7.400kr.
Þau reika um öræfi Austurlands, hornprúð, tignarleg og kvik á fæti, og horfin út í buskann í einni andrá hverjum sem vill koma nærri þeim. Hjá sumum vekja þau lotningu og aðdáun – hjá öðrum veiðihvöt. Hreindýrin á Íslandi hafa kveikt ólíkar tilfinningar í brjóstum landsmanna frá því þau voru fyrst flutt hingað til lands á seinni hluta 18. aldar.
Þeim var ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Það leið þó ekki á löngu þar til bændur fóru að amast við hreindýrunum og komust þá upp á lag með að veiða þau. Margir höfðu efasemdir um framtíð hreindýra á Íslandi og töldu réttast að veiða þau hvar og hvenær sem til þeirra næðist. Undir lok 19. aldar var aftur á móti farið að ljá máls á nauðsyn þess að friða þau og vernda fyrir útrýmingu. Á 20. öld skiptu stjórnvöld sér í vaxandi mæli af fjölgun, útbreiðslu og nýtingu hreindýrastofnsins á Íslandi – svo mjög að sumum þótti sem þau væru ekki lengur sannkölluð börn öræfanna heldur hreindýrahjörð ríkisins.
Í þessari viðamiklu bók er rakin saga hreindýra á Íslandi frá upphafi til okkar daga. Sagðar eru sögur af harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og misjöfnum tilraunum til hreindýrabúskapar. Ekki má gleyma hreindýrunum sem áður gengu í Þingeyjarsýslu, á Reykjanesskaga og í Fljótshlíð en eru nú horfin af sjónarsviðinu.
Unnur Birna Karlsdóttir (f. 1964) lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til. Unnur Birna gegnir stöðu forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi.
Bókina prýðir mikill fjöldi ljósmynda.
Formáli
Inngangur
Höfundur – Unnur Birna Karlsdóttir
Unnur Birna Karlsdóttir (f. 1964) lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til.
Unnur Birna er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi.
Viðtal við Unni Birnu í Morgunútvarpinu á Rás 2
Viðtal við Unni Birnu í Samfélaginu á Rás 1
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020
Tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis 2020
Hlaut önnur verðlaun úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar
Tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2020
Rökstuðningur dómnefndar: Bókin Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi, eftir Unni Birnu Karlsdóttur, er ítarleg umhverfissagnfræðileg rannsókn á sögu sambýlis Íslendinga og tignarlegra hreindýra runnum frá Finnmörku; huldudýrum hálendisins. Lífshættir íslenskra hreindýra hafa verið sveipaðir ákveðinni dulúð, enda megin búsvæði þeirra fjarri mannabyggðum. Bókin gerir lesandanum fært að fylgja hreindýrunum frá komu þeirra til landsins og áfram í gegnum aldirnar, fram á okkar tíma. Á þeirri söguslóð er farið yfir hreindýraveiðar, lífshætti og útbreiðslu hreindýra, sem og rannsóknir og vöktun á hreindýrum. Höfundur gerir lesandanum kleift að upplifa sögu hreindýranna, með lýsandi texta og ljósmyndum, sem í senn dýpka frásögnina og færa okkur nær heimi hreindýranna.
Hægt er að skrá sig í áskrift á öllum tíu bindunum sem væntanleg eru á næstu árum. Áskrifendur fá 30% afslátt á bókunum, kröfu í heimabanka og bækurnar sendar heim strax við útkomu þeirra.