Laust starf í Sögufélagi

Sögufélag auglýsir eftir nákvæmum þúsundþjalasmiði sem hefur gaman af bókum, miðlun, markaðsstarfi og mannlegum samskiptum.

Sögufélag er vettvangur íslenskrar sagnfræði. Hlutverk þess er að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni. Félagið var stofnað árið 1902 og er þekkt fyrir vandaða og verðlaunaða útgáfu. Markmið Sögufélags er að auka þekkingu, skilning og áhuga almennings jafnt sem fræðimanna á sögu Íslands. Félagið vill með starfsemi sinni vera sýnilegt í samfélaginu og vekja umræðu og rekur vefsíður, samfélagsmiðla og hlaðvarp til þess.

Starfið er 70-100% starf og felst einkum í vinnu á skrifstofu Sögufélags í Gunnarshúsi og rekstur hennar í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins.

Dagleg verkefni eru afar fjölbreytt og geta verið allt frá afgreiðslu á skrifstofu félagsins og bókhaldsumsjón til viðburðaskipulagningar og sölu- og kynningarmála.


Helstu verkefni:

Almenn störf og afgreiðsla á skrifstofu Sögufélags

Skipulag og framkvæmd kynningarstarfs

Umsjón með samfélagsmiðlum (Twitter, Instagram og Facebook)

Ritstjórn á tveimur vefsíðum og útgáfa á fréttabréfi félagsins

Þátttaka í öðrum miðlunarstörfum

Útgáfa sölureikninga og önnur umsýsla tengd sölu

Afgreiðsla bókapantana og samskipti við söluaðila

Aðstoð við útgáfustjórn og útgáfutengd verkefni

Aðstoð við skjölun í rafrænt og pappírsskjalasafn félagsins

Önnur störf eftir nánara samkomulagi við framkvæmdastjóra félagsins

Hæfniviðmið:

Háskólanám sem nýtist í starfi

Mjög góð kunnátta og ritfærni í íslensku er nauðsynleg

Góð kunnátta og ritfærni í ensku er nauðsynleg

Góð kunnátta í algengum notendaforritum er nauðsynleg

Þekking og reynsla af vinnu við bókhald er æskileg

Hæfni og reynsla af vinnu í hópi og undir álagi

Sjálfstæði í vinnubrögðum og framúrskarandi samskiptahæfni er áskilin

Nákvæmni, skipulögð vinnubrögð og frumkvæði

Frekari upplýsingar um starfið

Umsókn um starfið þarf að fylgja ferilskrá, afrit af prófskírteinum, ábendingar um meðmælendur og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjenda í starfið. Umsókn sendist í tölvupósti á netfangið brynhildur@sogufelag.is. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf á vormánuðum.

Nánari upplýsingar veitir: Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Sögufélags, brynhildur@sogufelag.is – sími 777-1770

Ný vefsíða Sögu og hlaðvarp kynnt á aðalfundi

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 25. febrúar síðastliðinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og var fundarstjóri Gunnar Þór Bjarnason. Skýrslu stjórnar flutti Hrefna Róbertsdóttir forseti, og Helga Maureen Gylfadóttir gjaldkeri lagði fram endurskoðaða reikninga til samþykktar. 

Að því loknu tók við hlé og eftir það ræddi Markús Þ. Þórhallsson um Blöndu, nýtt hlaðvarp Sögufélags, og Arnór Gunnar Gunnarsson og Jón Kristinn Einarsson kynntu og opnuðu nýja vefsíðu tímaritsins Sögu

Aðalfundurinn var velheppnaður og að erindum loknum áttu sér stað áhugaverðar umræður um störf og framtíð félagsins. 

Konur sem kjósa fá Fjöruverðlaun

Konur sem kjósa taka við verðlaunum

Í gær, 8. mars, var tilkynnt að Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hefðu hlotið Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir bókina Konur sem kjósa. Aldarsaga. Þorgerður lést sem kunnugt er í júlí síðastliðnum, og tók ekkill hennar Ágúst Ásgeirsson við verðlaununum fyrir hennar hönd. 

Í umfjöllun dómnefndar um bókina segir: 

Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna.  Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.“

Sögufélag óskar höfundunum innilega til hamingju með verðskuldaðan árangur. Sérstakar hamingjuóskir fær Kristín Svava, sem hreppti einnig Fjöruverðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir ljóðabók sína Hetjusögur

Ný vefsíða tímaritsins Sögu í loftið á fimmtudag

Á aðalfundi Sögufélags þann 25. febrúar verður nýr vefur tímaritsins Sögu settur í loftið. Á vefnum verða birtar valdar greinar og annað efni úr tímaritinu, veittar upplýsingar um útgáfuferli, innsendingu efnis og ritreglur. Hann mun jafnframt geyma gagnagrunn yfir allt efni sem birt hefur verið í Sögu

Vefnum hefur meðal annars verið komið í loftið fyrir tilstyrk styrks frá Miðstöð íslenskra bókmennta, sem veitti styrk síðasta sumar til þess að búa til margmiðlunarsíðu og gagnagrunn fyrir tímaritið Sögu, með það að markmiði að auka miðlun á bókum og greinum Sögufélags í opnum aðgangi. Fyrir styrkinn var Arnór Gunnar Gunnarsson ráðinn til þess að vinna að gagnagrunni tímaritsins síðasta sumar, og mun hann kynna nýja vefinn á aðalfundinum á fimmtudaginn ásamt Jóni Kristni Einarssyni. 

Aðalfundur Sögufélags 25. febrúar

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn þann 25. febrúar næstkomandi í Sögufélagi, Dyngjuvegi 8, kl. 18:00–19:30. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, en að þeim loknum verður gert stutt hlé. Eftir það munu Arnór Gunnar Gunnarsson og Jón Kristinn Einarsson kynna nýja vefsíðu tímaritsins Sögu, og Markús Þ. Þórhallson kynna Blöndu, nýtt hlaðvarp Sögufélags.

Boðið verður upp á léttar veitingar og verða bækur félagsins seldar á staðnum. Áhugasömum er bent á að vegna sóttvarna verða gestir að skrá sig fyrir fram með tölvupósti á netfangið sogufelag@sogufelag.is.

Vel samin rit fá viðurkenningu

Í desember síðastliðnum var úthlutað úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar. Sjóðurinn veitir viðurkenningar fyrir rit sem lúta að sögu Íslands, bókmenntum þess, lögum, stjórn eða framförum og er úthlutað úr honum á tveggja ára fresti. Í þetta sinn fengu tvær bækur félagsins viðurkenningu. Í þetta sinn var 10,6 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum. Hinir útvöldu eftir Gunnar Þór Bjarnason hlaut önnur verðlaun, og Öræfahjörðin eftir Unni Birnu Karlsdóttur hlaut þriðju verðlaun. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Sumarliði hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin

Sumarliði R. Ísleifsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 í flokki fræðibóka fyrir bók sína, Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland – Viðhorfasaga í þúsund ár.

Í umsögn lokadómnefndar segir:

Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.

Við óskum Sumarliða innilega til hamingju með verðlaunin!

Landsnefndin á Hringbraut

Hrefna Róbertsdóttir, önnur tveggja ritstjóra Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771 og forseti Sögufélags, var í viðtali hjá Birni Jóni Bragasyni í þættinum Saga og samfélag á Hringbraut í síðustu viku. Hægt er að nálgast þáttinn hér

Áfram má kaupa allt landsnefndarsafnið á sérstöku tilboði hér á vefsíðunni

Hausthefti Sögu rætt í Blöndu, hlaðvarpi Sögufélags

Í sjöunda þætti Blöndu, hlaðvarps Sögufélags, er rætt við Kristínu Sövu Tómasdóttur um hausthefti Sögu 2020. 

Í heftinu kennir ýmissa grasa og ber helst að nefna þrjár ritrýndar greinar. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir skrifar um landnám kynjasögunnar á Íslandi á þessari öld, Hjalti Hugason fjallar um heimagrafreiti á Íslandi á nítjándu og tuttugustu öld og Brynja Björnsdóttir skrifar um réttarstöðu kvenna vegna heimilisofbeldis hér á landi frá 1800 til 1940.

Þátturinn er aðgengilegur hér.