Á fullveldisdaginn sjálfan 1. desember var tilkynnt hvaða höfundar og verk hlytu tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2019. Öræfahjörð Unnar Birnu Karlsdóttur var þar á meðal!
Athöfnin sem var hátíðleg og nokkuð fjölmenn fór fram að Kjarvalsstöðum. Nú er tilnefnt í þremur flokkum; í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, í flokki barna- og ungmennabóka og í flokki fagurbókmennta.
Það er Félag íslenskra bókaútgefenda sem veitir Íslensku bókmenntaverðlaunin árlega í lok janúar. Bækur Sögufélags hafa iðulega verið tilnefndar í flokki fræðirita undanfarin ár. Skemmst er að minnast bóka Steinunnar Kristjánsdóttur um Leitina að klaustrunum og Vilhelms Vilhelmssonar Sjálfstætt fólk sem báðar voru tilnefndar árið 2017.
Að þessu sinni hlaut bókin glæsilega, Öræfahjörðin eftir Unni Birnu Karlsdóttur, tilnefningu ásamt fjórum öðrum ritum. Í dómnefnd sátu Knútur Hafsteinsson, formaður, Árni Sigurðsson og Kolbrún Elfa Sigurðardóttir.
Í þessari viðamiklu bók er rakin saga hreindýra á Íslandi frá upphafi til okkar daga. Meðal svo ótalmargs annars eru sagðar sögur af harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og misjöfnum tilraunum til hreindýrabúskapar. Hún er nú fáanleg á öndvegisverði á vefsíðu Sögufélags.