Konur sem kjósa: Aldarsaga – útgáfuviðburður

Útgáfu bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga er fagnað á sjálfum kvennafrídeginum. Í ljósi ástandsins í samfélaginu fer útgáfuhófið fram á netinu og er því aðgengilegt öllum. Hér munu flytja ávörp forseti Íslands, forseti Alþingis, forseti Sögufélags, höfundar bókarinnar og ritstjóri. Dagskrána kynnir skrifstofustjóri Alþingis Ragna Árnadóttir.
 
Konur sem kjósa er einkar glæsilegt verk um íslenska kvenkjósendur í eina öld sem unnið var í samstarfi við Alþingi. Fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum.
 
Höfundar eru sagnfræðingarnir Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Verkið er 783 síður af fróðleik um íslenskar konur, ríkulega myndskreytt í stóru og glæsilegu broti. Bókin er hönnuð af Snæfríð Þorsteins og er fáanleg í forsölu í vefverslun Sögufélags – frí heimsending þegar bókin kemur í fyrstu viku nóvember.