Tveir nýir heiðursfélagar

Á aðalfundi Sögufélags í febrúar var tilkynnt um tvo nýja heiðursfélaga: Helga Skúla Kjartansson og Helga Þorláksson.

Helgi Skúli Kjartansson er prófessor emeritus í sagnfræði. Hann sat í stjórn Sögufélags 2011–2015 og var um árabil í ritnefnd Sögu. Hann var einnig fulltrúi Sögufélags í ritstjórn skjala landsnefndarinnar fyrri og líka fulltrúi félagsins í ritsjórn skjala yfirréttarins á Alþingi. Þess utan hefur Helgi Skúli verið boðinn og búinn að leggja félaginu lið sem yfirlesari eða ritrýnir, bæði fyrir Sögu og fyrir bókaútgáfu Sögufélags. Hann bjó til prentunar Íslandssögu til okkar daga eftir þá Bergsvein Jónsson og Björn Þorsteinsson sem kom út 1991 á vegum Sögufélags. Þá er hann höfundur bóka sem Sögufélag hefur gefið út. Annars vegar er Ísland á 20. öld, fyrst útgefin 2002 og aftur 2010, og svo er ritið Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands (2003) en þar var hann aðalhöfundur. Félagið þakkar Helga Skúla fyrir frábær störf í þágu félagsins, alúð hans og umhyggju fyrir félaginu.

Helgi Þorláksson hefur verið tengdur Sögufélagi um langt skeið sem stjórnarmaður og þátttakandi í öðru starfi félagsins. Helgi sat í stjórn Sögufélags um 11 ára skeið, á árunum 1973-84. Þá var hann ritstjóri tímaritsins Sögu á árunum 1984-6 ásamt Sigurði Ragnarssyni. Rannsóknir Helga hafa að miklu leyti beinst að verslunarsögu miðalda og fjallaði doktorsritgerð hans sem hann varði árið 1992 um það efni og nefndist Vaðmál og verðlag. Hann hefur einnig gefið sig að stjórnmálasögu miðalda, íslenskri sagnaritun og sögustöðum og mörgu fleiru. Helgi hefur verið mikilvægur bakhjarl og velunnari félagsins. Við þökkum honum fyrir framlag hans og óskum honum velfarnaðar í lífi og fræðum.

Núlifandi heiðursfélagar Sögufélags eru nú þrír talsins, fyrir var Anna Agnarsdóttir heiðursfélagi og hefur verið frá árinu 2017. Sjá má lista yfir heiðursfélaga frá stofnun hér, undir flipanum forsetar og heiðursfélagar.