Fréttir

Höfundakvöld Sögufélags hjá RSÍ 20. nóvember

nóvember 2019

Þrjár nýjar fræðibækur og tvö bindi af tímaritinu Sögu komu út hjá Sögufélagi á árinu og verður útgáfan kynnt með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, miðvikudaginn 20. nóvember kl. 19:30-21:30.

Vaskur hópur viðmælenda mun ræða við höfunda og ritstjóra bókanna og spyrja þá spjörunum úr. Léttar veitingar og bækur seldar á tilboðsverði.

Kvöldið hefst með kynningu Kristínar Svövu Tómasdóttur á hausthefti Sögu auk þess sem tveir af greinarhöfundum munu segja frá sínu framlagi í tímaritinu. Þorsteinn Vilhjálmsson kynnir greinina „Kaupstaðarsótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“ og Vilhelmína Jónsdóttir segir frá sinni grein „„Ný gömul hús“. Um aðdráttarafl og

fortíðleika í nýjum miðbæ á Selfossi.“

Að því loknu mun Margrét Gunnarsdóttir kynna fjórða bindi Landsnefndarinnar fyrri og spjalla við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í fjórða bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá háembættismönnum landsins.

Eftir stutt hlé mun Örn Hrafnkelsson kynna Nýtt Helgakver: Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar og ræða við einn af höfundum. Ritið hefur að geyma 20 greinar um sögu og bókmenntir miðalda, samfélag og náttúru, skáld og lærdómsmenn og menntun og stjórnmál. Höfundar eru flestir fylgdarmenn Helga Skúla í fræðasamfélaginu, auk þess sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ritar ávarp til afmælisbarnsins.

Síðast en ekki síst mun Sumarliði Ísleifsson kynna Öræfahjörðina: Sögu hreindýra á Íslandi og taka höfundinn, Unni Birnu Karlsdóttur, tali. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands frá Finnmörku í Noregi árið 1771 og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Í Öræfahjörðinni er sögð saga hreindýra á Íslandi frá seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra.

Bækur ársins eru fjölbreyttar að efni og má búast við skemmtilegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.


Fréttir

Innbundið safn Sögu gefið Sögufélagi

nóvember 2019

Nú á dögunum barst Sögufélagi skemmtileg gjöf: safn tímaritsins Sögu 1949-1996 innbundið í fallegt leðurband.

Safnið kemur úr dánarbúi Aðalsteins Davíðssonar íslenskufræðings (1938-2019). Aðalsteinn var m.a. lektor í íslensku við Háskólann í Helsinki, íslenskukennari í MS, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins og vann við þýðingar.

Aðalsteinn og kona hans, Bergljót Gyða Helgadóttir, lögðu mikla ást við bókband og bókasöfnun. Helst bundu þau inn tímarit og greinasöfn og var Saga þar á meðal.

Þegar Saga kom út fyrst fengu allir áskrifendur lausar arkir sem svo voru bundnar inn á nokkurra ára fresti. Í dag fá langflestir Sögu innbundna, en þó eru enn þá nokkrir sem fá Sögu til sín í lausum örkum og binda sjálfir inn.

Sögufélag þakkar aðstandendum Aðalsteins kærlega fyrir þessa gjöf sem ber ræktarsemi félaga við tímaritið Sögu fagurt vitni.

" target="_blank">

Fréttir

Nýr framkvæmdastjóri Sögufélags

október 2019

Tímamót urðu í rekstri Sögufélags nú á dögunum þegar framkvæmdastjóri í fullu starfi var ráðinn til félagsins frá 1. nóvember næstkomandi.

Brynhildur Ingvarsdóttir sagnfræðingur er nýr framkvæmdastjóri félagsins. Hún hefur áður starfað sem sviðstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Marinox ehf. og ASA ehf., og markaðsstjóri hjá ORF líftækni. Brynhildur er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA próf í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston. Hún hefur mikið unnið að verkefna- og sýningarstjórn, ritstjórn og birt greinar um söguleg efni. Þá hefur hún á starfsferli sínum einnig unnið að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum. Brynhildur hefur setið í stjórn Sögufélags síðan 2016 og síðustu mánuði tekið að sér tímabundin störf fyrir félagið. Stjórn Sögufélags býður hana hjartanlega velkomna til starfa fyrir Sögufélag.


Fréttir

Bókagjöf með inngöngutilboði í Sögufélag

október 2019

Nú fer að styttast í að hausthefti Sögu komi út og því hefur Sögufélag ákveðið að bjóða upp á sérstakt inngöngutilboð fyrir nýja áskrifendur að Sögu.
Í því felst að þeir sem gerast áskrifendur að Sögu, og þar af leiðandi meðlimir í Sögufélagi, fá fyrsta eintakið af Sögu frítt og býðst að eignast eina af eftifarandi bókum Sögufélags sér að kostnaðarlausu:

  1. Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918
  2. Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands
  3. Stund klámsins. Klám á  Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar
  4. Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi
  5. Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018
  6. Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar
  7. Á hjara veraldar. Saga norræna manna á Grænlandi
  8. Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld
  9. Saga Pelópeyjarstríðsins
  10. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld

Nýttu þér einstakt tækifæri til að slást í hóp áhugamanna um sögu og eignast í leiðinni góða bók fyrir haustlægðirnar.

Sendu okkur línu á sogufelag@sogufelag.is ef þú vilt ganga í Sögufélag og fá glæsilega bókagjöf og hausthefti Sögu þér að kostnaðarlausu. Tilboðið gildir í október.


Fréttir

Ný bók á leiðinni: Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi

ágúst 2019

Í febrúar gaf Sögufélag út bókina Nýtt Helgakver, greinasafn til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum.

Nú er gaman að segja frá því að önnur bók ársins er á leiðinni; Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur hefur verið send í prentsmiðju og kemur út í október.

Bók Unnar er fyrsta ritið sem fjallar heildstætt um sögu hreindýra á Íslandi og samband þeirra við landsmenn. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands árið 1771 frá Finnmörku í Noregi og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Fljótlega var farið að veiða þau en undir lok 19. aldar var aftur á móti farið að ljá máls á nauðsyn þess að friða þau og vernda fyrir útrýmingu. Á 20. öld skiptu stjórnvöld sér í vaxandi mæli af fjölgun, útbreiðslu og nýtingu hreindýrastofnsins á Íslandi – svo mjög að sumum þótti sem þau væru ekki lengur sannkölluð börn öræfanna heldur hreindýrahjörð ríkisins.

Í rannsóknum Unnar er sjónum jafnan beint að sambandi manns og náttúru, Öræfahjörðin engin undantekning þar á. Bókin segir þannig jafnt sögu hreindýranna sjálfra sem og viðhorfa manna til þeirra. Hugmyndasaga af bestu sort.


Fréttir

Fyrstu heiðursfélagar Sögufélags

júlí 2019

Um þessar mundir stendur yfir athugun á þeim sem hafa verið gerðir að heiðursfélögum í Sögufélagi og má gera ráð fyrir því að tæmandi heiðursfélagalisti verði tilbúinn á haustdögum.

3. apríl 1917 eignaðist Sögufélag sína fyrstu heiðursfélaga. Þá voru Klemens Jónsson landritari, og Einar Arnórsson ráðherra gerðir að heiðursfélögum í Sögufélagi.

Kjörið hefur, ef marka má minningagrein um Einar, „staðið að einhverju leyti í sambandi við þá breytingu, er þá hafði nýlega orðið á stjórn landsins.“ Einar var nýhættur sem ráðherra Íslands og Klemens sem landritari þegar það embætti var lagt niður.

Klemens sat í stjórn Sögufélags 1906-1930. Einar 1910-1955 og var þar af forseti 1935-1955. Seta Einars í stjórn Sögufélags var því ekki hálfnuð þegar hann var gerður að heiðursfélaga.


Eldri Fréttir