Tvær nýjar bækur frá Sögufélagi voru valdar inn á Listbókamessu í Reykjavík (e. Reykjavík Art Book Fair) sem fór fram í Ásmundarsal helgina 12.-14. nóvember. Það voru bækurnar Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu eftir Kristjönu Vigdísi Ingvadóttur og Ættarnöfn á Íslandi eftir Pál Björnsson. Báðar bækurnar eru hannaðar af Arnari&Arnari sem eru margverðlaunaðir fyrir bókahönnun.
Á vefsíðu Arnars&Arnars segir: „Arnar&Arnar hönnunarstofa sérhæfir sig í framsækni hönnun, mörkun og miðlun upplýsinga. Með hönnunardrifinni hugsun og nánu samtali leysum við vandamál og sköpum verðmæti fyrir samfélagslega ábyrg fyrirtæki og frumkvöðla.“
Þátttaka Sögufélags á Listbókamessu sýnir að tekið er eftir viðleitni Sögufélags til að vinna með framsæknum og spennandi hönnuðum.