Sögufélag mun kynna allar bækurnar sem út komu í haust á Bókamessu í bókmenntaborg í Hörpu helgina 24. – 25. nóvember. Nokkrir höfundanna munu verða á staðnum að árita bækur sínar sem verða boðnar á góðu verði.
Bókamessan er opin báða dagana frá kl. 11 til 17.
Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur verður með sögugöngu í tengslum við Bókamessuna frá Hörpu sunnudaginn 25. nóvember kl. 15.
Gengið verður um miðbæ Reykjavíkur og staldrað við hjá byggingum og stöðum sem tengjast sögulegum viðburðum ársins 1918 í aðdraganda þess að Ísland varð fullvalda.
Þá gekk á ýmsu bæði í mannlífi og náttúru: Kötlugos, jökulhlaup, frostaveturinn mikli og hin skæða spænska veiki sem kom um 500 Íslendingum í gröfina. Þann fyrsta desember þetta ár átti hins vegar sá merki og jákvæði atburður sér stað að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.
Gunnar Þór segir frá á skemmtilegan og lifandi hátt eins og honum einum er lagið. Í göngunni verður farið á slóðir fullveldis sem hann fjallar um í bók sinni Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Bókin kom nýlega út hjá Sögufélagi í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.
Lagt verður af stað kl. 15:00 og gengið frá listaverki Ólafar Pálsdóttur, Tónlistarmanninum við Hörpu. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Leiðsögnin fer fram á íslensku.
Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.