Blanda er að þessu sinni helguð íslenskri kvikmyndasögu. Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands og doktorsnemi í kvikmyndafræði, hefur verið ötull við að skrifa í tímaritið Sögu undanfarin ár. Hann hefur birt greinar um fyrstu konurnar sem leikstýrðu kvikmyndum á Íslandi, Ruth Hanson og Svölu Hannesdóttur, og um kvikmyndagerð Vigfúsar Sigurgeirssonar. Nýjasta grein hans mun birtast í vorhefti Sögu 2025 en hún fjallar um kynslóðaskiptin í íslenskri kvikmyndagerð á sjöunda áratug 20. aldar og kvikmyndir Ósvalds Knudsen, sem var maður á mörkum tveggja tíma. Kristín Svava Tómasdóttir, ritstjóri Sögu, ræðir við Gunnar Tómas um rannsóknir hans en einnig um Kvikmyndasafn Íslands og þann fjársjóð sem þar leynist.