Kristjana Vigdís tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Kristjana Vigdís Ingvadóttir hlýtur tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár fyrir bók sína, Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu. Á vef Vísis kemur fram að Kristjana sé yngsti höfundur sem tilnefndur hefur verið í flokki fræðibóka, en hún er 28 ára.

Rökstuðningur dómnefndar:

„Höfundur leitar svara við nokkrum spurningum, m.a. hversu víðtæk var notkun dönskunnar á 18. og 19. öld á Íslandi, hvar bar hana helst niður og hvers vegna ekki var skipt yfir í dönsku eins og rektor einn lagði til? Höfundur setur frumrannsókn sína í samhengi við fyrri rannsóknir fræðimanna á einstaklega skipulegan og ferskan hátt. Virðing Dana fyrir menningararfi Íslendinga kemur ef til vill einna helst á óvart. Í lok bókar spyrðir höfundur áhyggjum fyrri alda varðandi íslenskt mál saman við þær sem tilheyra deginum í dag. Hressandi lesning.“


Sögufélag óskar Kristjönu Vigdísi innilega til hamingju með tilnefninguna.