Sumarstarfsmenn hjá Sögufélagi

Fyrir skemmstu greindum við frá því að Sögufélag hefði fengið styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir verkefnið „Margmiðlunarsíða og veflægur gagnagrunnur um tímaritið Sögu og útgáfu Sögufélags.“ Arnór Gunnar Gunnarsson hefur nú verið ráðinn til verkefnisins og mun starfa hjá Sögufélagi í sumar.

Arnór er með MA-próf í sagnfræði frá Columbia-háskóla og hann mun vinna að efnisvinnslu, textaskrifum og öðru tengdu væntanlegri vefsíðu og gagnagrunni tímaritsins Sögu.

Auk hans mun Jón Kristinn Einarsson vinna að ýmsum verkefnum á skrifstofunni. Jón er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur unnið á skrifstofunni frá síðasta sumri.