Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 12. mars síðastliðinn, rétt áður en samkomubann skall á. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Fundinum stýrði Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og fundarritari var Markús Þ. Þórhallsson. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, flutti ársskýrslu og Brynhildur Ingvarsdóttir, gjaldkeri, lagði fram og kynnti ársreikning Sögufélags. Á fundinum var nýrri vefsíðu Sögufélags jafnframt hleypt af stokkunum og hlaut hún góðar undirtektir fundarmanna. Úr stjórn gekk Brynhildur Ingvarsdóttir en hún tók fyrst sæti í stjórn sem varamaður árið 2016 og hefur verið gjaldkeri síðan 2017. Brynhildur tók við starfi framkvæmdastjóra Sögufélags 1. nóvember síðastliðinn. Í stað hennar var kjörin Lóa Steinunn Kristjánsdóttir sagnfræðingur og sögukennari í Menntaskólanum við Sund. Lóa Steinunn hefur verið ötul í félagsstarfi og var meðal annars forseti EuroClio, European Association of History Educators 2016-2108. Þá á Lóa einnig sæti í fulltrúaráði Europeana (europeana.eu) sem eru rafræn söfn á netinu. Lóa Steinunn var boðin velkomin til starfa fyrir Sögufélag.

Engar lagabreytingar bárust fundinum.

Að fundi loknum flutti Már Jónsson erindið „Raunverudraumar séra Sæmundar Hólm.“ Góður rómur var gerður að erindinu og áttu sér stað líflegar umræður, sem fundarstjóri þurfti að lokum að stöðva svo fundargestir kæmust heim fyrir háttatíma.

Aðalfundur Sögufélags 23. nóvember kl. 18.30-19.30

nóvember 2016

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 23. nóvember kl. 18.30-19:30.
Í framhaldi af aðalfundinum verður höfundakvöld kl. 20 með kynningu og umræðum um nýútkomnar bækur Sögufélags.

Aðalfundur Sögufélags 25. febrúar

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn þann 25. febrúar næstkomandi í Sögufélagi, Dyngjuvegi 8, kl. 18:00–19:30. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, en að þeim loknum verður gert stutt hlé. Eftir það munu Arnór Gunnar Gunnarsson og Jón Kristinn Einarsson kynna nýja vefsíðu tímaritsins Sögu, og Markús Þ. Þórhallson kynna Blöndu, nýtt hlaðvarp Sögufélags.

Boðið verður upp á léttar veitingar og verða bækur félagsins seldar á staðnum. Áhugasömum er bent á að vegna sóttvarna verða gestir að skrá sig fyrir fram með tölvupósti á netfangið sogufelag@sogufelag.is.

Anna Agnarsdóttir nýr heiðursfélagi Sögufélags

águst 2016

Laugardaginn 13. maí síðastliðinn stóðu Sögufélag og Sagnfræðistofnun fyrir vel heppnuðu málþingi til heiðurs Önnu Agnarsdóttur í tilefni af sjötugsafmæli hennar, en Anna lætur nú af störfum sem prófessor í sagnfræði við skólann.

Anna Agnarsdóttir gegndi embætti forseta Sögufélags frá 2005 til 2011 – og varð þar með fyrsta konan til að gegna því embætti – en sat jafnframt í stjórn þess frá 1982 til 1991 og hefur sinnt ýmsum störfum við ritstjórn og útgáfu á vegum þess. Það var því við hæfi að Anna skyldi vera gerð heiðursfélagi Sögufélags við þetta tækifæri.

Myndina tók Kristinn Ingvarsson á afmælisþingi Önnu.

Áslaug Sverrisdóttir á Hringbraut og Rás 1

Handa á mill – Heimilisiðnaðarfélag Íslands 1913–2013 eftir Áslaugu Sverrisdóttur kom út þann 29. október síðastliðinn. Gaman er að segja frá því að höfundurinn var til viðtals á Hringbraut í þættinum Saga og samfélag hjá Birni Jóni Bragasyni í síðustu viku. Þá fór Áslaug jafnframt í áhugavert viðtal í Víðsjá á Rás 1 fyrir skömmu. 

Sem fyrr má kaupa Handa á milli með ókeypis heimsendingu í vefverslun Sögufélags. 

Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281

águst 2016

Út er komin bókin Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281 eftir Sverri Jakobsson. Á fáeinum áratugum tók íslenskt samfélag stakkaskiptum og varð eins og önnur evrópsk miðaldasamfélög. Valdabarátta höfðingja náði hámarki á árunum 1220–1264 sem hafa oft verið nefnd Sturlungaöld. Hér eru pólitísk átök þessara ófriðarára greind og sett í nýtt samhengi þar sem áhersla er lögð á hlutdeild fleiri en fáeinna höfðingja. Við sögu koma höfðingjar, húsfreyjur, vígamenn, frillur, fræðimenn, fróðleikskonur og flakkarar.

Auðnaróðal er aðgengilegt yfirlitsrit sem nýtist bæði háskólanemum og almennum lesendum. Þar birtist Íslandssagan í nýju og stundum óvæntu ljósi.

 

Baldur Þór Finnsson skrifar undir útgáfusamning við Sögufélag

Baldur Þór Finnsson skrifaði nýverið undir útgáfusamning við Sögufélag. Bókin verður gefin út á hálfrar aldar afmæli Ásatrúarfélagsins vorið 2022 í ritröðinni Smárit Sögufélags og byggir á BA-ritgerð hans í sagnfræði, Frá Guði til goða. Viðbrögð íslensks samfélags og stjórnvalda við stofnun Ásatrúarfélagsins 1972-1973.

Í bókinni er fjallað um viðbrögð stjórnvalda og almennings við stofnun Ásatrúarfélagsins á sumardaginn fyrsta árið 1972. Félagið, sem byggir á endurvakningu á norrænni goðfræði, vakti strax athygli og kallaði fram viðbrögð, enda ógnaði það einsleitum trúarmálum hér á landi. Margir hræddust heiðið trúfélag, blót og helgisiði félagsmanna og jafnvel dýrafórnir eða barnaútburð. Ásatrúarfélagið var síðan viðurkennt af stjórnvöldum árið 1973, ári eftir stofnun þess, og varð fyrsta félagið sem byggir á Ásatrú sem fékk formlega viðurkenningu sem trúfélag.

Blanda – hlaðvarp Sögufélags komið í loftið

Blanda – hlaðvarp Sögufélags hefur verið sett í loftið. Það er aðgengilegt á vefsíðu okkar, á slóðinni sogufelag.is/blanda, og á Spotify. Dreifing á helstu hlaðvarpsveitur er yfirstandandi og verður Blanda komin þangað inn innan skamms. Stjórnandi hlaðvarpsins er Markús Þ. Þórhallsson fréttamaður, en honum til halds og trausts er Jón Kristinn Einarsson starfsmaður Sögufélags.
 
Fimm þættir hafa verið gefnir út og við munum kynna þá betur á næstu dögum.

Bókabazar Sögufélags / Aðalstræti 10

Bókabazar Sögufélags fer fram helgina 5.-6. júní í elsta húsi Reykjavíkur í Aðalstræti 10. Opið frá kl. 12 til 17 og allir velkomnir!

Þetta er tilvalið tækifæri til að finna gamlar gersemar í bland við nýjar bækur. Í boði verða allir titlar úr langri útgáfusögu Sögufélags sem enn finnast á lager félagsins. Margt sem ekki hefur ratað á aðra bókamarkaði lengi og það á verulega lækkuðu verði.

Mikið úrval af Sögu. Allir árgangar, allt aftur til fimmta áratugarins, sem enn eru til verða í boði á gjafaverði. Tilvalið að fylla upp í safnið eða sjá hvað sagnfræðingar voru að hugsa forðum, t.d. á manns eigin fæðingarári.   

Valdir titlar eru einnig fáanlegir á lækkuðu verði á heimasíðunni okkar: www.sogufelag.is

Bókagjöf með inngöngutilboði í Sögufélag

Nú fer að styttast í að hausthefti Sögu komi út og því hefur Sögufélag ákveðið að bjóða upp á sérstakt inngöngutilboð fyrir nýja áskrifendur að Sögu.
Í því felst að þeir sem gerast áskrifendur að Sögu, og þar af leiðandi meðlimir í Sögufélagi, fá fyrsta eintakið af Sögu frítt og býðst að eignast eina af eftifarandi bókum Sögufélags sér að kostnaðarlausu:

  1. Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918
  2. Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands
  3. Stund klámsins. Klám á  Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar
  4. Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi
  5. Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018
  6. Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar
  7. Á hjara veraldar. Saga norræna manna á Grænlandi
  8. Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld
  9. Saga Pelópeyjarstríðsins
  10. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld

Nýttu þér einstakt tækifæri til að slást í hóp áhugamanna um sögu og eignast í leiðinni góða bók fyrir haustlægðirnar.

Sendu okkur línu á sogufelag@sogufelag.000web.site ef þú vilt ganga í Sögufélag og fá glæsilega bókagjöf og hausthefti Sögu þér að kostnaðarlausu. Tilboðið gildir í október.