Laust starf í Sögufélagi

Sögufélag auglýsir eftir nákvæmum þúsundþjalasmiði sem hefur gaman af bókum, miðlun, markaðsstarfi og mannlegum samskiptum.

Sögufélag er vettvangur íslenskrar sagnfræði. Hlutverk þess er að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni. Félagið var stofnað árið 1902 og er þekkt fyrir vandaða og verðlaunaða útgáfu. Markmið Sögufélags er að auka þekkingu, skilning og áhuga almennings jafnt sem fræðimanna á sögu Íslands. Félagið vill með starfsemi sinni vera sýnilegt í samfélaginu og vekja umræðu og rekur vefsíður, samfélagsmiðla og hlaðvarp til þess.

Starfið er 70-100% starf og felst einkum í vinnu á skrifstofu Sögufélags í Gunnarshúsi og rekstur hennar í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins.

Dagleg verkefni eru afar fjölbreytt og geta verið allt frá afgreiðslu á skrifstofu félagsins og bókhaldsumsjón til viðburðaskipulagningar og sölu- og kynningarmála.


Helstu verkefni:

Almenn störf og afgreiðsla á skrifstofu Sögufélags

Skipulag og framkvæmd kynningarstarfs

Umsjón með samfélagsmiðlum (Twitter, Instagram og Facebook)

Ritstjórn á tveimur vefsíðum og útgáfa á fréttabréfi félagsins

Þátttaka í öðrum miðlunarstörfum

Útgáfa sölureikninga og önnur umsýsla tengd sölu

Afgreiðsla bókapantana og samskipti við söluaðila

Aðstoð við útgáfustjórn og útgáfutengd verkefni

Aðstoð við skjölun í rafrænt og pappírsskjalasafn félagsins

Önnur störf eftir nánara samkomulagi við framkvæmdastjóra félagsins

Hæfniviðmið:

Háskólanám sem nýtist í starfi

Mjög góð kunnátta og ritfærni í íslensku er nauðsynleg

Góð kunnátta og ritfærni í ensku er nauðsynleg

Góð kunnátta í algengum notendaforritum er nauðsynleg

Þekking og reynsla af vinnu við bókhald er æskileg

Hæfni og reynsla af vinnu í hópi og undir álagi

Sjálfstæði í vinnubrögðum og framúrskarandi samskiptahæfni er áskilin

Nákvæmni, skipulögð vinnubrögð og frumkvæði

Frekari upplýsingar um starfið

Umsókn um starfið þarf að fylgja ferilskrá, afrit af prófskírteinum, ábendingar um meðmælendur og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjenda í starfið. Umsókn sendist í tölvupósti á netfangið brynhildur@sogufelag.is. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf á vormánuðum.

Nánari upplýsingar veitir: Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Sögufélags, brynhildur@sogufelag.is – sími 777-1770