Konur sem kjósa í alla framhaldsskóla

Í tilefni kosninga hefur stjórn Sögufélags í samstarfi við Íslandsbanka og Eyri Invest ákveðið að gefa öllum bókasöfnum framhaldsskóla landsins eintak af bókinni Konur sem kjósa – Aldarsaga. Með gjöfinni fylgja einnig eintök af bókum Sögufélags frá 2018 um fullveldi Íslands, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 og Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018. Allar bækurnar eru grundvallarrit sem nýtast vel í kennslu og það er von Sögufélags að þær megi verða til gagns og ánægju í starfi skólans.

Konur sem kjósa – aldarsaga kom út fyrir síðustu jól og er tímamótaverk um mannréttindi á Íslandi. Bókin á erindi við alla sem láta sig þau varða. Verkið byggir á áralöngum rannsóknum og samvinnu fjögurra fræðimanna á sviði kvenna- og kynjasögu, stjórnmála- og menningarsögu. Höfundum og hönnuði hefur tekist að skapa verk sem er allt í senn, aðgengilegt, grípandi og þýðingarmikið. Bókin hefur hlotið fjölda tilnefninga og viðurkenninga. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut þrenn önnur verðlaun, Fjöruverðlaunin, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og Gullverðlaun Félags íslenskra teiknara fyrir bókahönnun.

Það er okkar sannfæring að Konur sem kjósa eigi erindi við alla, sérstaklega ungt fólk. Til þess að veita sem allra flestum aðgengi að þessu verki hefur stjórn Sögufélags ákveðið að gefa öllum framhaldsskólabókasöfnum eintak af bókinni. Með því að gefa öllum framhaldsskólum eintak af bókinni er tryggt aðgengi nemanda og kennara að grundvallarriti sem getur nýst afar vel í kennslu þar sem efnið er vel skipulagt og oft sett fram í litlum sögum af lífi kvenna í gegnum alla 20. öldina.

Sögufélag gaf einnig út tvær bækur um fullveldi Íslands árið 2018. Annars vegar Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 eftir verðlaunahöfundinn Gunnar Þór Bjarnason og hins vegar Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018, greinasafn eftir helstu sérfræðinga um fullveldið, hvort heldur er á sviði sagnfræði, lögfræði eða stjórnmálafræði. Báðar bækurnar nýtast vel í kennslu og fylgja með þessari bókagjöf.

Til þess að fjármagna gjöfina leitaði Sögufélag eftir samstarfi við Íslandsbanka og Eyri Invest, en bæði fyrirtækin hafa látið sig mannréttindi og jafnrétti varða og stutt dyggilega við verkefnið.