Móttaka í Alþingi í tilefni af útkomu Yfirréttarins á Íslandi

Forseti Alþingis Birgir Ármannsson bauð til móttöku í skála Alþingis 31. mars síðastliðin í tilefni af útkomu á öðru bindi Yfirréttarins á Íslandi. Fyrsta bindi kom út árið 2011 og seldist upp. Árið 2019 ákvað Alþingi að styrkja útgáfu á heildarsafni dóma og skjala Yfirréttarins á Íslandi í tíu bindum. Þjóðskjalasafni Íslands og Sögufélagi var falið að annast útgáfuna og fyrsta bindið hefur nú verið endurprentað og annað bindi komið út. Gert er ráð fyrir útkomu á einu bindi á ári næstu tíu árin. Hægt er að gerast áskrifandi hér og fá hvert bindi sent heim strax við útkomu. Bækurnar eru einnig fáanlegar hjá Sögufélagi og í betri bókabúðum. 

Nokkrir voru á mælendaskrá og fundarstjóri var Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdarstjóri Sögufélags. Birgir Ármannsson bauð fólk velkomið og hélt stutta tölu. Þá tók við Hrefna Róbertsdóttir, Þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, og sagði almennt frá yfirréttinum á Íslandi og útgáfunni. Ritstjórar nýjasta bindisins, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Gísli Baldur Róbertsson, greindu frá starfi sínu og varðveislu skjalanna. Viðar Pálsson sagnfræðingur ræddi svo mikilvægi skjalanna og hlutverk yfirréttarins. Að lokum afhenti Hrefna Róbertsdóttir forseta Íslands, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar eintök af fyrstu tveimur bindunum. Kvennakórinn Graduale nobili sá um tónlistaratriði og boðið var upp á léttar veitingar.

Um bækurnar:

Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 á Þingvöllum og var æðsta dómstig innanlands. Skjöl hafa varðveist frá um helmingi þess tíma og stundum aðeins í brotum. Skjöl þessi eru afar merk og grundvallarheimildir um mannlíf og samfélag á Íslandi. Elstu varðveittu dómsskjölin eru frá árinu 1690 og hvergi hefur varðveist heildstætt skjalasafn yfirréttarins. Rannsóknir á réttarfari á Íslandi byggðar á skjölum yfirréttarins hafa af þessum sökum ekki verið miklar. Skjölin hafa verið afar óaðgengileg og ekki yfirlit á einum stað um hvaða gögn sem rekja má til yfirréttarins hafa varðveist. Útgáfa á heildarsafni dóma og skjala yfirréttarins mun ráða bót á þessu.

Alþingi samþykkti með þingsályktun 18. nóvember 2019 að styrkja útgáfuna í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar Íslands 2020 og fela forseta þingsins að ganga til samstarfs við Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag um útgáfuna. Útgáfuverkefnið er til tíu ára og bindin verða alls tíu með öllum tiltækum dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi og aukalögþinga. Skjölin verða gefin út bæði á bók og með rafrænum hætti á vef Þjóðskjalasafns.

Fyrsta bindi Yfirréttarins á Íslandi kom út árið 2011 og innihélt dóma og skjöl frá árunum 1690–1710. Bókin seldist upp og hefur því verið endurprentuð samhliða útgáfu annars bindis. Í öðru bindi eru birtir dómar áranna 1711–1715. Stór hluti þeirra skjala tengjast rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál, deilt er um málsmeðferð, krafist embættismissis Páls Vídalíns, Oddur Sigurðsson varalögmaður er ákærður vegna framkomu hans við biskup í eftirlitsferð hans og dregnir fram athyglisverðir vitnisburðir um framferði Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups á Alþingi árið 1713.