Fréttir

Stefndi Ísland til Andskotans? Áhugaverð málstofa á Hugvísindaþingi

mars 2019

Fyrir jólin 2018 gaf Sögufélag út bók Axels Kristinssonar, Hnignun, hvaða hnignun? Þar færði höfundur rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingu í sögu Íslands sé pólitísk goðsögn ‒ mýta ‒ sem búin hafi verið til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og þjónað þörfum hennar með því að mála erlend yfirráð sem dekkstum litum.

Goðsögnin sannfærði Íslendinga um að dönsk stjórn hefði reynst þjóðinni ákaflega óheillavænleg og því bæri að stefna að sjálfstæði. Vitaskuld eru ekki allir á sama máli og Axel.

Því er efnt til málstofu á Hugvísindaþingi þar sem tekist verður á um þætti í röksemdafærslu hans með yfirskriftinni „Stefndi Ísland til Andskotans?“ Málstofan fer fram laugardaginn 9. mars kl. 15:00 til 16:30 í stofu 311 í Árnagarði.

Gunnar Þór Bjarnason stýrir umræðum milli málshefjenda, Axels Kristinssonar, Orra Vésteinssonar og Árna Daníels Júlíussonar.

Öllu áhugafólki um Íslandssöguna á eftir að finnast spennandi að fylgjast með og taka þátt í umræðum um þessar spennandi en umdeildu hugmyndir!


Fréttir

Kristín Svava hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis. Stáss innan fræðanna!

mars 2019

Það er Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur, ljóðskáld og annar ritstjóra Sögu sem hlýtur viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2018. Viðurkenninguna hlýtur hún fyrir bók sína Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gefur út. Niðurstaðan var tilkynnt við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Landsbókasafns þann 6. mars, en þetta er í 32. sinn sem viðurkenningin er veitt.

Að mati viðurkenningarráðs Hagþenkis er hér á ferðinni sannkallað brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenningarráðið lagði mat á öll fræðirit, prentuð náms­gögn og aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings sem komu út á ís­lensku árið 2018, um sextíu talsins. Í lok janúar var tilkynnt hvaða tíu verk hlytu tilnefningar og eins og áður sagði varð Stund klámsins hlutskarpast að þessu sinni.

Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur sem tilkynnti um verðlaunin sagði að þótt verkið væri mögulega ekki stofustáss vegna vandmeðfarins efnisins væri það óneitanlega stáss innan fræðanna.

Í umsögn ráðsins sagði jafnframt: „Stund klámsins er þannig saga hugmyndar, saga hugtaks, hvernig það hefur verið notað á ólíkan hátt og hverjir hafa ráðið því hvaða merking var lögð í það.“ Sömuleiðis að sagan sem í bókinni væri sögð ætti erindi við alla þá sem velta kynverund Íslendinga fyrir sér og að hún væri einnig veglega og glæsilega gerð af hendi Sögufélags. Sérstaklega var tekið til hversu hún væri ríkulega myndskreytt sem yki innihald hennar mjög.

Auk Auðar Styrkársdóttur sátu Ásta Krist­ín Bene­dikts­dótt­ir ís­lensku­fræðing­ur, Henry Al­ex­and­er Henrys­son heim­spek­ing­ur og Svan­hild­ur Kr. Sverr­is­dótt­ir mennt­un­ar­fræðing­ur í viðurkenningarráðinu.

Það var formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson, sem afhenti Kristínu Svövu viðurkenningarskjal, blómvönd og 1250 þúsund króna verðlaunafé.

Í þakkarræðu sinni velti Kristín Svava fyrir sér hvar hin samfélagslegu mörk gætu legið, talaði um hvernig bókin væri hennar sveinsstykki fimm árum eftir að formlegu meistaranámi hennar var lokið og hversu mikið hún ætti öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum að þakka.

Sérstaklega nefndi Kristín Ragnheiði Kristjánsdóttur leiðbeinanda sinn við ritgerðasmíðina forðum sem hvatt hafði höfundinn til að koma henni til útgefanda. Bókin er byggð á meistaraverkefni hennar en „hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakstur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar“, líkt og sagði í umsögn viðurkenningarnefndar Hagþenkis.

Kristín Svava tileinkaði öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum viðurkenninguna.

Að athöfn lokinni var afhjúpaður sýningarkassi í anddyri Landsbókasafns tengdur efni Stundar klámsins.

Kristín Svava er vel að viðurkenningunni komin fyrir sitt fyrsta fræðilega verk. Óskar Sögufélag henni sérstaklega til hamingju og einnig öllum þeim öðrum sem tilnefningar hlutu.


Fréttir

Kjörgripir á kostakjörum

febrúar 2019

Sögufélag verður með fjölda spennandi titla, á frábæru verði, á bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda sem hefst föstudaginn 22. mars. Á hverju ári flykkjast bókaþyrstir á markaðinn til að næla sér í það sem vantar í bókahillurnar, nú eða einfaldlega til að finna veglegar gjafabækur á frábæru verði.

Meðal þess sem finna má í bás Sögufélags eru margir árgangar tímaritsins Sögu, ýmis smárit á borð við Fyrstu forsetana, Með nótur í farteskinu og Gamla sáttmála. Jafnframt verður hægt að kaupa þýðingar Sigurjóns Björnssonar á Sögu Pelópseyjarstríðsins og Helleníku, bók Páls Björnssonar Jón forseti allur og ævisögu Churchills eftir Jón Þ. Þór. Þá er aðeins fátt eitt upp talið.

Nú er bara að bregða undir sig betri fætinum, heimsækja töfraheim bókanna í stúku Laugardalsvallar. Jafnframt er um holla og góða hreyfingu að ræða enda salurinn um 80 metrar að lengd. Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda verður opinn alla daga frá kl. 10 til 21 frá 22. febrúar til 10. mars.


Fréttir

Nýtt Helgakver: Helgi Skúli sjötugur

febrúar 2019

Sjötugsafmæli Helga Skúla Kjartanssonar var fagnað með pompi og prakt föstudaginn 8. febrúar. Það var gert með stuttu málþingi sem vinir og fjölskylda afmælisbarnsins áttu veg og vanda að. Málþingið hófst með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands en að því loknu afhenti Gunnar Karlsson fyrrverandi sagnfræðiprófessor Helga Skúla Nýtt Helgakver. Um er að ræða glæsilegt afmælisrit honum til heiðurs sem gefið er út í samvinnu við Sögufélag.

Nokkrir höfunda greina í kverinu tóku til máls; Helgi Þorláksson, prófessor emeritus flutti erindi um  Guðmund góða, klaustrið í Saurbæ, kirkjuvaldsstefnuna, ágústína og málefni fátækra. Hann tengdi efnið við kímilegar sögur honum og afmælisbarninu.

Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor talaði um ljóð Hallgríms Péturssonar og Hrefna Róbertsdóttir forseti Sögufélags bar afmælisbarninu kveðju félagsins í tilefni dagsins.

Ung söngkona, Vala Yates söng nokkur þekkt erlend lög í íslenskri þýðingu Helga Skúla. Undirleik annaðast Kjartan Valdemars.

Ólöf Garðarsdóttir prófessor flutti erindi um kennslukonur í Reykjavík í upphafi 20. aldar og Svanur Kristjánsson talaði nánast beint til forseta Íslands og velti upp spurningunni um hvers konar forseti hann væri.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs flutti Helga Skúla hlýlega kveðju frá því sviði sem hann hefur helgað starfsævina. Kolbrún gaf gestum tækifæri á að hlýða á unga rödd afmælisbarnsins þegar hún spilaði upptöku af ríflega fjörutíu ára gömlu viðtali þess við Jón Ívarsson skólamann.

Að loknu málþingi var gengið að veisluborði þar sem gestir kepptust við að hylla Helga Skúla Kjartansson sjötugan. Sögufélag óskar honum innilega til hamingju með þennan merka áfanga og þakkar honum fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins um áratugaskeið.


Fréttir

Merkum áfanga fagnað: Helgi Skúli Kjartansson sjötugur

febrúar 2019

Sagnfræðingurinn og uppfræðarinn Helgi Skúli Kjartansson verður sjötugur á næstu dögum.

Nokkrir af nánustu Helga hafa blásið til málþings honum til heiðurs á þessum merku tímamótum. Málþingið verður haldið í fyrirlestrarsal Skriðu á Menntavísindasviði (húsi gamla Kennaraháskólans við Stakkahlíð) föstudaginn 8. febrúar næstkomandi.

Guðmundur Jónsson prófessor stjórnar dagskrá sem hefst klukkan 15.00 og er svo hljóðandi:

15.00 Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs: Kveðja frá Menntavísindasviði.

15.10 Gunnar Karlsson, prófessor emeritus: Kveðja til Helga Skúla.

15.20 Helgi Þorláksson, prófessor emeritus: Guðmundur góði og klaustrið í Saurbæ: Kirkjuvaldsstefnan, ágústínar og málefni fátækra.

15.35 Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor. Hallgríms ljóð í höndum Svía.

15.50 Vala Yates flytur nokkur erlend sönglög í íslenskri þýðingu Helga Skúla. Kjartan Valdemars spilar undir á píanó.

16.10 Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags: Kveðja frá Sögufélagi.

16.20 Ólöf Garðarsdóttir prófessor: Kennslukonur í Reykjavík í upphafi 20. aldar.

16.35 Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus: Hvers konar forseti? Guðni Th. Jóhannesson verður forseti Íslands.

16.50 Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Kveðja til Helga Skúla.

Að loknu málþingi verður boðið upp á kaffiveitingar í húsakynnum Menntavísindasviðs.


Fréttir

Magnaðar mannlýsingar Alþingisbókanna lifna við!

febrúar 2019

Á Háskólatorgi HÍ stendur nú yfir sýning á 30 teikningum eftir nemendur á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Myndirnar eiga að túlka ásýnd nokkurra af þeim um tvö hundruð burtstroknu og óskilaíslendingum sem er að finna í mannlýsingum Alþingisbóka Íslands(Acta comitiorum generalium Islandiæ) frá 17. og 18. öld.

Hugmyndin að samstarfinu við Myndlistaskólann kviknaði hjá Daníel G. Daníelssyni sagnfræðinema þegar hann fékk það verkefni að finna mannlýsingar í Alþingisbókunum. Mannlýsingarnar voru eins og ljósmyndir þess tíma, oft allítarlegar og til þess hugsaðar hægt væri að bera kennsl á burtstrokið fólk og veita því ærlega ráðningu fyrir uppátækið.

Eyvindi og Höllu, því þjóðþekkta útilegufólki voru gerð rækileg skil. Hann var sagður mikill tóbaksreykingamaður, væri með stærri mönnum, bólugrafinn, toginleitur, hirtinn og hreinlátur, mjúkmáll og þýður í geði. Hún hinsvegar fékk þá lýsingu að vera svipill og ógeðsleg, dökk á brún og brá, lág- og fattvaxin.

Annar þekktur Íslendingur, Jón Hreggviðsson var sagður móeygður, gráfölur í andliti, snarlegur og harðlegur í fasi.

Það er því engin lognmolla í lýsingum og orðfæri í Alþingisbókum Íslands – hafi einhver haldið að réttarskjöl væru þurr og þreytandi texti. Í bókunum, sem eru fáanlegar hjá Sögufélagi, má finna margt forvitnilegt sem varpar skýru ljósi á ólíklegustu kima samfélags aldanna 16.-18.

Þegar sakamenn voru eftirlýstir buðu innviðir og boðleiðir ekki upp á annað en nákvæmar kjarngóðar lýsingar í orðum á útliti sem svo þurftu að berast manna á milli. Í raun holdi klæddir samfélagsmiðlar.

Teikningum myndlistarnemanna er ætlað að vekja þessa Íslendinga af jaðri samfélagsins til lífsins. Með nákvæmum lýsingum Alþingisbókanna á andlitsdráttum, líkamsbyggingu og klæðaburði ásamt hæfileikum listamannanna, tekst það mætavel.

Alþingisbækur Íslands er viðamesta heimildaútgáfa sem Sögufélag hefur ráðist í og geymir gerðabækur Alþingis við Öxará frá 1570–1800.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl 1690-1710 er fyrsta bindið af átta sem áætlað að verði gefin út á næstu árum af Sögufélagi og Þjóðskjalasafni Íslands. Yfirrétturinn er í raun framhald af Alþingisbókum en útgáfan byggir á vinnu fræðimanna á Þjóðskjalasafni Íslands sem safnað hafa saman skjölum sem tengjast yfirréttinum en eru varðveitt víða innanlands og utan.


Eldri Fréttir