Tímaritið Saga hefur fyrir löngu áunnið sér sess sem fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga. Það kemur út tvisvar á ári og í því birtast ritrýndar fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum sagnfræði og sögulegra fræða. Saga leggur ennfremur metnað sinn í að fjalla um nýlega útkomin rit sem tengjast sögu Íslands eða íslenskum fræðaheimi. Áskrifendur Sögu eru jafnframt félagar í Sögufélagi.

Ritstjórar Sögu eru dr. Vilhelm Vilhelmsson og Kristín Svava Tómasdóttir. Hafa má samband við ritstjóra Sögu gegnum netfangið saga@sogufelag.is

Ritstjórunum til fulltingis starfar fagleg ritnefnd.

Ritnefnd Sögu frá 1. janúar 2021:
Anna Agnarsdóttir
Auður Magnúsdóttir
Davíð Ólafsson
Erla Hulda Halldórsdóttir
Helgi Þorláksson
Karen Oslund
Óðinn Melsted
Páll Björnsson
Ragnheiður Kristjánsdóttir
Sveinn Agnarsson
Viðar Pálsson

Ritnefndarmeðlimir eru valdir af stjórn Sögufélags eftir tillögu ritstjóra. Seta í ritnefnd skal vera í þrjú ár í senn en með möguleika á endurnýjun að þeim tíma liðnum.

  • Ritnefndarmeðlimir skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á sínu sviði
  • Í ritnefnd skulu vera sérfræðingar á öllum helstu sérsviðum sagnfræðinnar og í öllum tímabilum (miðaldir, árnýöld, nýöld, samtímasaga)
  • Samsetning ritnefndar skal gæta jafnræðis hvað varðar kyn, stöðu og starfsaldur
  • Leitast skal eftir að ritnefndarmeðlimir séu frá a.m.k. þremur aðskildum rannsóknarstofnunum sé þess kostur

Ritnefnd Sögu er fagráð sem veitir ritstjórum ráðgjöf og aðhald í þeim tilgangi að halda á lofti faglegum gildum og fræðilegum vinnubrögðum við útgáfu tímaritsins. Nefndin samanstendur af tólf sérfræðingum með fjölbreyttan bakgrunn og sérþekkingu.

Á meðal hlutverka ritnefndar er:

  • Að veita ritstjórum ráðgjöf varðandi stefnumörkun og vinnureglur (ritreglur o.s.frv.)
  • Að veita álit sitt á vafaatriðum um ritstjórnarleg málefni
  • Að ritrýna greinar óski ritstjórar þess
  • Að ritstýra einstaka greinum komi hagsmunaárekstrar í veg fyrir faglegt hlutleysi ritstjóra
  • Að tala máli tímaritsins í fræðasamfélaginu, hvetja höfunda til að birta efni í Sögu og vísa ritstjórum á álitlegt efni til birtingar
  • Að taka þátt í árlegum fundi með ritstjórum þar sem staða Sögu er rædd, framtíðaráform, efni og efnistök og hvers kyns álitamál

Lengdarmörk ritrýndra greina í Sögu eru 8–10.000 orð. Um frágang efnis sem lagt er fram til birtingar gilda ritreglur Sögu.

Tímaritið birtir þrenns konar umfjallanir um bækur: a) ítardóma þar sem nokkur rit eru borin saman í lengra máli, b) ritdóma um einstök verk, og c) ritfregnir sem ætlað er að vera stutt kynning á mikilvægum sögulegum fræðiritum, s.s. greinasöfnum, ráðstefnuritum, uppsláttarritum, stoðritum og þýddum verkum.
Leiðbeiningar fyrir höfunda ítardóma, ritdóma og ritfregna.

Ritstjórar og ritnefnd Sögu bera ritstjórnarlega ábyrgð á öllu efni tímaritsins. Sögufélag og ritstjórn Sögu starfa eftir siðareglum Sagnfræðingafélags Íslands.


Tímaritið Saga hóf göngu sína árið 1949. Fyrstu árin kom Saga út í örkum og var nokkrum árlegum arkarútgáfum síðan slegið saman í eitt bindi. Þetta veldur því að merktir árgangar útgáfunnar eru mun færri en útgáfuárin segja til um.

Frá áttunda áratug 20. aldar kom Saga út reglulega, eitt myndarlegt hefti á ári hverju. Árið 2002 hóf Saga síðan að koma út í tveimur heftum árlega, að vori og hausti. Í dag eru eldri árgangar Sögu allir aðgengilegir á Tímarit.is.

Sögufélag hefur gefið út tvö tímarit önnur en Sögu: Blöndu og Nýja sögu. Forgöngumenn félagsins höfðu skilning á því að ekki væri nægilegt að bera á borð það hráefni í sögu sem heimildir eru, heldur þyrfti að vinna úr efninu læsilegar frásagnir við hæfi almennings. Þetta miðlunarhlutverk rækti félagið fyrst með því að gefa út Blöndu á árunum 1918-1953. Tímaritið birti ritgerðir og ýmiss konar heimildafróðleik og hlaut brátt miklar vinsældir. Blanda er aðgengileg í heild sinni á Tímarit.is.

Á árunum 1987-2001 gaf Sögufélag út tímaritið Nýja sögu, en það hóf göngu sína að frumkvæði ungra sagnfræðinga í Sögufélagi. Markmið útgáfunnar var að ná til víðari hóps lesenda en tekist hafði með Sögu; að því átti meðal annars að stuðla nýstárleg hönnun og birting mynda. Ný saga kom út til ársins 2001, alls 13 árgangar, en þegar Saga fór að koma út tvisvar á ári var útgáfu Nýrrar sögu hætt. Rétt eins og Blanda er Ný saga öll aðgengileg á Tímarit.is.