Ráðstefna í tilefni af heildarútgáfu á skjölum Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771 þann 15. september kl. 13:30–16:30

Landsnefndin fyrri 1770-1771 - öll bindi

Fjölmenni lagði leið sína á Þjóðskjalasafn Íslands í síðustu viku þegar útgáfu sjötta og síðasta bindis í heildarútgáfu á skjölum Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 var fagnað á árlegum Rannsóknardegi safnsins.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Adam Grønholm staðgengill sendiherra Danmerkur á Íslandi tóku við fyrstu eintökunum af sjötta bindinu úr hendi útgefandanna, Hrefnu Róbertsdóttur þjóðskjalavarðar, Ole Magnus Mølbak astoðarþjóðskjalavarðar Ríkisskjalasafns Danmerkur og Brynhildar Ingvarsdóttur framkvæmdastjóra Sögufélags undir lófataki viðstaddra.

Ole Magnus Mølbak Andersen flutti kveðju Ríkisskjalasafns Danmerkur og þá flutti Anna Agnarsdóttir formaður stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns einnig ávarp ásamt því sem Hrefna kynnti heimildarútgáfuna fyrir gestum. Kveðja var einnig flutt frá Augustinusarsjóðnum í Danmörku, sem veitti rausnarlegan styrk til verksins.

Að því loknu voru fluttir átta fyrirlestrar sem byggðir voru á rannsóknum á skjölum Landsnefndarinnar. Erindi fluttu þau Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritstjóri landsnefndarútgáfunnar, Pétur Rasmussen þýðandi, Helgi Skúli Kjartansson prófessor emeritus, Guðrún Hildur Rosenkjær sagnfræðingur og klæðskeri, Christian Folke Ax safnvörður við Þjóðminjasafn Danmerkur, Kjartan Atli Ísleifsson sagnfræðingur, Kolbeinn Sturla G. Heiðarsson sagnfræðingur og Guðmundur Jónsson prófessor.

Skjöl Landsnefndarinnar gefa einstaka innsýn inn í íslenskt samfélag á seinni hluta 18. aldar. Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland í eitt og hálft ár og safnaði upplýsingum um aðstæður í samfélaginu. Í skjalasafni nefndarinnar eru bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum. Með þessari útgáfu eru skjölin orðin mun aðgengilegri til rannsókna á sögu átjándu aldarinnar.