Haraldur Sigurðsson flytur fyrirlestur um bók sína Samfélag eftir máli 12. mars kl.19:30

Fyrirlestur á vegum Sögufélags verður haldinn í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8,

Haraldur Sigurðsson mun bjóða gestum í samtal og kynna verðlaunabók sína Samfélag eftir máli. Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi. En eins og kunnugt er hlaut Haraldur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka.

Samfélagi eftir máli er stórvirki fjallar um skipulag borgar, bæja og þorpa á Íslandi á 20. öldinni. Í aðra röndina er rakin saga skipulagsgerðar og þéttbýlis og í hina hugmyndasaga skipulagsfræðanna og módernismans. Sjónum er einkum beint að mótun borgarskipulags í höfuðstað landsins en einnig að viðleitni ríkisvaldsins til að koma skipulagi á smærri bæi og þorp landsins.

Þetta er saga átaka og hugsjóna, saga hugmynda og nýrra strauma, en fyrst og fremst saga þjóðar á miklum umbrotatímum. Skipulag byggðar og mótun umhverfis er eitt af mikilvægustu málefnum samtímans.

Sagan snertir á mörgum helstu álitamálum nútímasamfélaga, hvort sem litið er til húsnæðismála, samgöngumála, lýðheilsumála eða umhverfismála. Þetta er yfirgripsmikið sagnfræðirit, með gagnrýnum undirtóni, sem byggir á áralangri rannsókn og víðtækri reynslu Haraldar af skipulagsmálum.

Bókina prýða fjöldi mynda og uppdrátta og er sannarlega mikill fengur fyrir alla þá fjölmörgu sem vilja fræðast um málaflokkinn og þau sem láta skipulagsmál og mótun umhverfis sig varða.

Bókin verður til sýnis og sölu á sérstöku tilboði fyrir þá sem það vilja.

Öll velkomin!