Fréttir

Margmenni á málþingi

desember 2018

Húsfyllir var á þverfaglegu málþingi Sögufélags og Sagnfræðistofnunar Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar.

Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði reið á vaðið þar sem hún lýsti hvernig menn og eldfjöll gerbreyttu ásýnd Íslands á fyrstu öld byggðar í landinu. Axel Kristinsson sagnfræðingur fjallaði um goðsagnir eða mýtur um s.k. vistmorð sem hann taldi ekki endilega standast frekari skoðun.

Helgi Þorláksson fyrrverandi prófessor í sagnfræði fjallaði um hvernig viðhorf til Dana tók breytingum á seinni hluta tuttugustu aldar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kenna einum hópi öðrum fremur um fátækt á Íslandi fyrr á tímum. Að lokum leiddi sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson að því sannfærandi líkum að Íslendingar gætu hafa verið um 100 þúsund á 14. öld, með því að „nota aðrar heimildir“ en hingað til.

Óhikað má fullyrða að aðkoma ólíkra fræðigreina eykur á dýpt umræðunnar um liðna tíma. Innlegg Guðrúnar Gísladóttur, Egils Erlendssonar, Sigrúnar Daggar Eddudóttur og Leones Tinganelli treysti skilning viðstaddra á því sem sem sagnfræðingarnir höfðu fram að færa.

Að loknum erindum var nokkuð tekist á um efni erindanna sem, líkt og einn gesta komst að orði, sýnir að sagnfræðin er sprelllifandi og fjörugt fag.  Nýtt sjónarhorn og áður ónotaðar heimildir geta einmitt orðið til þess að varpa nýju ljósi á það sem áður var talið óyggjandi staðreynd enda er fortíðin síbreytilegur vettvangur og langt í land að hinn endanlegi sannleikur um hana líti dagsins ljós.

Að líkindum verður það aldrei enda sannleikar hvers tíma margvíslegir og margslungnir.


Fréttir

Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar

nóvember 2018

Oft er talað um að íslenska þjóðin hafi fyrr á tímum búið við ömurlega örbirgð um langa hríð. En er þetta ekki bara goðsögn sem varð til í þjóðfrelsisbaráttunni, eitthvað sem fólk þurfti að trúa til að sannfæra sig um að sjálfstæði væri best?

Goðsögnin virðist síðan hafa verið endurunnin í þágu nýrra tíma, nú síðast að því er virðist til notkunar í vaxandi ferðaþjónustu. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að lífskjör Íslendinga voru ekkert verri en annarra þjóða í nágrenninu, á sumum sviðum jafnvel betri ef eitthvað var. Landnámið og búsetan hafði þó í för með sér verulegt álag á gróðurþekju, skóga og jarðveg því landnemar notuðu sömu landbúnaðartækni og í heimalöndunum en gróðurinn er hér viðkvæmari en þar.

Myndin er samt mun flóknari en oftast er látið í veðri vaka og mikilvægt að hafa í huga að mismunandi álag var á landið eftir tímabilum, landshlutum og búsháttum.

Nokkrir þeirra fræðimanna sem rannsakað hafa þessa sögu munu 8. desember næstkomandi flytja erindi á málþingi um þessi mál í sal Þjóðminjasafnsins. Það eru Sögufélag og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands sem standa að málþinginu.

Tveir þeirra sem erindi halda eru með bækur á jólamarkaði, þeir Axel Kristinson með Hnignun, hvaða hnignun?, og Árni Daníel Júlíusson með Af hverju strái. Í þeim báðum eru, með ólíkri nálgun, færð rök að því að hin hefðbundna hugmynd um vesæla þjóð í vondu landi standist á engan hátt.

Frummælendur og umræðuefni eru:

14.00 Guðrún Gísladóttir, Egill Erlendsson, Sigrún Dögg Eddudóttir og Leone Tinganelli: Gróður og jarðvegur eftir landnám.

14.20 Axel Kristinsson: Vistmorðingjar: Rapa Nui og Ísland.

14.50 Helgi Þorláksson: Danir sýknir. Hvað svo?

15.10 Árni Daníel Júlíusson: Bjuggu 100.000 manns á Íslandi á 14. öld?

Eins og áður sagði verðu málþingið haldið þann 8. desember 2018 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 14.00. Fundarstjóri er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!

 


Fréttir

Bókamessa og fullveldisganga

nóvember 2018

Sögufélag mun kynna allar bækurnar sem út komu í haust á Bókamessu í bókmenntaborg í Hörpu helgina 24. – 25. nóvember. Nokkrir höfundannaFullveldi fagnað við Stjórnarráðshúsið 1. desember 1918 munu verða á staðnum að árita bækur sínar sem verða boðnar á góðu verði.

Bókamessan er opin báða dagana frá kl. 11 til 17.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur verður með sögugöngu í tengslum við Bókamessuna frá Hörpu sunnudaginn 25. nóvember kl. 15.

Gengið verður um miðbæ Reykjavíkur og staldrað við hjá byggingum og stöðum sem tengjast sögulegum viðburðum ársins 1918 í aðdraganda þess að Ísland varð fullvalda.
Þá gekk á ýmsu bæði í mannlífi og náttúru: Kötlugos, jökulhlaup, frostaveturinn mikli og hin skæða spænska veiki sem kom um 500 Íslendingum í gröfina. Þann fyrsta desember þetta ár átti hins vegar sá merki og jákvæði atburður sér stað að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Gunnar Þór segir frá á skemmtilegan og lifandi hátt eins og honum einum er lagið. Í göngunni verður farið á slóðir fullveldis sem hann fjallar um í bók sinni Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Bókin kom nýlega út hjá Sögufélagi í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Lagt verður af stað kl. 15:00 og gengið frá listaverki Ólafar Pálsdóttur, Tónlistarmanninum við Hörpu. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.


Fréttir

Hvað er fullveldi?

nóvember 2018

Annar fundurinn um fullveldi Íslands var haldinn í Norræna húsinu 22. nóvember. Fjölmenni hlýddi á erindi þriggja fræðimanna sem veltu fyrir sér stóru spurningunni um hvað fullveldi raunverulega væri.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði stýrði fundi en Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Magnús K. Hannesson reifuðu efnið hvert frá sínu sjónarhorni; lögfræði og sagnfræði. Óhætt er að fullyrða að þau náðu eyrum og huga gesta með orðum sínum.

Nú í nóvember hefur Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efnt til fundaraðar með yfirskriftinni „Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd“ sem tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Nú er aðeins einn fundur eftir – þar sem velt verður upp þeirri mikilvægu spurningu hvort fullveldið sé í hættu. Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þessi síðasti fundur verður haldinn í Norræna húsinu mánudaginn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 og eru allir áhugamenn um sögu og samfélag hvattir til að mæta.


Fréttir

Höfundakvöld Sögufélags

nóvember 2018

Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir Axel Kristinsson

Fimm nýjar fræðibækur eru komnar út hjá Sögufélagi og verða þær kynntar með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 22. nóvember kl. 20-22. Valinkunnir menn, sagnfræðingar og fréttamenn, ræða við höfunda og ritstjóra bókanna, sem allir eru sagnfræðingar, og síðan fara fram almennar umræður. Kaffi og meðlæti eru í boði og bækurnar fást á góðu tilboðsverði. Húsið verður opnað kl. 19:30 en dagskráin hefst kl. 20. Stutt hlé verður um miðbik kvöldsins og gefst þá tækifæri til að fá höfunda og ritstjóra til að árita bækurnar.

Umræður hefjast með þriðja bindinu af Landsnefndinni fyrri og spjallar Vilhelm Vilhelmsson við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í þriðja bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá embættismönnum landsins.

Næst spjallar Helgi Skúli Kjartansson við Axel Kristinsson höfund bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Eins og titillin gefur til kynna hristir bókin upp í ýmsum rótgrónum hugmyndum um sögu Íslands. Var miðbikið í sögunni tími hnignunar og volæðis? Voru Íslendingar fátækir, frumstæðir og vesælir? Var Ísland fátækasta land Evrópu? Axel telur að þessi hugmynd um hnignun og niðurlægingu sé í raun pólitísk goðsögn, sköpuð í þjónustu margs konar hugmyndafræði.

Fundarstjóri fyrir hlé er Markús Þ. Þórhallsson sem jafnframt kynnir bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Einnig verður sagt frá nýju hausthefti Sögu: Tímarits Sögufélags.

Eftir hlé tekur Hrefna Róbertsdóttir við fundarstjórn en Markús ræðir við Guðmund Jónsson ritstjóra greinasafnsins Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918-2018. Í bókinni skoða 13 fræðimenn fullveldið frá ólíkum sjónarhornum lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði og varpa fram gagnrýnum spurningum: Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Er hægt að framselja hluta þess? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Með Guðmundi Jónssyni í ritnefnd voru þau Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Þorsteinn Magnússon.

Að lokum spjallar Brynjólfur Þór Guðmundsson við Gunnar Þór Bjarnason höfund bókarinnar Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Ríkisfáni Íslands var dreginn að hún í fyrsta sinn þann 1. desember 1918 og Ísland varð fullvalda ríki. Í bókinni er sagan um þetta rakin í lifandi og myndskreyttri frásögn, sagt frá eftirminnilegum einstaklingum, hörðum átökum og þjóðlífi í skugga heimsstyrjaldar og áfalla hið viðburðaríka ár 1918. Var þessi fámenna þjóð í stakk búin til að reka sjálfstætt ríki?

Bækurnar um fullveldið gefur Sögufélag út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

Nýju bækurnar eru fjölbreyttar að efni og má búast við fjörlegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Fólk er hvatt til að fjölmenna: Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.


Fréttir

Fullveldi: Hvað er það?

nóvember 2018

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Um þetta verður rætt á fundi í Norræna húsinu 21. nóvember kl. 17.00–18.15. Framsögumenn á fundinum eru Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.
Fundarstjóri er Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Allir velkomnir!

 

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Ritstjóri greinasafnsins er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Á umræðufundunum í Norræna húsinu flytja fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd.

Allfjörugar umræður urðu á fyrsta fundinum 14. nóvember undir yfirskriftinni Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu? Þeir sem misstu af honum þurfa þó ekki að örvænta því enn eru tveir fundir eftir. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka þátt í umræðunum bæði á fundinum 21. nóvember og þeim síðasta sem verður haldinn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 með yfirskriftinni Fullveldið í hættu?

 


Eldri Fréttir