Aðalfundur og Ættarnöfn

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 15. febrúar síðastliðinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og var fundarstjóri Kristín Svava Tómasdóttir. Skýrslu stjórnar flutti Hrefna Róbertsdóttir forseti, og Helga Maureen Gylfadóttir gjaldkeri lagði fram skoðaða reikninga til samþykktar. Á fundinum voru einnig lagðar fram lagabreytingar sem samþykktar voru samhljóða af fundarmönnum. Ný lög tóku því gildi á fundinum og þau má sjá hér.

Stjórnarkjör fór einnig fram en allir stjórnarmenn utan einn buðu sig fram til áframhaldandi setu. Örn Hrafnkelsson hefur setið í stjórn í fimm ár og gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Var honum þakkað gott og farsælt starf í þágu félagsins, lengst af sem ritari stjórnar. Hrefna Róbertsdóttir var kjörin forseti Sögufélags til tveggja ára á síðasta aðalfundi og því var ekki kosið um forseta að þessu sinni. Einn nýr stjórnarmaður var kjörinn til eins árs, Jón Kristinn Einarsson. Er hann boðinn velkominn til starfa í þágu félagsins að nýju, en Jón Kristinn var áður starfsmaður á skrifstofu Sögufélags og þekkir starfsemina vel.

Að fundi loknum var gert hlé, boðið upp á veitingar og bækur félagsins seldar. Eftir hlé flutti Páll Björnsson erindið „Deilt um ættarnöfn á Íslandi í 170 ár”. Sögufélag gaf út bók Páls Ættarnöfn á Íslandi: Átök og ímyndir síðastliðið haust og hlaut bókin nýverið fimm stjörnu dóm í Morgunblaðinu. Skemmtilegar og líflegar umræður spunnust um efni bókarinnar og erindi Páls.