Móttaka í Alþingi í tilefni af útkomu Yfirréttarins á Íslandi

Forseti Alþingis Birgir Ármannsson bauð til móttöku í skála Alþingis 31. mars síðastliðin í tilefni af útkomu á öðru bindi Yfirréttarins á Íslandi. Fyrsta bindi kom út árið 2011 og seldist upp. Árið 2019 ákvað Alþingi að styrkja útgáfu á heildarsafni dóma og skjala Yfirréttarins á Íslandi í tíu bindum. Þjóðskjalasafni Íslands og Sögufélagi var falið að annast útgáfuna og fyrsta bindið hefur nú verið endurprentað og annað bindi komið út. Gert er ráð fyrir útkomu á einu bindi á ári næstu tíu árin. Hægt er að gerast áskrifandi hér og fá hvert bindi sent heim strax við útkomu. Bækurnar eru einnig fáanlegar hjá Sögufélagi og í betri bókabúðum. 

Nokkrir voru á mælendaskrá og fundarstjóri var Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdarstjóri Sögufélags. Birgir Ármannsson bauð fólk velkomið og hélt stutta tölu. Þá tók við Hrefna Róbertsdóttir, Þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, og sagði almennt frá yfirréttinum á Íslandi og útgáfunni. Ritstjórar nýjasta bindisins, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Gísli Baldur Róbertsson, greindu frá starfi sínu og varðveislu skjalanna. Viðar Pálsson sagnfræðingur ræddi svo mikilvægi skjalanna og hlutverk yfirréttarins. Að lokum afhenti Hrefna Róbertsdóttir forseta Íslands, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar eintök af fyrstu tveimur bindunum. Kvennakórinn Graduale nobili sá um tónlistaratriði og boðið var upp á léttar veitingar.

Um bækurnar:

Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 á Þingvöllum og var æðsta dómstig innanlands. Skjöl hafa varðveist frá um helmingi þess tíma og stundum aðeins í brotum. Skjöl þessi eru afar merk og grundvallarheimildir um mannlíf og samfélag á Íslandi. Elstu varðveittu dómsskjölin eru frá árinu 1690 og hvergi hefur varðveist heildstætt skjalasafn yfirréttarins. Rannsóknir á réttarfari á Íslandi byggðar á skjölum yfirréttarins hafa af þessum sökum ekki verið miklar. Skjölin hafa verið afar óaðgengileg og ekki yfirlit á einum stað um hvaða gögn sem rekja má til yfirréttarins hafa varðveist. Útgáfa á heildarsafni dóma og skjala yfirréttarins mun ráða bót á þessu.

Alþingi samþykkti með þingsályktun 18. nóvember 2019 að styrkja útgáfuna í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar Íslands 2020 og fela forseta þingsins að ganga til samstarfs við Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag um útgáfuna. Útgáfuverkefnið er til tíu ára og bindin verða alls tíu með öllum tiltækum dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi og aukalögþinga. Skjölin verða gefin út bæði á bók og með rafrænum hætti á vef Þjóðskjalasafns.

Fyrsta bindi Yfirréttarins á Íslandi kom út árið 2011 og innihélt dóma og skjöl frá árunum 1690–1710. Bókin seldist upp og hefur því verið endurprentuð samhliða útgáfu annars bindis. Í öðru bindi eru birtir dómar áranna 1711–1715. Stór hluti þeirra skjala tengjast rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál, deilt er um málsmeðferð, krafist embættismissis Páls Vídalíns, Oddur Sigurðsson varalögmaður er ákærður vegna framkomu hans við biskup í eftirlitsferð hans og dregnir fram athyglisverðir vitnisburðir um framferði Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups á Alþingi árið 1713.

Ættarnöfn á Íslandi tilnefnd til FÍT verðlauna

Ættarnöfn á Íslandi hlýtur tilnefningu til verðlauna FÍT – Félags íslenskra teiknara – fyrir bókahönnun.
Sögufélag óskar hönnuðunum, Arnari&Arnari, og höfundi bókarinnar, Páli Björnssyni, innilega til hamingju.
 
Þetta er annað árið í röð sem bók gefin út af Sögufélagi er tilnefnd, en árið 2021 hlutu Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir gullverðlaun FÍT fyrir hönnun sína á Konur sem kjósa.
 
Það er gleðilegt að hönnunarsamfélagið á Íslandi taki eftir þeirri vegferð sem Sögufélag er á, við að gefa spennandi hönnuðum vettvang til að skapa falleg og eftirtektarverð bókverk.
 

120 ára afmæli Sögufélags: Öldungur ungur í anda

Sögufélag fagnar 120 ára afmæli þann 7. mars 2022. Félagið var stofnað árið 1902 með það að markmiði að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni, einkum um sögu Íslands. Enn í dag er félagið helsti útgefandi rita af þessu tagi og vinnur ötullega að því að auka þekkingu, skilning og áhuga á sögu Íslands, og ná til almennings, fræðimanna, sagnfræðinema og annars áhugafólks um sögu.

Núverandi forseti og jafnframt sá tólfti, er Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður, en fyrsti forseti félagsins var Jón Þorkelsson, sem einnig var þjóðskjalavörður. Fyrrum forsetar á þessari öld voru Loftur Guttormsson, Anna Agnarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson. Sögufélag nýtur virðingar fyrir vandaða útgáfu og gefur jafnframt út eina fræðilega tímaritið í heiminum um íslenska sagnfræði, Sögu, sem hefur komið út síðan 1949.

Sögufélag hefur ávallt leitast við að vera sýnilegt í samfélaginu, miðla efni og efla samtal um sögu og sagnfræði með útgáfustarfsemi sinni, málþingum, höfundakvöldum og öðru þess háttar. Þörfin fyrir vettvang af þessu tagi varð kveikjan að stofnun félagsins í upphafi 20. aldarinnar. Íris Ellenberger hefur ritað sögu Sögufélags sem gefin verður út á afmælisárinu og þar segir svo um stofnun þess:

„ … um það leyti sem sjálfstæðisbaráttan var í blóma, létu þrír menn, þeir Hannes Þorsteinsson ritstjóri, Jón Þorkelsson skjalavörður og Steinn Dofri (Jósafat Jónasson) ættfræðingur, út ganga áskorun um að stofnað yrði félag til að gefa út rit á sviði íslenskrar mannfræði og ættfræði. 74 karlar rituðu nöfn sín undir þetta skjal og í framhaldinu var haldinn fundur 17. febrúar 1902 á Hótel Íslandi þar sem ákveðið var „að stofna félag til að gefa út heimildarrit að sögu Íslands, og í sambandi við þau ættfræði og mannfræði“ í takt við þörf talsmanna sjálfstæðisbaráttunnar, sem margir voru í hópi áskorendanna, fyrir rannsóknir sem studdu við málflutning þeirra. Félag þetta hlaut nafnið Sögufélag en í fyrstu stjórn félagsins sátu Jón Þorkelsson forseti, Hannes Þorsteinsson gjaldkeri, Jón Jónsson Aðils ritari, meðstjórnendur Þórhallur Bjarnarson og Bjarni Jónsson frá Vogi en varamenn voru Jósafat Jónasson og Benedikt Sveinsson.“

Frá stofnun félagsins hafa verið gefin út hátt í 200 rit um sögu og menningu Íslands og um tæplega hundrað tölublöð tímarita um sama efni. Fyrstu rit félagsins voru Morðbréfabæklingur Guðbrands Þorlákssonar, Biskupasögur Jóns Halldórssonar prófasts í Hítardal og Aldarfarsbók Páls lögmanns Vídalíns 1700–1709. Á öðrum áratug aldarinnar efldist heimildaútgáfa mjög og ráðist var í útgáfu stórra réttarsögulegra heimildasafna. Árið 1918 hófst útgáfa tímaritsins Blanda – Fróðleikur gamall og nýr sem gefið var út til ársins 1953. Tímaritið Saga bættist svo við flóruna árið 1949 og hefur verið gefið út óslitið síðan. Saga þróaðist smám saman út í að verða helsti vettvangur fræðilegrar íslenskrar sagnfræði.

Sögufélag hefur aðsetur í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8. Það heldur úti virkum menningarsögulegum vef, hlaðvarpinu Blöndu, samfélagsmiðlum og fréttabréfi og eru félagsmenn um 700. Á komandi starfsárum er stefnt að því að styrkja enn frekar bókaútgáfu og félagsstarf Sögufélags, félags sem er öldungur ungur í anda og vill tengja samtímann við söguna.

Aðalfundur og Ættarnöfn

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 15. febrúar síðastliðinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og var fundarstjóri Kristín Svava Tómasdóttir. Skýrslu stjórnar flutti Hrefna Róbertsdóttir forseti, og Helga Maureen Gylfadóttir gjaldkeri lagði fram skoðaða reikninga til samþykktar. Á fundinum voru einnig lagðar fram lagabreytingar sem samþykktar voru samhljóða af fundarmönnum. Ný lög tóku því gildi á fundinum og þau má sjá hér.

Stjórnarkjör fór einnig fram en allir stjórnarmenn utan einn buðu sig fram til áframhaldandi setu. Örn Hrafnkelsson hefur setið í stjórn í fimm ár og gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Var honum þakkað gott og farsælt starf í þágu félagsins, lengst af sem ritari stjórnar. Hrefna Róbertsdóttir var kjörin forseti Sögufélags til tveggja ára á síðasta aðalfundi og því var ekki kosið um forseta að þessu sinni. Einn nýr stjórnarmaður var kjörinn til eins árs, Jón Kristinn Einarsson. Er hann boðinn velkominn til starfa í þágu félagsins að nýju, en Jón Kristinn var áður starfsmaður á skrifstofu Sögufélags og þekkir starfsemina vel.

Að fundi loknum var gert hlé, boðið upp á veitingar og bækur félagsins seldar. Eftir hlé flutti Páll Björnsson erindið „Deilt um ættarnöfn á Íslandi í 170 ár”. Sögufélag gaf út bók Páls Ættarnöfn á Íslandi: Átök og ímyndir síðastliðið haust og hlaut bókin nýverið fimm stjörnu dóm í Morgunblaðinu. Skemmtilegar og líflegar umræður spunnust um efni bókarinnar og erindi Páls.

Tvær tilnefningar til Hagþenkis

Til­kynnt var þann 9. febrúar 2022 hvaða tíu bæk­ur eru til­nefnd­ar til Viður­kenn­ing­ar Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna, fyr­ir út­gáfu­árið 2021. Tvær bækur sem tengjast Sögufélagi fengu tilnefniningu til verðlaunanna.

Már Jóns­son (rit­stjóri). Gald­ur og guðlast á 17. öld. Dóm­ar og bréf I-II.

Umsögn dómnefndar:

„Rit sem opn­ar greiða leið að frum­heim­ild­um um galdra­mál og veit­ir jafn­framt góða yf­ir­sýn yfir fram­andlegt tíma­bil sög­unn­ar.“

Kristjana Krist­ins­dótt­ir. Lénið Ísland. Valds­menn á Bessa­stöðum og skjala­safn þeirra á 16. og 17. öld. (Útg. Þjóðskjalasafn Íslands).

Umsögn dómnefndar:

„Vandað og ít­ar­legt verk um stöðu Íslands sem léns í danska kon­ungs­rík­inu, byggt á um­fangs­mik­illi rann­sókn á frum­heim­ild­um.“

Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn þann 15. febrúar næstkomandi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, kl. 18:00–19:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf en einnig verða lagðar fram tillögur að lagabreytingum sem félagsmenn geta kynnt sér hér.
 
Eftir stutt hlé mun Páll Björnsson flytja erindið „Deilt um ættarnöfn á Íslandi í 170 ár“. Sögufélag gaf út bók Páls Ættarnöfn á Íslandi. Átök og ímyndir síðastliðið haust og hlaut bókin nýverið fimm stjörnu dóm í Morgunblaðinu.
 
Boðið verður upp á léttar veitingar og verða bækur félagsins til sölu á staðnum. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og kynna sér starfsemina. Allir velkomnir. 

Þrjár bækur Sögufélags fá fimm stjörnur í Morgunblaðinu


Björn Bjarnason fór fögrum orðum um Fulltrúa þess besta í bandarískri menningu eftir Hauk Ingvarsson í Morgunblaðinu. Hann sagði meðal annars: 

„Að finna þráð til að kynna nýja söguskoðun á trúverðugan hátt, er vandasamt. Að gera það með svo sterkum rökum að ekki sé unnt að hafa nýju kenninguna að engu, krefst mikilla rannsókna, þekkingar og hæfileika til að breyta viðteknum sjónarmiðum án þess að rústa því sem fyrir er. Þetta tekst Hauki Ingvarssyni í bókinni Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu. […] Haukur Ingvarsson beinir umræðum um bókmenntasöguna og menningarátök 20. aldarinnar inn á nýja braut með tímamótaverki sínu.“

 


Sölvi Sveinsson fjallaði um Ættarnöfn á Ísandi og sagði bókina ánægjulegan lestur. Hann sagði líka meðal annars: 

„Þetta er stórmerkilegt rit sem áhugamenn um hefðir og nafnsiði þurfa að lesa og er jafnframt heimild um pólitíska orðræðu í þessu landi. Lengi hafa staðið deilur um ættarnöfn á Íslandi og standa enn.“


Sölvi Sveinsson fjallaði líka um Galdur og guðlast á 17. öld og kallaði það 
öndvegisrit. Hann sagði einnig: 

„Þetta merkilega rit opnar glugga að skelfilegu skeiði í sögu þjóðar þar sem lífið var lítils metið og réttarfar með þeim hætti að viðhorf valdsmanna og hentisemi á hverjum stað réðu miklu um framkvæmd lagaboða.“

Konur sem kjósa hlýtur evrópsk hönnunarverðlaun!

Snæfríð Þorsteinsdóttir og Hildigunnur Gunnarsdóttir hlutu gullverðlaun Art Directors Club Europe fyrir hönnun sína á Konur sem kjósa. FÍT, Félag íslenskra teiknara, er aðili að ADCE en fremstu verk hvers lands eru send í keppnina sem svo eru dæmd af 53 fagaðilum frá 19 löndum í Evrópu. Konur sem kjósa hreppti gullið í flokknum Editorial design. 

Þetta eru önnur gullverðlaunin sem Snæfríð og Hildigunnur hljóta fyrir hönnun sína á Konur sem kjósa, en fyrr á árinu fékk bókin jafnframt gullverðlaun FÍT í flokknum bókahönnun. Bókin var jafnframt tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands á dögunum.

Sögufélag þakkar kærlega samstarfið og óskar Snæfríð, Hildigunni og samstarfsfólki þeirra innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Bækur Sögufélags á Reykjavík Art Book Fair

Tvær nýjar bækur frá Sögufélagi voru valdar inn á Listbókamessu í Reykjavík (e. Reykjavík Art Book Fair) sem fór fram í Ásmundarsal helgina 12.-14. nóvember. Það voru bækurnar Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu eftir Kristjönu Vigdísi Ingvadóttur og Ættarnöfn á Íslandi eftir Pál Björnsson. Báðar bækurnar eru hannaðar af Arnari&Arnari sem eru margverðlaunaðir fyrir bókahönnun. 

Á vefsíðu Arnars&Arnars segir: Arnar&Arnar hönnunarstofa sérhæfir sig í framsækni hönnun, mörkun og miðlun upplýsinga. Með hönnunardrifinni hugsun og nánu samtali leysum við vandamál og sköpum verðmæti fyrir samfélagslega ábyrg fyrirtæki og frumkvöðla.


Þátttaka Sögufélags á Listbókamessu sýnir að tekið er eftir viðleitni Sögufélags til að vinna með framsæknum og spennandi hönnuðum.  

Nýir þættir af Blöndu

Á síðustu vikum og mánuðum hafa komið út nokkrir nýir þættir af Blöndu: Hlaðvarpi Sögufélags. Þættirnir eru aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á sogufelag.is

#13 Jón Karl Helgason um Ódáinsakur
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Jón Karl Helgason um bók hans Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga sem kom út hjá Sögufélagi árið 2013. Jón ræðir íslenska þjóðardýrlinga, á borð við Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Halldór Laxness, hvernig þeir fengu þetta hlutverk, hvað það þýðir og hvernig það hefur þróast. Einnig tengir hann sögu þeirra við aðra þjóðardýrlinga í Evrópu og segir frá alþjóðlegu samstarfsverkefnum á þessu sviði. Nýlega var greinasafn um þetta efni, Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood (Brill 2019) sem Jón Karl ritstýrði ásamt Marijan Dović, ein af fjórum fræðibókum til að hljóta tilnefningu til verðlauna evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga (ESCL Excellence Award for Collaborative Research).

#14 Þorsteinn Vilhjálmsson um mannkynbætur á Íslandi
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Þorstein Vilhjálmsson um grein hans, Betra fólk: Tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu 1923-1938, sem birtist í vorhefti Sögu 2021. Í greininni er fjallað um hugmyndir um getnaðarvarnir í mannkynbóta skyni frá fyrstu skrifum Guðmundar Hannessonar, í læknablaðið 1923, þar til slíkt ratar í íslenska löggjöf á síðari hluta fjórða áratugarins. Við sögu koma menntamenn sem flytja inn erlenda hugmyndafræði, menntakonur sem standa að útgáfu róttækra handbóka, ólöglegar ófrjósemisaðgerðir og heilsufræðisýning í Reykjavík með áróðursefni beint frá nasistum í Þýskalandi.

15# Már Jónsson um Galdur og guðlast
Markús Þórhallsson ræðir við Má Jónsson um Galdur og guðlast. Galdramál 17. aldar eru óhugnanlegur vitnisburður um refsihörku yfirvalda sem á sextíu árum létu brenna eina konu og tuttugu og einn karl á báli. Í þessu tveggja binda verki eru teknir saman allir tiltækir dómar og bréf sem vörðuðu ákæru eða orðróm um galdra á árabilinu 1576-1772. Már Jónsson prófessor bjó til útgáfu og ritar inngang.

#16 Páll Björnsson um Ættarnöfn á Íslandi
Markús Þórhallsson ræðir við Pál Björnsson um nýja bók hans, Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir. Er það einstæður íslenskur þjóðararfur að kenna barn til föður eða móður eða íhaldssemi og fornaldardýrkun? Eru ættarnöfn erlend sníkjumenning sem grefur undan íslensku máli? Í bókinni er rakin saga deilna um ættarnöfn á Íslandi allt frá 19. öld og hvernig þær tengjast sögulegri þróun, svo sem myndun þéttbýlis, uppgangi þjóðernishreyfinga, hernámi Íslands og auknum áhrifum kvenna.

#17 Haukur Ingvarsson um Fulltrúa þess besta í bandarískri menningu
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Hauk Ingvarsson um nýja bók hans, Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu. Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu. En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans? Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu