Fréttir

Nýr framkvæmdastjóri Sögufélags

október 2019

Tímamót urðu í rekstri Sögufélags nú á dögunum þegar framkvæmdastjóri í fullu starfi var ráðinn til félagsins frá 1. nóvember næstkomandi.

Brynhildur Ingvarsdóttir sagnfræðingur er nýr framkvæmdastjóri félagsins. Hún hefur áður starfað sem sviðstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Marinox ehf. og ASA ehf., og markaðsstjóri hjá ORF líftækni. Brynhildur er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA próf í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston. Hún hefur mikið unnið að verkefna- og sýningarstjórn, ritstjórn og birt greinar um söguleg efni. Þá hefur hún á starfsferli sínum einnig unnið að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum. Brynhildur hefur setið í stjórn Sögufélags síðan 2016 og síðustu mánuði tekið að sér tímabundin störf fyrir félagið. Stjórn Sögufélags býður hana hjartanlega velkomna til starfa fyrir Sögufélag.


Fréttir

Bókagjöf með inngöngutilboði í Sögufélag

október 2019

Nú fer að styttast í að hausthefti Sögu komi út og því hefur Sögufélag ákveðið að bjóða upp á sérstakt inngöngutilboð fyrir nýja áskrifendur að Sögu.
Í því felst að þeir sem gerast áskrifendur að Sögu, og þar af leiðandi meðlimir í Sögufélagi, fá fyrsta eintakið af Sögu frítt og býðst að eignast eina af eftifarandi bókum Sögufélags sér að kostnaðarlausu:

  1. Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918
  2. Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands
  3. Stund klámsins. Klám á  Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar
  4. Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi
  5. Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018
  6. Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar
  7. Á hjara veraldar. Saga norræna manna á Grænlandi
  8. Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld
  9. Saga Pelópeyjarstríðsins
  10. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld

Nýttu þér einstakt tækifæri til að slást í hóp áhugamanna um sögu og eignast í leiðinni góða bók fyrir haustlægðirnar.

Sendu okkur línu á sogufelag@sogufelag.is ef þú vilt ganga í Sögufélag og fá glæsilega bókagjöf og hausthefti Sögu þér að kostnaðarlausu. Tilboðið gildir í október.


Fréttir

Ný bók á leiðinni: Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi

ágúst 2019

Í febrúar gaf Sögufélag út bókina Nýtt Helgakver, greinasafn til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum.

Nú er gaman að segja frá því að önnur bók ársins er á leiðinni; Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur hefur verið send í prentsmiðju og kemur út í október.

Bók Unnar er fyrsta ritið sem fjallar heildstætt um sögu hreindýra á Íslandi og samband þeirra við landsmenn. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands árið 1771 frá Finnmörku í Noregi og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Fljótlega var farið að veiða þau en undir lok 19. aldar var aftur á móti farið að ljá máls á nauðsyn þess að friða þau og vernda fyrir útrýmingu. Á 20. öld skiptu stjórnvöld sér í vaxandi mæli af fjölgun, útbreiðslu og nýtingu hreindýrastofnsins á Íslandi – svo mjög að sumum þótti sem þau væru ekki lengur sannkölluð börn öræfanna heldur hreindýrahjörð ríkisins.

Í rannsóknum Unnar er sjónum jafnan beint að sambandi manns og náttúru, Öræfahjörðin engin undantekning þar á. Bókin segir þannig jafnt sögu hreindýranna sjálfra sem og viðhorfa manna til þeirra. Hugmyndasaga af bestu sort.


Fréttir

Fyrstu heiðursfélagar Sögufélags

júlí 2019

Um þessar mundir stendur yfir athugun á þeim sem hafa verið gerðir að heiðursfélögum í Sögufélagi og má gera ráð fyrir því að tæmandi heiðursfélagalisti verði tilbúinn á haustdögum.

3. apríl 1917 eignaðist Sögufélag sína fyrstu heiðursfélaga. Þá voru Klemens Jónsson landritari, og Einar Arnórsson ráðherra gerðir að heiðursfélögum í Sögufélagi.

Kjörið hefur, ef marka má minningagrein um Einar, „staðið að einhverju leyti í sambandi við þá breytingu, er þá hafði nýlega orðið á stjórn landsins.“ Einar var nýhættur sem ráðherra Íslands og Klemens sem landritari þegar það embætti var lagt niður.

Klemens sat í stjórn Sögufélags 1906-1930. Einar 1910-1955 og var þar af forseti 1935-1955. Seta Einars í stjórn Sögufélags var því ekki hálfnuð þegar hann var gerður að heiðursfélaga.


Fréttir

Fréttabréf Sögufélags er komið út

júní 2019

Eftir langa bið hefur Sögufélag loksins sent frá sér nýtt fréttabréf.

Ýmislegt hefur drifið á daga félagsins síðan síðasta fréttabréf var sent út og það er því mikið að vöxtum. Smelltu hér til að lesa fréttabréfið.

Ef þú ert ekki á póstlistanum okkar þá geturðu skráð þig á hann hér.


Fréttir

Sögukvöld framundan!

maí 2019

Fimmtudagskvöldið 30. maí kl. 20:00 verður útgáfu vorheftis Sögu 2019 fagnað í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Þar gefst tækifæri til að spjalla um efni tímaritsins en höfundar þriggja greina munu kynna viðfangsefni sín.

Erla Hulda Halldórsdóttir kynnir grein sína „Sögulegir gerendur og aukapersónur. Kyngervi og sagnaritun þjóða(r)“.

Íris Ellenberger, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir kynna grein sína um forsíðumynd Sögu, „Meira en þúsund orð. Ljósmyndun og rómantísk vinátta við upphaf 20. aldar“.

Anna Agnarsdóttir ræðir framlag sitt til álitamála Sögu, sem að þessu sinni hafa yfirskriftina „Ísland – Danmörk: Síkvik söguleg tengsl“.

Tímaritið  verður að sjálfsögðu til sölu á staðnum og boðið verður upp á léttar veitingar.


Eldri Fréttir