Fréttir

Tveggja alda minning Jóns Thoroddsens: Katrín Jakobsdóttir meðal fyrirlesara

október 2018

Sögufélag og Bókaútgáfan Sæmundur efna sameiginlega til dagskrár í tilefni af tveggja alda minningu Jóns Thoroddsens. Samkoman er haldin í Safnaðarheimili Grensáskirkju á afmælisdegi skáldsins sem fæddist á Reykhólum þann 5. október 1818.

Veitingar í boði og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Við sama tækifæri kynna Sæmundur og Sögufélag nýlegar útgáfur á verkum Jóns og bjóða á tilboðsverði.

Dagskrá
(Safnaðarheimili Grensáskirkju 5. október kl. 20-21:30)

 • Katrín Jakobsdóttir: Jón Thoroddsen og skáldsögur hans
 • Sveinn Yngvi Egilsson: Landið í ljóðum Jóns Thoroddsens

María Sól Ingólfsdóttir og Mattias Martínez Carranza flytja eldri gerð Vögguvísu og Búðarvísna úr Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen við lög Emils Thoroddsens

Hlé

 • Guðmundur Andri Thorsson: Af kvisti’ á kvist ég hoppa hér: Nokkur orð um ljóðagerð Jóns Thoroddsens
 • Haraldur Bernharðsson: Gamalt mál fyrir nýja tíma

Fundarstjóri er Már Jónsson, sem jafnframt segir frá nýjum útgáfum á bréfum Jóns og skáldsögunni Pilti og stúlku.


Fréttir

Þrjár bækur frá Sögufélagi tilnefndar til Menningarverðlauna DV árið 2017

október 2018

Þær ánægjulegu fréttir voru að berast að þrjár bækur sem komu út hjá Sögufélagi í fyrra hafa verið tilnefndar til Menningarverðlauna DV árið 2017. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 5. október í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum DV að Suðurlandsbraut 14. Í ár verða veitt verðlaun í sjö flokkum; kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun. Hér má sjá tilnefningarnar og skipan dómnefndar í flokki fræðirita:

Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur er glæsilegt verk þar sem gerð er ýtarlega grein fyrir rannsóknum höfundar og aðstoðarmanna hennar á sviði fornleifafræði. Auk lýsinga á vettvangi er vísað til fjölda tiltækra heimilda. Bókin er skrifuð á skýru og aðgengilegu máli og bregður upp lifandi myndum, bæði af sögu klausturhalds á Íslandi og af starfi fornleifafræðinga. Mjög er vandað til útgáfunnar sem prýdd er fjölda mynda, teikninga og korta. Útgefandi: Sögufélag í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld eftir Vilhelm Vilhelmsson er fróðlegt og aðgengilegt verk um vistarbandið og líf alþýðunnar á 19. öld. Höfundurinn Vilhelm Vilhelmsson setur margslungið samband undirsáta og yfirboðara, andóf, átök og möguleika í fræðilegt samhengi. Hann varpar nýju og nokkuð bjartara ljósi á vistarbandið og sýnir fram á hvernig það þjónaði margvíslegum samfélagslegum tilgangi og var hluti af menningu og stjórnskipulagi Norður-Evrópu. Víða er leitað fanga í þessu viðamikla verki og útgáfan öll hin vandaðasta. Útgefandi: Sögufélag.

Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstjórar eru Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir
Svo veistu að þú varst ekki hér er fræðirit um sögu hinsegin fólks á Íslandi, hið fyrsta sinnar tegundar og er því um tímamótaverk að ræða. Í bókinni er að finna sex ritrýndar greinar eftir jafnmarga höfunda sem hver á sinn hátt varpar ljósi á sögu hinsegin fólks, orðræðu um hinsegin fólk og hinsegin fræði sem nálgun á sögu og samfélag. Verkið er þarft og mikilvægt innlegg í umræðu samtímans. Auk ritstjóranna eiga Þorsteinn Vilhjálmsson, Þorvaldur Kristinsson og Kristín Svava Tómasdóttir greinar í bókinni. Útgefandi: Sögufélag.

Litbrigði húsanna: Saga Minjaverndar og endurgerðra bygginga um allt land eftir Guðjón Friðriksson. Höfundur rekur sögu Minjaverndar og ýtarlega sögu marga þekktra húsa á Íslandi, íbúasögu þeirra, hnignunarsögu, baráttu fyrir verndun þeirra og loks endurgerð. Litbrigði húsanna er ekki einungis saga um byggingar, heldur einnig saga um samfélag og fólkið sem byggir það. Verkið er ákaflega fallegur gripur og munar þar ekki síst um þátt Snorra Freys Hilmarssonar sem annast myndaval en bókin er prýdd fjölmörgum ljósmyndum og teikningum sem ásamt texta Guðjóns gera sögu húsanna lifandi og spennandi. Útgefandi: Mál og menning.

Pipraðir páfuglar eftir Sverri Tómasson. Í bókinni er fjallað á fróðlegan og glettinn hátt um mataræði, borðsiði og eldamennsku Íslendinga á miðöldum, eins og slíku er lýst í miðaldahandritum. Byggt er á fjölmörgum heimildum, bæði frumheimildum og síðari tíma fræðiritum og höfundur eykur mjög skemmtigildi bókarinnar með vísunum í bókmenntatexta og þjóðsögur. Pipraðir páfuglar er fallega hönnuð bók með fjölda litprentaðra mynda úr miðaldahandritum og rúsínan í pylsuendanum eru 23 uppskriftir af herramannsmat frá Reykhólum. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag.

Í dómnefndinni voru: Árni Matthíasson, Hildigunnur Þráinsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir.


Fréttir

Landsnefndin fyrri III: Útgáfuhóf í Þjóðskjalasafni Íslands 27. september kl. 17-18:30

september 2018

Þriðja bindið af Landsnefndinni fyrri er komið út og verður útgáfunni fagnað með hátíðardagskrá fimmtudaginn 27. september kl. 17-18:30. Útgáfuhófið er haldið í fundarsalnum Viðey í Þjóðskjalasafni Íslands, Laugavegi 162.

Dagskrá

17:00 Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur segir frá útgáfu Landsnefndarskjala og bréfum embættismanna og kaupmanna sem koma út í þriðja bindi verksins. Hrefna er ritstjóri bæði þessa og fyrri binda ásamt Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur sagnfræðingi.

17:15 Jón Torfi Arason sagnfræðingur fjallar um Magnús Ketilsson sýslumann og skrif hans 1771 sem birtast í hinu nýútgefna riti.

17:30 Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður fjallar um Dönsku sendinguna 1928 og landsnefndarskjöl sem þar er að finna. Danska sendingin fól í sér mikið magn skjala varðandi Ísland sem Danir afhentu Íslendingum þetta ár.

Af þessu tilefni verður líka sett upp sýning á frumritum skjala Landsnefndarinnar.

Bókin verður til sölu á staðnum og fæst á góðu tilboði.

Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland á árunum 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land, þjóð og aðstæður í samfélaginu. Embættismenn landsins fengu sértækar spurningar frá nefndinni um allar hliðar samfélagsins á Íslandi, svo sem um fólksfjölda, kirkju, heilbrigðismál, verslun, handverk, landbúnað, sjávarútveg, samgöngur og margt fleira. En almenningur var hvattur til að senda nefndinni sína sýn á landsins gagn og nauðsynjar að ógleymdum eigin aðstæðum.

Í skjalasafni Landsnefndarinnar eru því bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum, auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum.

Landsnefndarskjölin gefa einstæða innsýn í hugarfar, venjur og siði almennings og embættismanna á Íslandi, auk afstöðu danskra stjórnvalda til þeirra fjölmörgu mála sem Íslendingar gerðu að umtalsefni í lok 18. aldar. Í þessu nýútkomna bindi eru birt 36 bréf til Landsnefndarinnar frá embættismönnum landsins.

Þjóðskjalasafn Íslands gefur skjöl Landsnefndarinnar fyrri út í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag. Útgáfan hófst árið 2016 og verða bækurnar sex talsins, með uppskriftum skjala og fræðilegum greinum, auk vefbirtingar ljósmynda af frumskjölunum og uppskrifta á þeim.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu, og er fólk hvatt til að fjölmenna.


Fréttir

Landsnefndin fyrri 1770-1771, III. bindi: Einstök heimild um hugsunarhátt og hagi almennings á Íslandi

september 2018

„Aldrei getur nokkur verið hamingjusamari en við sem búum við hina dönsku einveldisstjórn sem þekkt er um víða veröld fyrir mildi og föðurlegt hjartalag.“ Þannig komst Magnús Ketilsson sýslumaður að orði í greinargerð um viðreisn Íslands sem sjá má í nýútkomnu bindi  af Landsnefndinni fyrri 1770-1771.

Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland á árunum 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land, þjóð og aðstæður í samfélaginu. Embættismenn landsins fengu sértækar spurningar frá nefndinni um allar hliðar samfélagsins á Íslandi, svo sem um fólksfjölda, kirkju, heilbrigðismál, verslun, handverk, landbúnað, sjávarútveg, samgöngur og margt fleira. En almenningur var hvattur til að senda nefndinni sína sýn á landsins gagn og nauðsynjar að ógleymdum eigin aðstæðum.

Í skjalasafni Landsnefndarinnar eru því bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum, auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum. Landsnefndarskjölin gefa einstæða innsýn í hugarfar, venjur og siði almennings og embættismanna, auk afstöðu danskra stjórnvalda til þeirra fjölmörgu mála sem Íslendingar gerðu að umtalsefni í lok 18. aldar.

Ritstjórar bæði þessa bindis og fyrri binda eru Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir.

Þjóðskjalasafn Íslands gefur skjöl Landsnefndarinnar fyrri út í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag. Útgáfan hófst árið 2016 og verða bækurnar sex talsins, með uppskriftum skjala og fræðilegum greinum, auk vefbirtingar ljósmynda af frumskjölunum og uppskrifta á þeim.

Útkomu þriðja bindisins af Landsnefndinni fyrri var fagnað í dag 13. september með hátíðardagskrá í Ríkisskjalasafni Danmerkur. Annað útgáfuhóf verður svo haldið í Þjóðskjalasafni Íslands 27. september kl. 17 og verður það auglýst nánar síðar.


Fréttir

Seminar – Ny dansk-islandsk udgivelse fejres med et seminar om Den islandske Landkommission 1770-1771

september 2018

Ny dansk-islandsk udgivelse af værdifulde dokumenter fra Den islandske Landkommission 1770-1771 bliver fejret med et seminar. Ved fejringen deltager Kulturminister Mette Bock, rigsarkivar Asbjørn Hellum, Islands rigsarkivar Eiríkur G. Guðmundsson, samt forskere fra Island og Danmark. Du kan også deltage. Husk tilmelding.

Kort om den nye udgivelse

Værdifulde dokumenter fra Den islandske Landkommission 1770-1771 bliver udgivet på vegne af Islands Nationalarkiv i samarbejde med Rigsarkivet i Danmark og Islands Historiske Forening. Det tredje bind i serien er lige udkommet. Udgivelsen omfatter seks værker i alt, de tre sidste bind udkommer i 2018-2020.

Stor historisk værdi

Dokumenterne stammer fra Den islandske Landkommission, som rejste rundt i Island fra foråret 1770 til efteråret 1771 og samlede breve og indberetninger fra landets beboere om hvad som helst, de mente kunne være bedre. Embedsmænd besvarede spørgsmål om mange sider af samfundslivet i landet. Og menigmand blev tilskyndet til at fremkomme med sine synspunkter. Flere hundrede mennesker reagerede på opfordringen. Denne forbindelse med den almene befolkning gør arkivet meget specielt og værdifuldt. Arkivet kaster lys over det islandske samfund omkring 1770, og dokumenterne belyser dansk forvaltning.

Rigsarkivar Asbjørn Hellum – ”en vigtig del af vores fælles kulturarv”:

I forrige århundreder var disse to landes historie sammenvævet, og disse udgivelser kaster lys over, hvordan forholdet og forbindelsen mellem landene var.

”Dokumenterne kaster lys over det islandske samfund i det 18. århundrede og giver samtidig et indblik i den danske forvaltning. Det en vigtig del af en fælles kulturarv, og vi er glade for at kunne bidrage til at de seks værker bliver udgivet”.

– Rigsarkivar Asbjørn Hellum

Tid og sted

 • Sted: Rigsarkivet, København – Harsdorffsalen,
  Tøjhusgade 1,
  1218 København K.
 • Tidspunkt 13.00-17.00
 • Dato: 13-09-2018
 • Pris: Gratis

Program

Hent program for seminaret

Tilmelding

Der er 40 pladser, som bliver fordelt efter først-til-mølle-princippet. Du tilmelder dig ved at sende en mail Solvej Pedersen: sjp@sa.dk

 • Tilmeldingsfrist: 12-09-2018, senest kl. 15.00

Fréttir

Frábærar fræðibækur Sögufélags á Bókamarkaði Forlagsins

september 2018
Frábærar fræðibækur Sögufélags fást nú á gjafverði á Bókamarkaði Forlagsins sem hófst 5. september og stendur yfir til 2. október. Bókamarkaðurinn er bæði í versluninni á Fiskislóð 39 sem er opin alla daga frá 10-19 og í vefversluninni. Allar bækur á markaðinum eru á sama verði á vefnum og á staðnum.
 
Á bókamarkaðinum eru yfir 4000 titlar frá öllum helstu útgefendum landsins!

Eldri Fréttir