Nýr þáttur af Blöndu

Nú í desember var rætt við Kristínu Loftsdóttur um nýútkomna bók hennar Andlit til sýnis. Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu.

Lengi vel var litið á Ísland og Íslendinga sem á einhvern hátt utan við umheiminn og aðskilda frá heimsvalda- og nýlendstefnu. Frásögn Kristínar Loftsdóttur í bókinni Andlit til sýnis beinir sjónum að samtengdum heimi sem Ísland, ekki síður en Evrópa, hefur lengi verið hluti af.

Með því að gera miðlægt lítið safn á Kanaríeyjum á 19. öld sem snýr að líkamsleifum frumbyggja, þar sem finna má brjóstmyndir Íslendinga, má segja að bók Kristínar varpi öðru ljósi á söguna. Hún rekur sögur þeirra og tengsl við aðrar brjóstmyndir frá ólíkum heimshornum sem er að finna á þessu safni. Hverjar eru sögur þeirra og hvað varð til að þær rötuðu á þetta safn?  Af hverju má finna samskonar brjóstmyndir á meginlandi Spánar og í Frakklandi?

Bókin sýnir hvernig við þurfum að líta á íslensku brjóstmyndirnar – og þannig Ísland – sem hlut af sögum sem eru fléttaðar saman. Hún nálgast sögur einstaklinga sem tengjast þessum brjóstmyndum á áleitinn hátt þar sem þær eru settar í samhengi við þekkingarleit um eðli manneskjunnar, sýningar á „framandi“ fólki í Evrópu og áherslu á flokkun fólks í hópa sem taldir voru hafa ólíkt virði í flokkunarkerfi kynþáttahyggju.