prestur á Hofi í Vopnafirði. Hann var afkastamikill ættfræðingur og tók m.a. saman Ættir austfirðinga.
Jón Helgason biskup (1934)
Jón Helgason (1866-1942) var biskup Íslands á árunum 1917-1939. Samhliða störfum sínum fyrir kirkjuna skrifaði Jón talsvert um söguleg efni, m.a. ævisögur Tómasar Sæmundssonar og Hannesar Finnssonar, auk Árbóka Reykjavíkur 1786-1936.
Páll Eggert Ólason (1942)
Páll Eggert Ólason (1883-1949) var prófessor í sögu við Háskóla Íslands og rektor á árunum 1923-1923, auk þess að vera bankastjóri Búnaðarbankans á tímabili. Páll var ákaflega verksamur fræðimaður og tók saman Íslenzkar æviskrár I-V, Menn og menntir siðaskiptaaldarinnar á Íslandi I-IV og Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, svo eitthvað sé nefnt.
Einar Laxness (2006)
Einar Laxness (1931-2016) sat í stjórn Sögufélags á árunum 1961-1988 og var forseti félagsins 1978-1988. Hann var ritstjóri Sögu 1973-1978 og eftir hann liggja fjölmargar greinar og ritverk. Þekktust er líklega Íslandssaga A-Ö.
Sigríður Th. Erlendsdóttir (2008)
Sigríður Th. Erlendsdóttir (f. 1930) sat í stjórn Sögufélags á árunum 1978-1988. Meginverk hennar er Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Sigríður var fyrsta konan til þess að taka sæti í stjórn Sögufélags, 76 árum eftir stofnun þess. Hún var jafnframt fyrsta konan í sögu félagsins til þess að vera gerð að heiðursfélaga.
Anna Agnarsdóttir (2017)
Anna Agnarsdóttir (f. 1947) gegndi embætti forseta Sögufélags frá 2005 til 2011 – og varð þar með fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún sat jafnframt í stjórn þess frá 1982 til 1991 og hefur sinnt ýmsum störfum við ritstjórn og útgáfu á vegum þess.
Forsetar
Nafn | Ár |
---|---|
Jón Þorkelsson | 1902‒1924 |
Hannes Þorsteinsson | 1924‒1935 |
Einar Arnórsson | 1935‒1955 |
Þorkell Jóhannesson | 1955‒1960 |
Guðni Jónsson | 1960‒1965 |
Björn Þorsteinsson | 1965‒1978 |
Einar Laxness | 1978‒1988 |
Heimir Þorleifsson | 1988‒2001 |
Loftur Guttormsson | 2001‒2005 |
Anna Agnarsdóttir | 2005‒2011 |
Guðni Th. Jóhannesson | 2011‒2015 |
Hrefna Róbertsdóttir | 2015- |