Nýir þættir af Blöndu

Á síðustu vikum og mánuðum hafa komið út nokkrir nýir þættir af Blöndu: Hlaðvarpi Sögufélags. Þættirnir eru aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á sogufelag.is

#13 Jón Karl Helgason um Ódáinsakur
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Jón Karl Helgason um bók hans Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga sem kom út hjá Sögufélagi árið 2013. Jón ræðir íslenska þjóðardýrlinga, á borð við Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Halldór Laxness, hvernig þeir fengu þetta hlutverk, hvað það þýðir og hvernig það hefur þróast. Einnig tengir hann sögu þeirra við aðra þjóðardýrlinga í Evrópu og segir frá alþjóðlegu samstarfsverkefnum á þessu sviði. Nýlega var greinasafn um þetta efni, Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood (Brill 2019) sem Jón Karl ritstýrði ásamt Marijan Dović, ein af fjórum fræðibókum til að hljóta tilnefningu til verðlauna evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga (ESCL Excellence Award for Collaborative Research).

#14 Þorsteinn Vilhjálmsson um mannkynbætur á Íslandi
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Þorstein Vilhjálmsson um grein hans, Betra fólk: Tengsl takmarkana barneigna og mannkynbóta í íslenskri orðræðu 1923-1938, sem birtist í vorhefti Sögu 2021. Í greininni er fjallað um hugmyndir um getnaðarvarnir í mannkynbóta skyni frá fyrstu skrifum Guðmundar Hannessonar, í læknablaðið 1923, þar til slíkt ratar í íslenska löggjöf á síðari hluta fjórða áratugarins. Við sögu koma menntamenn sem flytja inn erlenda hugmyndafræði, menntakonur sem standa að útgáfu róttækra handbóka, ólöglegar ófrjósemisaðgerðir og heilsufræðisýning í Reykjavík með áróðursefni beint frá nasistum í Þýskalandi.

15# Már Jónsson um Galdur og guðlast
Markús Þórhallsson ræðir við Má Jónsson um Galdur og guðlast. Galdramál 17. aldar eru óhugnanlegur vitnisburður um refsihörku yfirvalda sem á sextíu árum létu brenna eina konu og tuttugu og einn karl á báli. Í þessu tveggja binda verki eru teknir saman allir tiltækir dómar og bréf sem vörðuðu ákæru eða orðróm um galdra á árabilinu 1576-1772. Már Jónsson prófessor bjó til útgáfu og ritar inngang.

#16 Páll Björnsson um Ættarnöfn á Íslandi
Markús Þórhallsson ræðir við Pál Björnsson um nýja bók hans, Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir. Er það einstæður íslenskur þjóðararfur að kenna barn til föður eða móður eða íhaldssemi og fornaldardýrkun? Eru ættarnöfn erlend sníkjumenning sem grefur undan íslensku máli? Í bókinni er rakin saga deilna um ættarnöfn á Íslandi allt frá 19. öld og hvernig þær tengjast sögulegri þróun, svo sem myndun þéttbýlis, uppgangi þjóðernishreyfinga, hernámi Íslands og auknum áhrifum kvenna.

#17 Haukur Ingvarsson um Fulltrúa þess besta í bandarískri menningu
Einar Kári Jóhannsson ræðir við Hauk Ingvarsson um nýja bók hans, Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu. Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu. En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans? Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu