Saga LX – 2 2022 komin út

Saga LX – 2 2022 er komin út og á leið til áskrifenda og í búðir. 

Anna Dröfn Ágústsdóttir skrifar forsíðumyndargrein sem kemur úr safni Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara og sýnir fundarmenn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins haustið 1951.

Álitamál eru að þessu sinni helguð Sögu og útgáfu fræðitímarita á 21. öld. Á Íslenska Söguþinginu, sem var haldið í fimmta sinn vorið 2022, fóru fram pallborðsumræður um efnið. Framsögur frummælendanna þriggja, Guðmundar Hálfdanarsonar, Írisar Ellenberger og Viðars Pálssonar, birtast sem álitamál Sögu að þessu sinni ásamt tveimur öðrum pistlum sem varða efnið: Auður Magnúsdóttir flytur fréttir af sambærilegum pallborðsumræðum sem fóru fram á norræna sagnfræðingaþinginu í Gautaborg í ágúst 2022 og Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Sögufélags, skrifar um stöðu og hlutverk félagsins, útgefanda Sögu.

Ritrýndar greinar heftisins eru þrjár. Helgi Þorláksson skrifar um Guðmund góða Arason og biskupstíð hans og veltir fyrir sér hvernig áhrifa söguskoðunar sjálfstæðisbaráttunnar gæti í síðari tíma umfjöllun og dómum um Guðmund. Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir skrifar um kynjaða orðræðu um myndlist og kynbundna mismunun í listaheiminum á árunum 1915 til 1930 og hvernig hún tengist þjóðernishugmyndum tímabilsins. Loks veltir Axel Kristinsson upp þeirri spurningu hvort goðorð hafi verið arfgeng á fyrri hluta þjóðveldisaldar og færir rök fyrir nauðsyn þess að endurskoða þróun valdakerfa á Íslandi á tímabilinu.

Gunnar Tómas Kristófersson skrifar viðhorfsgrein um fyrstu leiknu kvikmyndina sem leikstýrt var af íslenskri konu, Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur frá 1952.

Önnur viðhorfsgrein er eftir Ásgeir Jónsson en hann svarar grein Bergsveins Birgissonar í síðasta hefti þar sem hann gagnrýndi meðferð heimilda í bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs.

Þrjár doktorsvarnir í sagnfræði fóru fram við Háskóla Íslands fyrri hluta árs 2022 og þar af birtast tvenn andmæli í þessu hefti, frá doktorsvörn Braga Þorgríms Ólafssonar í febrúar og doktorsvörn Sólveigar Ólafsdóttur í júní.

Að lokum birtast í heftinu 14 ritdómar um nýleg verk á sviði íslenskrar sögu.