Fjölmenni á afmælishátíð Sögufélags

Þann 1. desember síðastliðinn blés Sögufélag til afmælishátíðar til þess að fagna því að í ár eru liðin 120 ár frá stofnun félagsins árið 1902. Góð mæting var í Bryggjusal Sjóminjasafnsins. Fimm tóku til máls og fjölluðu um starf félagsins á einn hátt eða annan. Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra viðskipa- og menningarmála, flutti ávarp þar sem hún ræddi meðal annars mikilvægi þess að miðla sögunni til almennings. Hún tilkynnti jafnframt um styrk frá ríkisstjórn til Sögufélags upp á þrjár og hálfa milljón króna til þess að hefja útgáfu á nýrri Íslandssögu árið 2024, í tilefni þess að þá verða liðin 80 ár frá lýðveldisstofnun 1944. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, ræddi útgáfustarfsemi félagsins, Sumarliði R. Ísleifsson stjórnarmaður fjallaði um ritröðina Safn Sögufélags, sem nú er endurútgefin, Íris Ellenberger fyrrv. stjórnarmaður ræddi Sögu Sögufélags, sem áætlað er að komi út á næsta ári, og Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins kynnti Aldarsjóð — útgáfusjóð Sögufélags. Gaman er að segja frá því að Bláa lónið hefur ákveðið að veita félaginu myndarlegan styrk upp á sex milljónir sem mun renna til Aldarsjóðs. Fundarstjóri var Jón Kristinn Einarsson.

Að því loknu var boðið upp á léttar veitingar, sýndar voru myndir úr starfi félagsins og gestum bauðst að virða fyrir sér bókaútgáfu Sögufélags frá upphafi.

Við þökkum öllum sem mættu, og hlökkum til næstu 120 ára.