Nýr framkvæmdastjóri Sögufélags

Tímamót urðu í rekstri Sögufélags nú á dögunum þegar framkvæmdastjóri í fullu starfi var ráðinn til félagsins frá 1. nóvember næstkomandi.

Brynhildur Ingvarsdóttir sagnfræðingur er nýr framkvæmdastjóri félagsins. Hún hefur áður starfað sem sviðstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Marinox ehf. og ASA ehf., og markaðsstjóri hjá ORF líftækni. Brynhildur er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA próf í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston. Hún hefur mikið unnið að verkefna- og sýningarstjórn, ritstjórn og birt greinar um söguleg efni. Þá hefur hún á starfsferli sínum einnig unnið að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum. Brynhildur hefur setið í stjórn Sögufélags síðan 2016 og síðustu mánuði tekið að sér tímabundin störf fyrir félagið. Stjórn Sögufélags býður hana hjartanlega velkomna til starfa fyrir Sögufélag.