0kr.
Í bókinni er safn 22 ritgerða um uppruna og mótun íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir.
Höfundur ritgerðanna, Jón Steffensen prófessor, varð sjötugur 15. febrúar 1975. Hann var prófessor við læknadeild H.Í. frá 1937-1972. Jón var kunnur fyrr mannfræðilegar athuganir sínar, einkum beinarannsóknir og ritgerðir um uppruna þjóðarinnar, en hefur líka mjög fengizt við mannfjöldaathuganir, sjúkdómasögu og menningarsögu almennt. Jón hefur verið formaður Hins íslenzka fornleifafélags frá 1961. Forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, samstarfsmaður Jóns um áratugaskeið, ritar inngang að bókinni um höfundin og verk hans. Þar segir m.a. um vísindastörf Jóns: “Svo sem sjá má varða þau öll íslensku þjóðina og sögu hennar, án þess þó að vera sögulegar rannsóknir í hefðbundnum skilningi orðsins. Í þessum ritgerðum er þjóðin ekki séð frá sjónarmiði persónusögu, pólitískrar sögu eða atvinnusögu, eins og algengast er og ekki er nema eðlilegt og sjálfsagt, heldur er það líkamlegt upplag hennar og ásigkomulag í bókstaflegum skilningi sem tekið er til gaumgæfilegrar athugunar frá sjónarmiði mannfræði og sjúkdómafræði og látið segja sína sögu um uppruna, líf og örlög.”
Tvær ritgerðanna, um sögu pestar og bólusóttar á Íslandi, hafa ekki birzt fyrr, en ritgerðin “Fólksfjöldi á Íslandi í aldanna rás” birtist nú í fyrsta sinn á íslensku. Margar ritgerðanna hafa verið almennum lesendum illa aðgengilegar, dreifðar í hinum ýmsu tímaritum. Unnendur íslenzkrar sögu munu vafalaust fagna hinu mikla og sérstæða framlagi Jóns Steffensens sem Sögufélag gerir þeim hér aðgengilegt.
Bókin er uppseld hjá útgefanda.
UPPRUNI OG LANDNÁM
BEINARANNSÓKNIR
ÚR ÍSLENZKRI MENNINGARSÖGU
VÖXTUR OG SÓTT
Jón Steffensen (1905-1989) var prófessor í líffærafræði og lífeðlisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Hann var atorkumikill í rannsóknum á sjúkdóma- og menningarsögu Íslands og greinasafnið Menning og meinsemdir veitir gott yfirlit yfir rannsóknir hans.
Hægt er að skrá sig í áskrift á öllum tíu bindunum sem væntanleg eru á næstu árum. Áskrifendur fá 30% afslátt á bókunum, kröfu í heimabanka og bækurnar sendar heim strax við útkomu þeirra.