Við fögnum útgáfu bókarinnar, Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi.

Sögufélag blæs til útgáfuhófs 25. september kl. 16 í Gunnarshúsi.

Hvernig var að búa á gamla Íslandi, landi bænda og sjómanna, höfðingja og almúgamanna? Árið 1702 sendi Danakonungur rannsóknarnefnd til Íslands til að gera úttekt á ástandi lands og þjóðar. Nefndin tók saman manntal, kvikfjártal og jarðabók, sem veita einstaklega nákvæmar upplýsingar um lífskjör Íslendinga. Fjölskyldur og heimili, byggð og búsvæði, jarðaskipan og ólík húsakynni fólks birtast ljóslifandi í þessum heimildum. Lýst er stöðu og hag ólíkra stétta og hópa allt frá höfðingjum til lausingja og ómaga. Eignarhald á jörðum er kannað og leitaði svara við spurningunni: Hverjir áttu Ísland?

Ritstjórinn, Guðmundur Jónsson, kynnir efni bókarinnar sem er safn 11 greina  eftir 7 höfunda og fjallar um ástand lands og þjóðar við upphaf 18. aldar frá ýmsum hliðum.

Jafnframt mun Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, opna nýjan vef, Gagnagrunn um samfélagsgerð Íslands 1703 (GUS-1703) sem unnin var í tengslum við útgáfu bókarinnar. Í honum eru samtengdar og landfræðilega hnitaðar upplýsingar um Íslendinga og íslenskt samfélag í byrjun 18. aldar og eru upplýsingarnar fengnar úr elsta manntali á Íslandi, manntalinu 1703, svo og kvikfjártalinu 1703 og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1702–1714. Gagnagrunnurinn hefur því að geyma upplýsingar um alla Íslendinga, fjölskyldur, heimili, jarðir og búfé frá þessum tíma.  Þau Björgvin Sigurðsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Óskar Guðlaugsson munu stíga á stokk og kynna vefinn fyrir gestum.

Viðburðinn verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 25. september kl. 16 – 18.