Vorhefti tímaritsins Sögu 2020 er komið út og er á leið til áskrifenda. Í heftinu eru þrjár ritrýndar greinar. Skafti Ingimarsson skrifar um „hvíta stríðið“ eða Drengsmálið árið 1921 á grundvelli áður óþekktra heimilda af danska Ríkisskjalasafninu, sem sýna að dönsk stjórnvöld voru reiðubúin að grípa til hernaðaraðgerða gegn uppreisnaröflum í Reykjavík ef íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því. Haukur Ingvarsson fjallar um starfsemi stríðsupplýsingaskrifstofu Bandaríkjanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld og beinir sjónum sínum sérstaklega að Vestur-Íslendingnum Hjörvarði Harvard Arnason. Agnes Jónasdóttir skrifar um ástandsmálin svokölluðu í ljósi barnaverndar en margar þeirra kvenna sem yfirvöld höfðu afskipti af vegna samskipta þeirra við erlenda hermenn í stríðinu voru í raun stúlkur undir lögaldri.
Kápumynd heftisins af Gunnari á Hlíðarenda og Njáli á Bergþórshvoli er sótt í handritið Lbs. 747 fol., sem tveir vinnumenn á Fellsströnd skrifuðu og teiknuðu um 1870, en Þorsteinn Árnason Surmeli skrifar grein um handritið og skrifarana. Óðinn Melsted, Guðmundur Hálfdanarson og Íris Ellenberger skrifa pistla um álitamál Sögu, áhrif stafrænna gagnagrunna á rannsóknir og starfsumhverfi sagnfræðinga. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar um einkaskjalasafn Elínar Briem, sem varðveitt er á Kvennasögusafni, og Sverrir Jakobsson minnist Gunnars Karlssonar sagnfræðings sem lést síðastliðið haust. Auk þess er að finna í heftinu tíu ritdóma um nýleg sagnfræðiverk og ársskýrslu stjórnar Sögufélags.
SAGA verður aðgengileg hér í vefverslun, í forlagsverslun Sögufélags í Gunnarshúsi og í helstu bókaverslunum.