Viðburðir

Að horfast í augu við hið sóðalega og grófa. Stund klámsins og aðferðir við ritun íslenskrar klámsögu

apríl 2019

Í framhaldi af aðalfundi Sögufélags mánudaginn 29. apríl næstkomandi, mun Kristín Svava Tómasdóttir segja frá nýjustu bók sinni Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Erindi hennar hefst kl. 19:30 heitir:

„Að horfast í augu við hið sóðalega og grófa. Stund klámsins og aðferðir við ritun íslenskrar klámsögu“.

Bókin Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur, sem út kom hjá Sögufélagi á liðnu ári, fjallar um það hvernig klám var skilgreint á Íslandi á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar. Það voru tímar mikillar gerjunar í hugmyndum um kynhvatir, kynlíf og menningarlegar birtingarmyndir þess. Þar á meðal fór fram lífleg umræða um mörk þess sem kallað var klám. Ein af meginniðurstöðum bókarinnar er hins vegar að þrátt fyrir breyttar hugmyndir um réttmæti kynferðislegra sviðsetninga hafi klámhugtakið sjálft haldið sinni neikvæðu merkingu og jafnan verið gripið til þess til að lýsa því sem þótti sóðalegt og gróft, ljótt og vont. Í erindinu mun Kristín Svava fjalla um áskoranir og aðferðafræði við rannsóknir á þessu fordæmda og gildishlaðna viðfangsefni.

Kristín Svava Tómasdóttir útskrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Fyrir Stund klámsins hlaut hún Viðurkenningu Hagþenkis og lenti í öðru sæti bóksalaverðlaunanna 2018 í flokki fræðirita.


Fréttir

Ritstjóraskipti hjá tímaritinu Sögu

apríl 2019

Erla Hulda Halldórsdóttir dósent í sagnfræði hefur verið annar af ritstjórum SÖGU síðastliðin tvö ár, en hún og Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tóku við ritstjórn SÖGU í ársbyrjun 2016. Hún ritstýrði farsællega fjórum heftum af tímaritinu en hefur nú látið af þeim störfum.

Tímaritið SAGA hefur verið kröftugt þessi ár, blanda af fræðilegum greinum, viðhorfum, andmælum og ritdómum. Áhersla hefur einnig verið lögð á að birta bálka um álitamál sem tengjast samtímaumræðu. Þannig tengist fortíðin og nútíðin. Við ritstjórasæti Erlu Huldu tekur Kristín Svava Tómasdóttir sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, sem verður ritstjóri næstu tvö árin ásamt Vilhelm.

SAGA er einn mikilvægasti vettvangur fræðilegrar umræðu um íslenska sagnfræði þar sem öll tímabil og tegundir sögu eiga sinn sess. Tímaritið kemur út tvisvar á ári. Erlu Huldu Halldórsdóttur er hér með þakkað kærlega fyrir öfluga og styrka ritstjórn og Kristín Svava Tómasdóttir nýr ritstjóri boðin hjartanlega velkomin!


Fréttir

Bókakvöld um sagnfræði

mars 2019

Bókakvöld verður haldið miðvikudagskvöldið 3. apríl kl. 20:00 í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, 4. hæð. Þar verður fjallað og spjallað um fimm spennandi sagnfræðiverk sem komu út á liðnu ári. Bókakvöldið er skipulagt í samvinnu Sagnfræðingafélags Íslands, tímaritsins Sögu, Sögufélags og ReykjavíkurAkademíunnar.

Dagskráin verður sem hér segir:

Kristín Ástgeirsdóttir fjallar um bók Báru Baldursdóttur og Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi (Hið íslenska bókmenntafélag)

Hjalti Hugason fjallar um bók Sverris Jakobssonar, Kristur. Saga hugmyndar (Hið íslenska bókmenntafélag)

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fjallar um bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Sögufélag)

Kaffihlé

Guðný Hallgrímsdóttir fjallar um bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti. Faðir Reykjavíkur – saga frá 18. öld (JPV)

Ragnheiður Kristjánsdóttir fjallar um bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 2018 (Sögufélag)

Allt sagnfræðiáhugafólk er hvatt til að fjölmenna á bókakvöldið.


Fréttir

Stund klámsins í Hannesarholti

mars 2019

Verðlaunaritið Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gefur út, verður til umfjöllunar á viðburði í risloftinu, Hannesarholti föstudaginn 5. apríl 2019 kl. 17. Þótt viðfangsefnið kunni að virðast viðkvæmt og jafnvel bannað börnum fer Kristín Svava Tómasdóttir þannig höndum um það að úr verður frábærlega læsilegt fræðirit.

Höfundurinn mun lesa úr bókinni og ræða efni hennar við Guðrúnu Elsu Bragadóttur bókmenntafræðing. Þar má búast við fjörlegum samræðum.

Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis!


Fréttir

Stefndi Ísland til Andskotans? Áhugaverð málstofa á Hugvísindaþingi

mars 2019

Fyrir jólin 2018 gaf Sögufélag út bók Axels Kristinssonar, Hnignun, hvaða hnignun? Þar færði höfundur rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingu í sögu Íslands sé pólitísk goðsögn ‒ mýta ‒ sem búin hafi verið til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og þjónað þörfum hennar með því að mála erlend yfirráð sem dekkstum litum.

Goðsögnin sannfærði Íslendinga um að dönsk stjórn hefði reynst þjóðinni ákaflega óheillavænleg og því bæri að stefna að sjálfstæði. Vitaskuld eru ekki allir á sama máli og Axel.

Því er efnt til málstofu á Hugvísindaþingi þar sem tekist verður á um þætti í röksemdafærslu hans með yfirskriftinni „Stefndi Ísland til Andskotans?“ Málstofan fer fram laugardaginn 9. mars kl. 15:00 til 16:30 í stofu 311 í Árnagarði.

Gunnar Þór Bjarnason stýrir umræðum milli málshefjenda, Axels Kristinssonar, Orra Vésteinssonar og Árna Daníels Júlíussonar.

Öllu áhugafólki um Íslandssöguna á eftir að finnast spennandi að fylgjast með og taka þátt í umræðum um þessar spennandi en umdeildu hugmyndir!


Fréttir

Kristín Svava hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis. Stáss innan fræðanna!

mars 2019

Það er Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur, ljóðskáld og annar ritstjóra Sögu sem hlýtur viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2018. Viðurkenninguna hlýtur hún fyrir bók sína Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gefur út. Niðurstaðan var tilkynnt við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Landsbókasafns þann 6. mars, en þetta er í 32. sinn sem viðurkenningin er veitt.

Að mati viðurkenningarráðs Hagþenkis er hér á ferðinni sannkallað brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenningarráðið lagði mat á öll fræðirit, prentuð náms­gögn og aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings sem komu út á ís­lensku árið 2018, um sextíu talsins. Í lok janúar var tilkynnt hvaða tíu verk hlytu tilnefningar og eins og áður sagði varð Stund klámsins hlutskarpast að þessu sinni.

Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur sem tilkynnti um verðlaunin sagði að þótt verkið væri mögulega ekki stofustáss vegna vandmeðfarins efnisins væri það óneitanlega stáss innan fræðanna.

Í umsögn ráðsins sagði jafnframt: „Stund klámsins er þannig saga hugmyndar, saga hugtaks, hvernig það hefur verið notað á ólíkan hátt og hverjir hafa ráðið því hvaða merking var lögð í það.“ Sömuleiðis að sagan sem í bókinni væri sögð ætti erindi við alla þá sem velta kynverund Íslendinga fyrir sér og að hún væri einnig veglega og glæsilega gerð af hendi Sögufélags. Sérstaklega var tekið til hversu hún væri ríkulega myndskreytt sem yki innihald hennar mjög.

Auk Auðar Styrkársdóttur sátu Ásta Krist­ín Bene­dikts­dótt­ir ís­lensku­fræðing­ur, Henry Al­ex­and­er Henrys­son heim­spek­ing­ur og Svan­hild­ur Kr. Sverr­is­dótt­ir mennt­un­ar­fræðing­ur í viðurkenningarráðinu.

Það var formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson, sem afhenti Kristínu Svövu viðurkenningarskjal, blómvönd og 1250 þúsund króna verðlaunafé.

Í þakkarræðu sinni velti Kristín Svava fyrir sér hvar hin samfélagslegu mörk gætu legið, talaði um hvernig bókin væri hennar sveinsstykki fimm árum eftir að formlegu meistaranámi hennar var lokið og hversu mikið hún ætti öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum að þakka.

Sérstaklega nefndi Kristín Ragnheiði Kristjánsdóttur leiðbeinanda sinn við ritgerðasmíðina forðum sem hvatt hafði höfundinn til að koma henni til útgefanda. Bókin er byggð á meistaraverkefni hennar en „hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakstur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar“, líkt og sagði í umsögn viðurkenningarnefndar Hagþenkis.

Kristín Svava tileinkaði öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum viðurkenninguna.

Að athöfn lokinni var afhjúpaður sýningarkassi í anddyri Landsbókasafns tengdur efni Stundar klámsins.

Kristín Svava er vel að viðurkenningunni komin fyrir sitt fyrsta fræðilega verk. Óskar Sögufélag henni sérstaklega til hamingju og einnig öllum þeim öðrum sem tilnefningar hlutu.


Eldri Fréttir