Fréttir

Hvað er fullveldi?

nóvember 2018

Annar fundurinn um fullveldi Íslands var haldinn í Norræna húsinu 22. nóvember. Fjölmenni hlýddi á erindi þriggja fræðimanna sem veltu fyrir sér stóru spurningunni um hvað fullveldi raunverulega væri.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði stýrði fundi en Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Magnús K. Hannesson reifuðu efnið hvert frá sínu sjónarhorni; lögfræði og sagnfræði. Óhætt er að fullyrða að þau náðu eyrum og huga gesta með orðum sínum.

Nú í nóvember hefur Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efnt til fundaraðar með yfirskriftinni „Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd“ sem tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Nú er aðeins einn fundur eftir – þar sem velt verður upp þeirri mikilvægu spurningu hvort fullveldið sé í hættu. Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þessi síðasti fundur verður haldinn í Norræna húsinu mánudaginn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 og eru allir áhugamenn um sögu og samfélag hvattir til að mæta.


Fréttir

Höfundakvöld Sögufélags

nóvember 2018

Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir Axel Kristinsson

Fimm nýjar fræðibækur eru komnar út hjá Sögufélagi og verða þær kynntar með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 22. nóvember kl. 20-22. Valinkunnir menn, sagnfræðingar og fréttamenn, ræða við höfunda og ritstjóra bókanna, sem allir eru sagnfræðingar, og síðan fara fram almennar umræður. Kaffi og meðlæti eru í boði og bækurnar fást á góðu tilboðsverði. Húsið verður opnað kl. 19:30 en dagskráin hefst kl. 20. Stutt hlé verður um miðbik kvöldsins og gefst þá tækifæri til að fá höfunda og ritstjóra til að árita bækurnar.

Umræður hefjast með þriðja bindinu af Landsnefndinni fyrri og spjallar Vilhelm Vilhelmsson við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í þriðja bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá embættismönnum landsins.

Næst spjallar Helgi Skúli Kjartansson við Axel Kristinsson höfund bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Eins og titillin gefur til kynna hristir bókin upp í ýmsum rótgrónum hugmyndum um sögu Íslands. Var miðbikið í sögunni tími hnignunar og volæðis? Voru Íslendingar fátækir, frumstæðir og vesælir? Var Ísland fátækasta land Evrópu? Axel telur að þessi hugmynd um hnignun og niðurlægingu sé í raun pólitísk goðsögn, sköpuð í þjónustu margs konar hugmyndafræði.

Fundarstjóri fyrir hlé er Markús Þ. Þórhallsson sem jafnframt kynnir bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Einnig verður sagt frá nýju hausthefti Sögu: Tímarits Sögufélags.

Eftir hlé tekur Hrefna Róbertsdóttir við fundarstjórn en Markús ræðir við Guðmund Jónsson ritstjóra greinasafnsins Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918-2018. Í bókinni skoða 13 fræðimenn fullveldið frá ólíkum sjónarhornum lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði og varpa fram gagnrýnum spurningum: Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Er hægt að framselja hluta þess? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Með Guðmundi Jónssyni í ritnefnd voru þau Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Þorsteinn Magnússon.

Að lokum spjallar Brynjólfur Þór Guðmundsson við Gunnar Þór Bjarnason höfund bókarinnar Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Ríkisfáni Íslands var dreginn að hún í fyrsta sinn þann 1. desember 1918 og Ísland varð fullvalda ríki. Í bókinni er sagan um þetta rakin í lifandi og myndskreyttri frásögn, sagt frá eftirminnilegum einstaklingum, hörðum átökum og þjóðlífi í skugga heimsstyrjaldar og áfalla hið viðburðaríka ár 1918. Var þessi fámenna þjóð í stakk búin til að reka sjálfstætt ríki?

Bækurnar um fullveldið gefur Sögufélag út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

Nýju bækurnar eru fjölbreyttar að efni og má búast við fjörlegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Fólk er hvatt til að fjölmenna: Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.


Fréttir

Fullveldi: Hvað er það?

nóvember 2018

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Um þetta verður rætt á fundi í Norræna húsinu 21. nóvember kl. 17.00–18.15. Framsögumenn á fundinum eru Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.
Fundarstjóri er Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Allir velkomnir!

 

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Ritstjóri greinasafnsins er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Á umræðufundunum í Norræna húsinu flytja fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd.

Allfjörugar umræður urðu á fyrsta fundinum 14. nóvember undir yfirskriftinni Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu? Þeir sem misstu af honum þurfa þó ekki að örvænta því enn eru tveir fundir eftir. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka þátt í umræðunum bæði á fundinum 21. nóvember og þeim síðasta sem verður haldinn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 með yfirskriftinni Fullveldið í hættu?

 


Fréttir

„Góðir menn og góðar konur, komið sem allra, allra fyrst“

nóvember 2018

„Góðir menn og góðar konur, komið sem allra, allra fyrst“ er yfirskrift málþings um spænsku veikina sem Borgarsögusafn stendur fyrir í Iðnó sunnudaginn 18. nóvember kl. 14.

Framsögumenn eru Bragi Þorgrímur Ólafsson sagnfræðingur, Magnús Gottfreðsson prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum og Erla Dóris Halldórsdóttir gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og doktor í sagnfræði. Fundarstjóri: Alma D. Möller landlæknir. Tónlistarflutningur verður í höndum Hallveigar Rúnarsdóttur og Hrannar Þráinsdóttur.

Að málþingi loknu verður söguganga frá Iðnó að Hólavallagarði með Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi, Sólveigu Ólafsdóttur sagnfræðingi og Heimi Birni Janusarsyni umsjónarmanni Hólavallagarðs.

Gunnar Þór Bjarnason fjallar einnig um spænsku veikina í nýútkominni bók sinni, Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918.


Fréttir

Hinir útvöldu – frjálsir og fullvalda

nóvember 2018

Fjölmenni var viðstatt veglegt hóf sem haldið var í Safnahúsinu fimmtudaginn 8. nóvember. Tilefnið var að fagna útgáfu tveggja bóka; Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason og Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018.

Nú eru 100 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Í tilefni þess gefur Sögufélag þessar veglegu bækur út í samstarfi við afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Einar K. Guðfinnsson formaður nefndarinnar stýrði samkomunni og lýsti tilurð og framgangi verkefnisins. Hann afhenti jafnframt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrstu eintökin af bókunum. Hann tók þeim fagnandi og áréttaði í ávarpi sínu mikilvægi bókaútgáfu af þessu tagi.

Brynhildur Ingvarsdóttir fulltrúi Sögufélags og útgáfustjóri beggja bóka sagði þær takast á við spurningarnar um hvað fullveldið þýði fyrir íslenskt samfélag og menningu og – ekki síður – hvaða þýðingu menningin samfélagið hefði fyrir fullveldið. „Hér eru höfundar að birta ljóslifandi söguna um aðdraganda fullveldisins,“ sagði hún og bætti við að Sögufélag kæmist vart mikið nær því að rækja hlutverk þess sem mótað var þegar árið 1902.

Gunnar Þór Bjarnason, höfundur Hinna útvöldu, og Guðmundur Jónsson, ritstjóri greinasafnsins slógu á létta strengi í ávörpum sínum. Gunnar hafði á orði að hann væri að verki loknu á svipuðum stað og Ísland fyrir 100 árum … loksins frjáls og fullvalda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnaði útgáfunni og lýsti gleði sinni yfir að enn væru gefin út stórvirki á íslenskri tungu.

Góður rómur var gerður að ávörpunum. Að þeim loknum nutu gestir léttra veitinga, spjölluðu saman og handléku og keyptu hinar nýju bækur Sögufélags.


Fréttir

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

nóvember 2018

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

 

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gefur bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum.

Fundirnir eru þrír og eru haldnir í Norræna húsinu dagana 14., 21. og 26. nóvember kl. 17.00–18.15. Fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn flytja stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd. Á eftir eru almennar umræður.

Allir velkomnir.

 

Dagskrá:

Fullveldi fagnað við Stjórnarráðshúsið 1. desember 191814. nóvember Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu?

Höfðu Íslendingar burði til að annast þær skyldur og verkefni sem fullvalda ríkjum var ætlað að sinna? Hefðu Íslendingar ef til vill verið betur settir með því að vera áfram í dönsku ríkisheildinni? Hvaða áhrif hafði fullveldi á stjórnmál og samfélagsþróun á Íslandi?

Þátttakendur: Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði, Skúli Magnússon héraðsdómari, Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði.

Fundarstjóri: Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði

 

21. nóvember Fullveldi: Hvað er það?

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Þátttakendur: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.

Fundarstjóri: Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði

 

26. nóvember Fullveldið í hættu?

Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þátttakendur: Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, Finnur Magnússon lögmaður og aðjúnkt í lögfræði, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður.

Fundarstjóri: Guðmundur Magnússon, blaðamaður

 

 


Eldri Fréttir