Fréttir

Fullveldi: Hvað er það?

nóvember 2018

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Um þetta verður rætt á fundi í Norræna húsinu 21. nóvember kl. 17.00–18.15. Framsögumenn á fundinum eru Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.
Fundarstjóri er Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Allir velkomnir!

 

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Ritstjóri greinasafnsins er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Á umræðufundunum í Norræna húsinu flytja fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd.

Allfjörugar umræður urðu á fyrsta fundinum 14. nóvember undir yfirskriftinni Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu? Þeir sem misstu af honum þurfa þó ekki að örvænta því enn eru tveir fundir eftir. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka þátt í umræðunum bæði á fundinum 21. nóvember og þeim síðasta sem verður haldinn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 með yfirskriftinni Fullveldið í hættu?

 


Fréttir

„Góðir menn og góðar konur, komið sem allra, allra fyrst“

nóvember 2018

„Góðir menn og góðar konur, komið sem allra, allra fyrst“ er yfirskrift málþings um spænsku veikina sem Borgarsögusafn stendur fyrir í Iðnó sunnudaginn 18. nóvember kl. 14.

Framsögumenn eru Bragi Þorgrímur Ólafsson sagnfræðingur, Magnús Gottfreðsson prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum og Erla Dóris Halldórsdóttir gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og doktor í sagnfræði. Fundarstjóri: Alma D. Möller landlæknir. Tónlistarflutningur verður í höndum Hallveigar Rúnarsdóttur og Hrannar Þráinsdóttur.

Að málþingi loknu verður söguganga frá Iðnó að Hólavallagarði með Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi, Sólveigu Ólafsdóttur sagnfræðingi og Heimi Birni Janusarsyni umsjónarmanni Hólavallagarðs.

Gunnar Þór Bjarnason fjallar einnig um spænsku veikina í nýútkominni bók sinni, Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918.


Fréttir

Hinir útvöldu – frjálsir og fullvalda

nóvember 2018

Fjölmenni var viðstatt veglegt hóf sem haldið var í Safnahúsinu fimmtudaginn 8. nóvember. Tilefnið var að fagna útgáfu tveggja bóka; Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason og Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018.

Nú eru 100 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Í tilefni þess gefur Sögufélag þessar veglegu bækur út í samstarfi við afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Einar K. Guðfinnsson formaður nefndarinnar stýrði samkomunni og lýsti tilurð og framgangi verkefnisins. Hann afhenti jafnframt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrstu eintökin af bókunum. Hann tók þeim fagnandi og áréttaði í ávarpi sínu mikilvægi bókaútgáfu af þessu tagi.

Brynhildur Ingvarsdóttir fulltrúi Sögufélags og útgáfustjóri beggja bóka sagði þær takast á við spurningarnar um hvað fullveldið þýði fyrir íslenskt samfélag og menningu og – ekki síður – hvaða þýðingu menningin samfélagið hefði fyrir fullveldið. „Hér eru höfundar að birta ljóslifandi söguna um aðdraganda fullveldisins,“ sagði hún og bætti við að Sögufélag kæmist vart mikið nær því að rækja hlutverk þess sem mótað var þegar árið 1902.

Gunnar Þór Bjarnason, höfundur Hinna útvöldu, og Guðmundur Jónsson, ritstjóri greinasafnsins slógu á létta strengi í ávörpum sínum. Gunnar hafði á orði að hann væri að verki loknu á svipuðum stað og Ísland fyrir 100 árum … loksins frjáls og fullvalda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnaði útgáfunni og lýsti gleði sinni yfir að enn væru gefin út stórvirki á íslenskri tungu.

Góður rómur var gerður að ávörpunum. Að þeim loknum nutu gestir léttra veitinga, spjölluðu saman og handléku og keyptu hinar nýju bækur Sögufélags.


Fréttir

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

nóvember 2018

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

 

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gefur bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum.

Fundirnir eru þrír og eru haldnir í Norræna húsinu dagana 14., 21. og 26. nóvember kl. 17.00–18.15. Fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn flytja stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd. Á eftir eru almennar umræður.

Allir velkomnir.

 

Dagskrá:

Fullveldi fagnað við Stjórnarráðshúsið 1. desember 191814. nóvember Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu?

Höfðu Íslendingar burði til að annast þær skyldur og verkefni sem fullvalda ríkjum var ætlað að sinna? Hefðu Íslendingar ef til vill verið betur settir með því að vera áfram í dönsku ríkisheildinni? Hvaða áhrif hafði fullveldi á stjórnmál og samfélagsþróun á Íslandi?

Þátttakendur: Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði, Skúli Magnússon héraðsdómari, Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði.

Fundarstjóri: Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði

 

21. nóvember Fullveldi: Hvað er það?

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Þátttakendur: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.

Fundarstjóri: Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði

 

26. nóvember Fullveldið í hættu?

Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þátttakendur: Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, Finnur Magnússon lögmaður og aðjúnkt í lögfræði, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður.

Fundarstjóri: Guðmundur Magnússon, blaðamaður

 

 


Fréttir

Fullveldi Íslands

nóvember 2018

Fullvalda barn!Útgáfuhóf í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, fimmtudaginn 8. nóvember kl. 16

Í tilefni þess að nú eru 100 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki gefur Sögufélag út tvær veglegar bækur í samstarfi við afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Þetta var einstök upplifun. Fólki vöknaði um augu þegar það horfði á ríkisfána Íslands dreginn að hún á Stjórnarráðsbyggingunni í Reykjavík í fyrsta sinn klukkan tólf á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918. Draumur þjóðarinnar um sjálfstæði hafði ræst.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur rekur aðdragandann að þessu í lifandi myndskreyttri frásögn í bókinni Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Sagt er frá eftirminnilegum einstaklingum, hörðum átökum og þjóðlífi í skugga heimsstyrjaldar og áfalla hið viðburðaríka ár 1918. Var þessi fámenna þjóð í stakk búin til að reka sjálfstætt ríki?

Í bókinni Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 er kastljósinu beint að fullveldishugmyndinni bæði á alþjóðavísu og í íslenskum stjórnmálum og hvernig fullveldisréttinum hefur verið beitt á Íslandi á 20. öld.  Í bókinni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Ritstjóri bókarinnar er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Útkomu þessara góðu bóka verður fagnað með skemmtilegri og sköruglegri hátíðardagskrá í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, fimmtudaginn 8. nóvember kl. 16.

Formaður afmælisnefndar, Einar K. Guðfinnsson, segir frá tilurð verkefnisins og afhendir forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, fyrstu eintökin af bókunum. Brynhildur Ingvarsdóttir, útgáfustjóri og fulltrúi Sögufélags, kynnir bækurnar og þvínæst stíga á stokk þeir Gunnar Þór Bjarnason, höfundur Hinna útvöldu, og Guðmundur Jónsson, ritstjóri greinasafnsins Frjálst og fullvalda ríki. Loks segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, nokkur vel valin orð.

Þar með lýkur formlegri dagskrá en tækifæri gefst til að gleðjast saman og spjalla við höfunda og ritstjóra bókanna. Bækurnar verða að sjálfsögðu til sölu á góðu tilboði og ljúfar veitingar eru í boði.

Allir eru velkomnir og fólk er hvatt til að fjölmenna.

 

 

 

 


Fréttir

Klám og hnignun: Útgáfuhóf í Bókabúð Forlagsins 25. október kl. 17-18:30

október 2018

Það gætir ferskra strauma hjá Sögufélagi sem fagnar nú útgáfu tveggja áleitinna sagnfræðirita.

Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir sagnfræðinginn Kristínu Svövu Tómasdóttur er fyrsta fræðilega verkið um sögu kláms á Íslandi. Rýnt er í hugmyndir um klám sem andstæðu upplýsandi fræðslu og listrænnar tjáningar, um kynfrelsi og bælingu, ritskoðun og tjáningarfrelsi, ónáttúru og afbrigðilegar hneigðir. Við sögu kemur ýmislegt sem ekki hefur verið rætt í samhengi Íslandssögunnar hingað til – enda stranglega bannað börnum.

Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir sagnfræðinginn Axel Kristinsson fjallar á gagnrýnin hátt um hugmyndina um eymdarskeið í sögu Íslands. Gékk landið í gegnum tíma hnignunar og volæðis eins og haldið hefur verið fram? Voru Íslendingar fátækir, frumstæðir og vesælir? Var Ísland fátækasta land Evrópu? Axel færir sterk rök fyrir því að hugmyndin um slíkt niðurlægingarskeið sé í raun pólitísk goðsögn, sköpuð í þjónustu margs konar hugmyndafræði.

Enginn áhugamaður um sögu landsins ætti að láta þessar bækur fram hjá sér fara. Þær verða báðar til sölu á góðu tilboði í útgáfuhófinu sem er haldið fimmtudaginn 25. október kl. 17-18:30 í Bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39. Í boði er skemmtileg dagskrá með andlegri næringu og léttum veitingum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er sérstakur heiðursgestur og flytur ávarp við þetta tilefni. Guðni sem er sagnfræðingur gegndi embætti forseta Sögufélags árin 2011 til 2015 og gjörþekkir því starfsemi þessa smáa en öfluga útgáfufélags.

Þá kemur Markús Þ. Þórhallsson sagnfræðingur fram fyrir hönd stjórnar Sögufélags og segir nokkur orð um nýju bækurnar. Jafnframt kynna höfundarnir verk sín sjálfir. Tækifæri gefst til að spjalla við þau Kristínu Svövu og Axel sem eru boðin og búin til að árita bækur sínar sé þess óskað.
í Bókabúð Forlagsins má jafnframt nálgast eldri bækur Sögufélags sem allar fást með 15% afslætti.

Sögufélag hefur allt frá því það var stofnað árið 1902 sérhæft sig í útgáfu vandaðra sagnfræðilegra ritverka og hefur með starfsemi sinni átt drjúgan þátt í að efla sagnfræði í landinu sem lifandi fræðasamfélag.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu, og fólk er hvatt til að fjölmenna.


Eldri Fréttir