Baldur Þór Finnsson skrifar undir útgáfusamning við Sögufélag

Baldur Þór Finnsson skrifaði nýverið undir útgáfusamning við Sögufélag. Bókin verður gefin út á hálfrar aldar afmæli Ásatrúarfélagsins vorið 2022 í ritröðinni Smárit Sögufélags og byggir á BA-ritgerð hans í sagnfræði, Frá Guði til goða. Viðbrögð íslensks samfélags og stjórnvalda við stofnun Ásatrúarfélagsins 1972-1973.

Í bókinni er fjallað um viðbrögð stjórnvalda og almennings við stofnun Ásatrúarfélagsins á sumardaginn fyrsta árið 1972. Félagið, sem byggir á endurvakningu á norrænni goðfræði, vakti strax athygli og kallaði fram viðbrögð, enda ógnaði það einsleitum trúarmálum hér á landi. Margir hræddust heiðið trúfélag, blót og helgisiði félagsmanna og jafnvel dýrafórnir eða barnaútburð. Ásatrúarfélagið var síðan viðurkennt af stjórnvöldum árið 1973, ári eftir stofnun þess, og varð fyrsta félagið sem byggir á Ásatrú sem fékk formlega viðurkenningu sem trúfélag.