Ríkisstjórn styrkir nýja Íslandssögu fyrir almenning

Í tilefni 120 ára afmælis Sögufélags lagði Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra viðskipta- og menningarmála, ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, tillögu fyrir ríkisstjórn um að Sögufélagi skyldi veittur styrkur til þess að hefja útgáfu á nýrri smáritaröð um Íslandssögu fyrir almenning. Ríkisstjórn samþykkti að veita styrk til útgáfu fyrsta ritsins að upphæð 3,5 milljónir króna en stefnt er að því að útgáfan hefjist á 80. afmælisári lýðveldisins 2024.

Alls er stefnt að útgáfu 80 smárita á tíu árum þar sem fjallað verður um afmarkað efni, viðburð eða tímabil í hverju þeirra. Ritin eru hugsuð fyrir almenning en einnig fyrir kennslu sem ítarefni um margvísleg mál, bæði sem lesefni og til verkefnavinnu á ýmsum skólastigum. Þá verður hugað að miðlun á ýmsu formi og útgáfunni mun fylgja vefsíða þar sem finna má upplýsingar um frekari heimildir, myndir og aukaefni. Einnig er stefnt að raf- og hljóðútgáfu bókanna svo efnið verði aðgengilegt sem flestum.
Sögufélag fagnar skilningi og stuðningi stjórnvalda við þetta mikilvæga verkefni og þakkar ráðherrum fyrir að veita því brautargengi.