Konur sem kjósa fá Fjöruverðlaun

Konur sem kjósa taka við verðlaunum

Í gær, 8. mars, var tilkynnt að Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hefðu hlotið Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir bókina Konur sem kjósa. Aldarsaga. Þorgerður lést sem kunnugt er í júlí síðastliðnum, og tók ekkill hennar Ágúst Ásgeirsson við verðlaununum fyrir hennar hönd. 

Í umfjöllun dómnefndar um bókina segir: 

Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna.  Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.“

Sögufélag óskar höfundunum innilega til hamingju með verðskuldaðan árangur. Sérstakar hamingjuóskir fær Kristín Svava, sem hreppti einnig Fjöruverðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir ljóðabók sína Hetjusögur