Höfundur
Magnús Jónsson
Útgefandi
Hið íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn
Útgáfuár
Unavailable
ISBN
Unavailable
Blaðsíðufjöldi
Unavailable
Ritstjóri
Jón Helgason
Myndaritstjóri
Unavailable
Tegund
Unavailable

Kvæðabók úr Vigur

Magnús Jónsson

2.500kr.

Kvæðabók úr Vigur er, eins og fram kemur á titilsíðu „Ein afbragðsfróðleg, lystug, ágæt, skemmtileg, nytsöm og eftirtektarrík bók margs fróðlegs og fallegs vísdóms, lærdóms og þægilegra eftirdæma. Innihaldandi marga ágæta kveðlinga, vísur, bragarhætti og annað ágætt fræði, á meðal hvers að er Historía um Grænlands háttalag og annað þess kona(r). Samantekin og skrifuð af virðuglegum höfðingsmanni Magnúsi Jónssyni að Vigur á Ísafjarðardjúpi“. Segja má að handritið sé eins konar sýnisbók íslenskra bókmennta frá 17. öld, jafnframt því sem það ber vitni um fróðleiksþorsta og menningarlega viðleitni auðugs bónda af valdamiklum ættum.

Magnús Jónsson (1637–1702) ólst upp á miklu menningarheimili. Hann var sonur Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp og konu hans Hólmfríðar Sigurðardóttur, og tók ríkan þátt í bókmenntastarfi sinnar tíðar. Hann var umsvifamikill handritasafnari og bókagerðarmaður sem skrifaði sjálfur upp handrit en hafði einnig skrifara í þjónustu sinni, auk þess sem hann bæði þýddi bókmenntir og samdi sjálfur. Stór hluti af AM 148 8vo er með hans hendi en a.m.k. 12 aðrir skrifarar komu að verkinu, sem var að mestu skrifað á árunum 1676–1677. Stærstur hluti handritsins geymir kveðskap af ýmsu tagi, bæði andlegan og veraldlegan, en lausamálstextar eru þó innanum. Í því má finna sálma, heilræðavísur, gamankvæði, vikivaka, háttatöl, bragþrautir, tóbaksvísur, eddukvæði, kappavísur, barnagælur, heimsádeilur og helgikvæði, svo nokkuð sé nefnt. Lausamálið geymir ýmiss konar fróðleik. Þar á meðal eru gátur og þrautir, skáldskaparfræði, alfræðikaflar, rúnafræði, siðareglur, trúarlegir textar, spakmæli og orðskviðir.

Í handritinu birtist fræðilegur metnaður þess sem skrifar upp í því augnamiði að varðveita bókmenntir ekki síður en til þess að uppfræða lesendur, skemmta þeim eða efla guðrækni og góða siði meðal þeirra, eins og markmið með kvæðabókum var gjarnan á þessum tíma. Þetta má meðal annars sjá á fjölmörgum miðum sem hafa fylgt handritinu frá öndverðu og geyma búta úr textum sem hafa gleymst við uppskrift þeirra eða borist síðar og þá verið bætt við með þessum hætti. Niðurröðun efnis í handritinu virðist við fyrstu sýn tilviljunarkennd og óskipuleg, en þó er ljóst að reynt hefur verið að raða saman sambærilegum textum. Magnús safnar ekki saman kvæðum ákveðinna skálda, heldur flokkar þau eftir bókmenntagreinum. Þannig eru til dæmis nokkur Maríukvæði á latínu skrifuð hvert á eftir öðru, ýmsum bragfræðilegum textum er skipað saman og stór kafli inniheldur vikivakakvæði.

Í handritinu eru þekkt kvæði, eins og helgikvæðið Ljómur eftir Jón Arason biskup og Aldarháttur sr. Hallgríms Péturssonar, en einnig mörg kvæði sem ekki er að finna annars staðar svo kunnugt sé. Það gildir til dæmis um erfikvæði sem Tómas Þórðarson á Snæfjallaströnd orti eftir föðurforeldra Magnúsar, Ara Magnússon í Ögri og konu hans Kristínu Guðbrandsdóttur. Kvæðið er tileinkað niðjum þeirra hjóna og augljóst að skáldið hefur viljað koma sér vel við þá. Kvæðabók úr Vigur hefur líklega borist Árna Magnússyni frá Páli Vídalín og Þorbjörgu konu hans en hún var dóttir Magnúsar í Vigur. Bókin geymir ómetanlegan menningararf og birtir okkur sýn samtímamanns Árna á gildandi bókmenntir og fræði.

Áskrift að Yfirrétti á Íslandi

Hægt er að skrá sig í áskrift á öllum tíu bindunum sem væntanleg eru á næstu árum. Áskrifendur fá 30% afslátt á bókunum, kröfu í heimabanka og bækurnar sendar heim strax við útkomu þeirra.