Meðal þess sem kynnt var á 120 ára afmælishátíð Sögufélags þann 1. desember síðastliðinn var rausnarlegur styrkur Bláa lónsins til Aldarsjóðs – útgáfusjóðs Sögufélags.
Aldarsjóður er hugmynd sem fyrst varð til í aðdraganda aldarafmælis félagsins fyrir 20 árum. Á þeim tímamótum fóru stjórnarmenn að huga að því hvernig hægt væri að skjóta fótunum undir starfsemi félagsins með myndarlegum hætti. Nokkru síðar fékk hugmyndin svo byr undir báða vængi í kjölfar þess að Sögufélagi barst góð gjöf. Árið 2010 fól Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis Sögufélagi að sjá um ritun og útgáfu á sögu sjóðsins, sem gefin var út 2013, og í tengslum við það verkefni ákvað Sparisjóðurinn að ánafna Sögufélagi 10 milljónum króna. Stjórn félagsins ákvað síðar að þetta fé skyldi mynda höfuðstól útgáfusjóðs og stofnaði Aldarsjóð – útgáfusjóð Sögufélags. Nú hefur verið samþykkt stofnskrá með reglum sjóðsins, skipuð verður sjóðstjórn sem mun standa vörð um, og ávaxta sjóðinn, og fyrstur til þess að taka sæti í henni er Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í sagnfræði. Markmiðið er að fá til liðs við okkur sterka bakhjarla til að leggja myndarlega í sjóðinn svo tryggja megi nægan höfuðstól og hægt verði að úthluta árlega styrkjum til útgáfuverkefna Sögufélags.
Gaman er að segja frá því að sama dag og afmælishátíðin fór fram var staðfest samkomulag við fyrsta bakhjarl sjóðsins, Bláa lónið, sem leggur sjóðnum til 6 milljónir króna. Bláa lónið fagnar 30 ára afmæli í ár og ákvað í tilefni þess að styðja menningarstarf Sögufélags svo myndarlega. Fyrirtækið hefur stutt dyggilega við ýmis mannúðarverkefni í nærsamfélagi sínu með áherslu á íþrótta- og ungmennafélög en einnig menningar-, heilsu- og umhverfistengda starfsemi. Við fögnum þessu nýja samstarfi og kunnum Bláa lóninu allra bestu þakkir.
Einnig hægt að gerast almennur bakhjarl
Farvegur fyrir stuðning frá einstaklingum hefur einnig verið lagður með nýrri síðu á vefsíðu Sögufélags, þar sem allir sem vilja geta stutt Aldarsjóðinn og lagt sitt af mörkum við að efla útgáfustarf Sögufélags. Þar má gefa stök framlög, minningargjafir eða gerast velunnari með mánaðarlegu framlagi. Þarna eru einnig upplýsingar um skattfrádrátt en framlög til félagsins eru frádráttarbær frá skatti, þar sem Sögufélag hefur nú verið skráð á almannaheillaskrá Skattsins.
Öll framlög renna beint til Aldarsjóðs og stuðla þannig að áframhaldandi fjölbreyttri útgáfu vandaðra bóka um sagnfræði og söguleg efni.