120 ára afmæli Sögufélags: Öldungur ungur í anda

Sögufélag fagnar 120 ára afmæli þann 7. mars 2022. Félagið var stofnað árið 1902 með það að markmiði að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni, einkum um sögu Íslands. Enn í dag er félagið helsti útgefandi rita af þessu tagi og vinnur ötullega að því að auka þekkingu, skilning og áhuga á sögu Íslands, og ná til almennings, fræðimanna, sagnfræðinema og annars áhugafólks um sögu.

Núverandi forseti og jafnframt sá tólfti, er Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður, en fyrsti forseti félagsins var Jón Þorkelsson, sem einnig var þjóðskjalavörður. Fyrrum forsetar á þessari öld voru Loftur Guttormsson, Anna Agnarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson. Sögufélag nýtur virðingar fyrir vandaða útgáfu og gefur jafnframt út eina fræðilega tímaritið í heiminum um íslenska sagnfræði, Sögu, sem hefur komið út síðan 1949.

Sögufélag hefur ávallt leitast við að vera sýnilegt í samfélaginu, miðla efni og efla samtal um sögu og sagnfræði með útgáfustarfsemi sinni, málþingum, höfundakvöldum og öðru þess háttar. Þörfin fyrir vettvang af þessu tagi varð kveikjan að stofnun félagsins í upphafi 20. aldarinnar. Íris Ellenberger hefur ritað sögu Sögufélags sem gefin verður út á afmælisárinu og þar segir svo um stofnun þess:

„ … um það leyti sem sjálfstæðisbaráttan var í blóma, létu þrír menn, þeir Hannes Þorsteinsson ritstjóri, Jón Þorkelsson skjalavörður og Steinn Dofri (Jósafat Jónasson) ættfræðingur, út ganga áskorun um að stofnað yrði félag til að gefa út rit á sviði íslenskrar mannfræði og ættfræði. 74 karlar rituðu nöfn sín undir þetta skjal og í framhaldinu var haldinn fundur 17. febrúar 1902 á Hótel Íslandi þar sem ákveðið var „að stofna félag til að gefa út heimildarrit að sögu Íslands, og í sambandi við þau ættfræði og mannfræði“ í takt við þörf talsmanna sjálfstæðisbaráttunnar, sem margir voru í hópi áskorendanna, fyrir rannsóknir sem studdu við málflutning þeirra. Félag þetta hlaut nafnið Sögufélag en í fyrstu stjórn félagsins sátu Jón Þorkelsson forseti, Hannes Þorsteinsson gjaldkeri, Jón Jónsson Aðils ritari, meðstjórnendur Þórhallur Bjarnarson og Bjarni Jónsson frá Vogi en varamenn voru Jósafat Jónasson og Benedikt Sveinsson.“

Frá stofnun félagsins hafa verið gefin út hátt í 200 rit um sögu og menningu Íslands og um tæplega hundrað tölublöð tímarita um sama efni. Fyrstu rit félagsins voru Morðbréfabæklingur Guðbrands Þorlákssonar, Biskupasögur Jóns Halldórssonar prófasts í Hítardal og Aldarfarsbók Páls lögmanns Vídalíns 1700–1709. Á öðrum áratug aldarinnar efldist heimildaútgáfa mjög og ráðist var í útgáfu stórra réttarsögulegra heimildasafna. Árið 1918 hófst útgáfa tímaritsins Blanda – Fróðleikur gamall og nýr sem gefið var út til ársins 1953. Tímaritið Saga bættist svo við flóruna árið 1949 og hefur verið gefið út óslitið síðan. Saga þróaðist smám saman út í að verða helsti vettvangur fræðilegrar íslenskrar sagnfræði.

Sögufélag hefur aðsetur í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8. Það heldur úti virkum menningarsögulegum vef, hlaðvarpinu Blöndu, samfélagsmiðlum og fréttabréfi og eru félagsmenn um 700. Á komandi starfsárum er stefnt að því að styrkja enn frekar bókaútgáfu og félagsstarf Sögufélags, félags sem er öldungur ungur í anda og vill tengja samtímann við söguna.