Á aðalfundi Sögufélags þann 25. febrúar verður nýr vefur tímaritsins Sögu settur í loftið. Á vefnum verða birtar valdar greinar og annað efni úr tímaritinu, veittar upplýsingar um útgáfuferli, innsendingu efnis og ritreglur. Hann mun jafnframt geyma gagnagrunn yfir allt efni sem birt hefur verið í Sögu.
Vefnum hefur meðal annars verið komið í loftið fyrir tilstyrk styrks frá Miðstöð íslenskra bókmennta, sem veitti styrk síðasta sumar til þess að búa til margmiðlunarsíðu og gagnagrunn fyrir tímaritið Sögu, með það að markmiði að auka miðlun á bókum og greinum Sögufélags í opnum aðgangi. Fyrir styrkinn var Arnór Gunnar Gunnarsson ráðinn til þess að vinna að gagnagrunni tímaritsins síðasta sumar, og mun hann kynna nýja vefinn á aðalfundinum á fimmtudaginn ásamt Jóni Kristni Einarssyni.