Farsótt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur hefur rækilega slegið í gegn. Á dögunum hlaut hún tilnefningu til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlauna.

Í umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna segir:

„Vandað verk sem veitir innsýn í þróun heilbrigðis- og velferðarmála á Íslandi. Sagan er vel skrifuð, út frá sjónarhorni húss sem gegndi ólíkum en mikilvægum hlutverkum í þróun nútíma samfélags. Margar eftirminnilegar persónur úr öllum þjóðfélagshópum koma við sögu og ríkulegt myndefni styður vel við frásögnina. Falleg og fróðleg bók.“

Í umsögn dómnefndar Fjöruverðlauna segir:

 „Í Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 rekur Kristín Svava Tómasdóttir sögu þessa merka húss, sem umfram allt er litrík saga fólksins sem húsið hýsti og samfélagsins sem skóp það.“