Hverjir áttu Ísland? Jón Kristinn Einarsson ræðir við Guðmund Jónsson, ritstjóra bókarinnar, Ástand Íslands um 1700, í glænýjum Blönduþætti. Þeir fara vítt og breitt um sviðið og velta upp hvernig var að búa á gamla Íslandi, landi bænda og sjómanna, höfðingja og almúgamanna.
Bókin er samstarfsverkefni sjö fræðimanna og byggir á stórmerkilegum heimildum, jarðabókinni, kvikfjártalinu og manntalinu, sem var safnað saman á Íslandi við upphaf átjándu aldar. Í ritinu kynnumst við hinu íslenska bændasamfélagi á alveg nýjan hátt. Fjölskyldur og heimili, byggð og búsvæði, jarðaskipan og ólík húsakynni fólks birtast okkur ljóslifandi. Staða og hagur ólíkra stétta og hópa, allt frá höfðingjum til lausingja og ómaga er til umræðu sem og eignarhald jarða.