8.900kr. Original price was: 8.900kr..4.900kr.Current price is: 4.900kr..
Í skínandi sólskini og stafalogni kemur fylking kvenna inn á Austurvöll. Fremstar ganga 200 ljósklæddar smámeyjar. Á undan þeim fer hornaflokkur. Torgið hefur verið skreytt fánum og flöggum og mannfjöldinn fylgist með. Sjaldan eða aldrei hafa jafn margar glaðar og prúðbúnar konur verið saman komnar á götum bæjarins. Það er 7. júlí 1915. Íslenskar konur fagna nýfengnum kosningarétti og kjörgengi til Alþingis með ræðum og þakkarávörpum, söng og húrrahrópum.
Konur sem kjósa fjallar um íslenska kvenkjósendur í eina öld. Titillinn vísar til kosningaréttarins en einnig til þess hvernig konur sköpuðu sér rými til að móta eigið líf og samfélagið allt. Sjónum er beint að einu kosningaári á hverjum áratug og þannig teknar ellefu sneiðmyndir af sögu kvenna undanfarin hundrað ár. Fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum. Við sögu koma konur úr öllum stéttum, ungar og gamlar, úr sveit og bæ, húsfreyjur sem börðust fyrir rafmagni, vatnsveitu og heilnæmri mjólk og konur sem brutu blað þegar þær urðu læknar, bílstjórar, veðurfræðingar, snyrtivöruframleiðendur og rafvirkjar. Áður ósagðar sögur kvenna njóta sín í lifandi texta og bókina prýðir fjöldi mynda af konum í leik og starfi í hundrað ár.
Konur sem kjósa er stórvirki sem byggir á áralöngum rannsóknum og samvinnu fjögurra fræðimanna á sviði kvenna- og kynjasögu, stjórnmála- og menningarsögu.
Það eru konur sem eiga orðið í þessari bók.
RÉTTHÆSTAR ALLRA?
1. 1916
HÚN FÓR AÐ KJÓSA
2. 1926
KVENNASAMTÖK
3. 1937
STJÓRNMÁL OG KREPPUÁRATUGUR
4. 1946
VONGÓÐAR Í NÝJU LÝÐVELDI
5. 1956
„HVAÐ ER ÞÁ ORÐIÐ OKKAR STARF?“
6. 1967
VINNA, LÆRA, KAUPA
7. 1974
ÞÆR ÞORÐU, VILDU OG GÁTU
8. 1983
KVENNAKRAFTUR
9. 1995
EINKAJAFNRÉTTISBARÁTTAN
10. 2003
ÞVERSAGNAKENNDAR ÍMYNDIR KVENNA
11. 2017
BYLTINGAR OG GOÐSAGNIR
KONUR MEÐ RÖDD OG RÝMI
ÞAKKIR
SUMMARY
TILVÍSANIR
MYNDIR
HEIMILDIR
NÖFN OG EFNISORÐ
UM HÖFUNDA
Erla Hulda Halldórsdóttir (f. 1966) er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hverfast um kvenna- og kynjasögu, einkum sögu 19. og 20. aldar. Jafnframt hefur hún rannsakað sagnaritun og aðferða- og heimildafræði, ekki síst með tilliti til sendibréfa fyrri tíma og fræðilegra ævisagna. Bók hennar, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903, kom út árið 2011.
Kristín Svava Tómasdóttir (f. 1985) er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, ljóðskáld og ritstjóri Sögu. Hún hefur sent frá sér ýmsar greinar á sviði menningarsögu, kvenna-, kynja- og kynferðissögu síðari alda. Bók hennar, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, hlaut Viðurkenningu Hagþenkis 2018.
Ragnheiður Kristjánsdóttir (f. 1968) er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Meðal verka hennar er bókin Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901–1944, sem kom út árið 2008. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við hugmynda- og stjórnmálasögu 19. og 20. aldar, nánar tiltekið sögu vinstri hreyfingarinnar, þróun lýðræðis og nú síðast kvenna- og kynjasögu.
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (1968–2020) var sjálfstætt starfandi kynja- og sagnfræðingur hjá ReykjavíkurAkademíunni. Rannsóknir Þorgerðar beindust einkum að jafnrétti í samtímanum, bæði kynjajafnrétti og jafnrétti í víðari skilningi. Hún rannsakaði einnig ólíkar kvenímyndir, þar með taldar líkamsímyndir og fegurð. Bók hennar og Báru Baldursdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2019.
Gullverðlaun ADCE – Art Directors Club Europe – fyrir bókahönnun
Fimm íslensk verk verðlaunuð í alþjóðlegu ADCE kepninni
Konur sem kjósa tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands
Gullverðlaun FÍT – Félags íslenskra teiknara – fyrir bókahönnun
Viðtal við höfunda bókarinnar í Hugvarpi, hlaðvarpi Hugvísindasviðs:
Viðtal við höfunda á Morgunvakt Rásar 1
Frétt á vefsíðu Háskóla Íslands
Ragnheiður Kristjánsdóttir les upp úr bókinni
Hægt er að skrá sig í áskrift á öllum tíu bindunum sem væntanleg eru á næstu árum. Áskrifendur fá 30% afslátt á bókunum, kröfu í heimabanka og bækurnar sendar heim strax við útkomu þeirra.