Í tilefni af útkomu Sögu stendur Sögufélag fyrir Sögukvöldi í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 17. nóvember kl. 20. Fundarstjóri er Kristín Svava Tómasdottir, sem ásamt Vilhelm Vilhelmssyni er annar ritstjóri Sögu.
Fram koma höfundar ritrýndra greina:
Helgi Þorláksson ræðir Guðmund góða Arason og biskupstíð hans og veltir fyrir sér hvernig áhrifa söguskoðunar sjálfstæðisbaráttunnar gæti í síðari tíma umfjöllun og dómum um Guðmund.
Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir ræðir kynjaða orðræðu um myndlist og kynbundna mismunun í listaheiminum á árunum 1915 til 1930 og hvernig hún tengist þjóðernishugmyndum tímabilsins.
Axel Kristinsson veltir upp þeirri spurningu hvort goðorð hafi verið arfgeng á fyrri hluta þjóðveldisaldar og færir rök fyrir nauðsyn þess að endurskoða þróun valdakerfa á Íslandi á tímabilinu.
Léttar veitingar í boði og öll velkomin. Hér má finna viðburðinn á facebook.