Höfundur
Íris Ellenberger og Arnór Gunnar Gunnarsson
Útgefandi
Sögufélag
Útgáfuár
2022
ISBN
Unavailable
Blaðsíðufjöldi
Unavailable
Ritstjóri
Unavailable
Myndaritstjórar
Unavailable
Tegund
Unavailable

Samband við söguna: Sögufélag í 120 ár – FORSALA

Íris Ellenberger og Arnór Gunnar Gunnarsson

Samband við söguna fjallar um 120 ára sögu Sögufélags sem stofnað var árið 1902 í þeim til gangi að hefja frumheimildir um Íslandssögu síðari alda til vegs og virðingar og gera þær aðgengilegar almenningi. Síðan þá hefur félagið unnið sér sess sem eitt fremsta fræðaforlag Íslands og er þekkt fyrir vönduð og margverðlaunuð sagnfræðirit. Samband við söguna er þó ekki einvörðungu saga félagasamtaka heldur fléttast þar saman þræðir úr sögu bókaútgáfu, prentunar, fræðastarfs og sagnfræði.

Bókin skiptist í sjö kafla sem hver um sig fjallar um ákveðið tímabil í sögu félagsins. Í fyrsta kafla er fjallað um tímabilið 1902–1940, verkefni sem það vann fyrir hið opinbera, helstu áfangar í útgáfu félagsins, eins og útgáfu tímaritsins Blöndu og Þjóðsagna Jóns Árnasonar, ásamt brautryðjendastarfi Sögufélags í ljósprentun. Þá fá lesendur innsýn inn í forvitnilega anga bókaútgáfunnar á þessum tíma eins og útgáfu í heftum þar sem hvert rit var gefið út í nokkrum hlutum sem áskrifendur félagsins settu síðan saman sjálfir.

Í öðrum kafla bókarinnar er fjallað um tímabilið 1941–1964 þegar félagið var rekið frá “hanabjálka” í Ísafoldarprentsmiðju. Þar er fjallað um bókaútgáfu á haftatímum, stofnun tímaritsins Sögu sem enn er gefið út hjá félaginu, og Nönnu Ólafsdóttur, fyrstu konuna til að skrifa efni sem gefið var út af félaginu. Í þriðja kafla er fjallað um vakningartímabilið 1965–1974 þegar félagið rumskaði af dvala með nýjum forseta félagsins og gjöfulu samstarfi við Reykjavíkurborg.

Í fjórða kafla bókarinnar er fjallað um virka þátttöku Sögufélags í húsverndarbaráttu sem endar með því að það sest að í Fischersundi. Skyggnst er inn í nýja sölubúð félagsins í götunni, fjallað um íslensku söguendurskoðunina og breytingar á sagnfræði í átt til meiri atvinnumannavæðingar. Sagt er frá Kvennaáratugnum, 9. áratugnum þegar konur fóru að taka virkari þátt í starfsemi félagsins, og samkeppni um merki félagsins. Í fimmta kaflanum er síðan sagt frá kynslóðaskiptum í starfsemi félagsins og nýjum útgáfuáherslum sem viðbrögð við gagnrýni sagnfræðinema. Í sjötta kafla fjallað um uppreisn í nafni kynjasögunnar, aukna atvinnumannavæðingu sagnfræðinnar og bókaútgáfu í umhverfi nýfrjálshyggju.

Í sjöunda og síðasta kafla ritsins eru síðustu tveir áratugir til umfjöllunar. Þar er meðal annars fjallað um breytingar á útgáfumarkaði, efnahagskreppu og breytta starfsemi Sögufélags. Sagt er frá sölunni á húsinu í Fischersundi og samlífi með Hinu íslenska bókmenntafélagi. Nýir straumar sagnfræðinnar höfðu áhrif á útgáfu og það sama má segja um tækniframfarir og tölvuvæðingu ýmissar starfsemi.

Skráning á heillaóskaskrá

Forsala

Með skráningu á heillaóskaskrá, Tabula Gratulatoria, kaupir þú bókina á tilboðsverði 7.900 kr. Skráning þarf að berast fyrir 1. ágúst en bókin kemur út á haustmánuðum. Reikningur birtist í heimabanka og bókin er heimsend við útkomu.