Í tilfefni útgáfu Sögu 2020:1 var blásið til Sögukvölds í Gunnarshúsi þann 4. júní síðastliðinn. Höfundar hinna þriggja ritrýndu greina heftisins kynntu rannsóknir sínar við góðar undirtektir. Auk þess ræddi Kristín Svava Tómasdóttir, önnur tveggja ritstjóra Sögu, annað efni í tímaritinu.
Haukur Ingvarsson hóf leik og sagði okkur frá Vestur-Íslendingnum Hjörvarði Harvard Árnasyni, sem starfaði fyrir hina bandarísku Office of War Information á Íslandi í seinni heimsstyrjöld.
Næst steig Agnes Jónasdóttir í pontu og fræddi gesti um rannsókn sína á ástandinu og barnavernd, en talsvert misræmi var á yfirlýstum markmiðum yfirvalda í ástandinu og raunverulegum gjörðum þeirra.
Að lokum talaði Skafti Ingimarsson um Drengsmálið svokallaða, þegar átök brutust út í Reykjavík vegna rússnesks drengs sem kommúnistaleiðtoginn Ólafur Friðriksson flutti til landsins arið 1921. Skafti færir sér í nyt áður óskoðuð gögn á danska ríkisskjalasafninu sem varpa nýju ljósi á málið.
Langar umræður voru um öll erindin og ákaflega gleðilegt hversu margir lögðu leið sína í Gunnarshús. Við þökkum öllum fyrir komuna.