Útgáfuhóf: Stund milli stríða. Saga landhelgismálsins, 1961-1971 eftir Guðna Th. Jóhannesson

Sögufélag gefur út bókina Stund milli stríða. Saga landhelgismálsins, 1961-1971 eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing og forseta Íslands. Í tilefni útgáfunnar býður Sögufélag til hófs fimmtudaginn 1. september í Sjóminjasafninu í Reykjavík.  Útgáfuhófið er öllum opið.

Dagskráin hefst klukkan 17.00 og boðið verður upp á léttar veitingar og ljúfa tóna Óskars Magnússonar gítarleikara. Guðni Th. Jóhannesson segir frá verkinu og áritar bækur og Gerður Kristný skáld flytur frumsamið ljóð. Hjalti Hugason varaforseti Sögufélags býður gesti velkomna og Kristján Ragnarsson fyrrverandi formaður LÍÚ segir nokkur orð fyrir hönd útgáfunefndar. 

Í bókinni er saga landhelgismálsins rakin, frá febrúar 1961 til sumarsins 1971. Saga landhelgismálsins er þjóðarsaga. Hún er saga baráttu um lífshagsmuni og þjóðarheiður. En það þýðir ekki að hún sé helgisaga þar sem halla skuli réttu máli, þegja yfir ágreiningi og ýkja einingu, gera okkur Íslendinga að handhöfum hins eina sanna málstaðar í baráttu við vonda útlendinga. Þannig saga væri háð en ekki lof. Hér er þessi saga rakin í máli og myndum. Höfundur segir frá litríkum köppum og æsilegum atburðum, bæði á sjó og landi. Jafnframt setur hann atburði og ákvarðanir í samhengi, dregur ályktanir en eftirlætur lesandanum líka að mynda sér eigin skoðanir. Guðni Th. Jóhannesson hóf rannsóknir sínar á sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna fyrir um aldarfjórðungi. Ritið er byggt á rannsóknum hans í fjölmörgum skjalasöfnum innanlands og utan, viðtölum og bréfaskriftum við aragrúa heimildarmanna. 

Útgáfa bókarinnar er unnin í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur, með styrk frá Alþingi, Fiskveiðasjóði Íslands og Sjóði til ritunar sögu landhelgismálsins.

Bókin er komin í forsölu á vefsíðu Sögufélags, www.sogufelag.is