Sumarliði hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin

Sumarliði R. Ísleifsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 í flokki fræðibóka fyrir bók sína, Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland – Viðhorfasaga í þúsund ár.

Í umsögn lokadómnefndar segir:

Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.

Við óskum Sumarliða innilega til hamingju með verðlaunin!