Skammt er stórra högga á milli hjá Unni Birnu Karlsdóttur og Sögufélagi. Skömmu eftir að ljóst varð um tilnefningu Öræfahjarðarinnar: Sögu hreindýra á Íslandi til Íslensku bókmenntaverðlaunanna var tilkynnt að hún ætti einnig möguleika á að fá Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlauna kvenna árið 2020.
Þann 3. desember var tilkynnt við skemmtilega athöfn í Borgarbókasafninu í Grófinni hverjar þær níu bækur væru sem tilnefndar eru að þessu sinni til Fjöruverðlaunanna. Öræfahjörðin er þar á meðal.
Fjöruverðlaunin eru veitt árlega fyrir fagurbókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis og barna- og unglingabækur. Með verðlaununum á að auka kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2007 og á hverju ári þaðan í frá.
Í rökstuðningi sínum um tilnefningu Öræfahjarðarinnar segir dómnefnd, sem skipuð var Dalrúnu J. Eygerðardóttur, Sóleyju Björk Guðmundsdóttur og Þórunni Blöndal, í rökstuðningi sínum að hér sé á ferð „ … ítarleg umhverfissagnfræðileg rannsókn á sögu sambýlis Íslendinga og tignarlegra hreindýra runnum frá Finnmörku; huldudýrum hálendisins. Lífshættir íslenskra hreindýra hafa verið sveipaðir ákveðinni dulúð, enda megin búsvæði þeirra fjarri mannabyggðum.“
Dómnefndin segir einnig að Unnur Birna Karlsdóttir geri „ … lesandanum kleift að upplifa sögu hreindýranna, með lýsandi texta og ljósmyndum, sem í senn dýpka frásögnina og færa okkur nær heimi hreindýranna.“